— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Í stað þess að bretta upp ermar og leita nýrra lausna fer meirihlutinn á hraða snigilsins við að reyna að leysa vandann og hefur enn ekki tekist að leysa hann þegar kjörtímabilið er tæplega hálfnað,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í samtali við Morgunblaðið.

Þetta eru viðbrögð hennar við því að meirihluti skóla- og frístundaráðs borgarinnar felldi fyrr í vikunni tillögu sjálfstæðismanna í ráðinu, um að tekið verði upp svokallað Kópavogsmódel í leikskólum borgarinnar með það að markmiði að nýta þau pláss í leikskólunum sem eru vannýtt vegna manneklu, veikinda og álags á starfsfólk.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu sem lögð var fram að fenginni framangreindri niðurstöðu segir m.a. að ljóst sé að meirihlutinn neiti að horfast í augu við þann bráðavanda sem steðji að leikskólum Reykjavíkur. Enn hafi ekki tekist að stytta biðlista barna eftir leikskólavist og meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla hafi farið hækkandi. Meira að segja sé svo komið að sum barnanna séu komin vel á þriðja ár þegar þau komast loks í leikskóla.

„Í sumum leikskólum hefur þjónustan verið skert, senda hefur þurft börnin fyrr heim og jafnvel skerða vist þeirra um heilan dag. Þá er ekki hægt að nýta 140 pláss vegna manneklu og 363 pláss vegna framkvæmda við leikskólana vegna viðhaldsleysis. Þetta gerir samtals 510 pláss sem ekki er hægt að nýta. Þetta samsvarar því að allt að 7 leikskólar væru ekki starfandi eða lokaðir. Þrátt fyrir þessar staðreyndir lokar meirihlutinn augunum fyrir að skoða lausnir sem gefist hafa vel í öðrum sveitarfélögum,“ segir í bókuninni.

„Það ríkir neyðarástand í leikskólamálum í borginni og bitnar á barnafjölskyldum sem verða fyrir tekjumissi vegna þess að foreldrar komast ekki inn á vinnumarkaðinn eftir fæðingarorlof og þurfa jafnvel að bíða yfir þrjú ár eftir leikskólaplássi fyrir börnin sín,“ segir Marta.

Hún bendir á að meðalaldur barna sem fá inngöngu í leikskóla fari síhækkandi. Nú séu 1.327 börn á biðlistum eftir plássi í leikskólum sem borgin rekur, en þá eru ekki meðtalin þau börn sem bíða eftir inngöngu í einkarekna leikskóla. Alls séu um 1.600 á biðlista og t.d. sé fjöldi barna 30 mánaða og eldri 221. „Það er algert viljaleysi að fara nýjar leiðir,“ segir Marta.

Leikskólakennarar taka ekki undir vettlingagjörning

Brýnast að standa við loforð

Stjórn Félags leikskólakennara telur brýnast að staðið verði við gefin loforð um jöfnun launa á milli markaða, en ekki „boðaðar skyndilausnir sem engu skila,“ segir í ályktun stjórnar félagsins.

Þannig brást Félag leikskólakennara við gjörningi sjálfstæðismanna í borgarstjórn fyrr í vikunni, þegar jafn mörgum vettlingum var raðað á gólfið í Tjarnarsal Ráðhússins og nemur þeim fjölda reykvískra barna sem vantar leikskólapláss.

Kvartaði stjórnin yfir því að engin formleg vinna væri í gangi við skipulagningu skólastarfs í leikskólum og því síður vinna við skoðun þess að taka 5 ára gömul börn inn í grunnskóla. Leggst félagið gegn slíkum hugmyndum og segir þær ekki börnunum fyrir bestu.