Guðmundur Halldór Guðmundsson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1930. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. febrúar 2024.

Hann var sonur hjónanna Guðmundar B. Halldórssonar og Elísabetar G. Guðmundsdóttur. Bræður hans voru Sigurður og Hörður.

Árið 1954 gekk hann í hjónaband með Gerðu F. Wattrodt. Börn þeirra eru: 1) Ástríður E., f. 1954. Maður hennar Hervé Alexander Depuydt og sonur þeirra Samúel. 2) Ragnheiður, f. 1957. Maður hennar Mark G. Davidson, synir þeirra Tómas og Andrés. 3) Hans K., f. 1960. Kona hans Elísabet Jónsdóttir og dætur hans Sóley og Helena.

Guðmundur gekk í barnaskóla á Finnbogastöðum í Árneshreppi Strandasýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Eftir stúdentspróf fór hann til Þýskalands og lærði efnaverkfræði við Technische Universität München. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Gerðu Fríðu Wattrodt. Þau giftu sig 17. apríl 1954. Seinna á árinu fékk Gerða embættisveitingu við grunnskóla nálægt Hannover og þau hjónin fögnuðu komu elsta barnsins, Ástríðar Elísabetar, 16. nóvember 1954. Guðmundur skipti þá um skóla til að vera nálægt fjölskyldu sinni og lauk námi sínu við Leibniz Universität Hannover. Í Hannover fæddist yngri dóttir þeirra, Ragnheiður, 7. júlí 1957. Árið 1958 flutti fjölskyldan heim til Íslands. Þar eignuðust þau soninn Hans Kristján 24. maí 1960.

Guðmundur vann fyrst hjá málningarverksmiðjunni Hörpu. Seinna vann hann hjá Rannsóknastofnun iðnaðarins, kenndi við Tækniskólann og Sjómannaskólann en byrjaði síðan að vinna fyrir Álverið í Straumsvík kringum 1970. Hann vann þar hjá ISAL þangað til hann fór á eftirlaun.

Útför hans fór fram 22. ferbúar 2024.

Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum í Reykjavík, lengst af á Framnesvegi. En þegar hann stálpaðist var hann sendur í sveit til móðurbróður síns Guðmundar P. Guðmundssonar (Munda) á Melum í Trékyllisvík á Ströndum. Hann dvaldi þar langdvölum og þar af níu ár árið um kring. Hann hafði hugsað sér að taka við býlinu af frænda sínum í fyllingu tímans en svo gerðist lítið atvik sem breytti öllu og líf hans tók allt aðra stefnu.

Hann setti stefnuna á nám og las til stúdents í MR samtímis bróður sínum Sigurði og þeir fara síðan báðir til náms í München í Þýskalandi. En dag einn gerist atvik sem gaf lífsstefnunni nýjan farveg. Ung og fönguleg kona knýr dyra hjá þeim bræðrum og biður um hjálp til að útvega sér bækur á íslensku. Hún hafði ferðast um Ísland og heillast af landi og þjóð og vildi læra eitthvað í málinu til að geta talað við þetta indæla fólk. Guðmundur var auðvitað meira en fús til að hjálpa henni og brátt felldu þau hugi saman og gengu í hjónaband 1954. Dætur sínar eignuðust þau í Þýskalandi ('54 og '57) en sonurinn fæddist eftir að þau fluttu til Íslands ('60). Þau höfðu hugsað sér að flytja til Noregs þegar Guðmundur hefði lokið þriggja ára vinnu á Íslandi sem krafist var af stúdentum sem þegið höfðu námslán.

En þetta breyttist allt í kjölfar annarrar heimsóknar. Dag einn knýr ung kona, Tove Schröde, dyra hjá mömmu og vill ræða við hana um andleg mál. Foreldrar okkar voru þróunarsinnar og efahyggjufólk en samt forvitin um Biblíuna sem bókmenntaverk. Tove kom því aftur í heimsókn til að hitta þau bæði. Henni tókst með ákaflega einföldum rökum að fá pabba til að efast um stund um að allt hafi orðið til að sjálfu sér án hönnunar og hugvits. Hann fór því að rannsaka þróunarkenninguna á ný með aðeins gagnrýnni hugsun og sá að þetta er kenning sem gefur sér ótal forsendur og stangast á við nokkur grundvallarlögmál eðlisfræðinnar eins og t.d. lögmálið um óreiðuna eða annað lögmál varmafræðinnar og reyndar líka fyrsta lögmál varmafræðinnar. Þetta umræðuefni ásamt ást á sköpunarverkinu og undrum þess var honum alltaf sérstaklega hugleikið. Síðan hellti hann sér í rannsókn á spádómum Biblíunnar sem heilluðu hann vegna söguáhuga síns. Eftir ótal svefnlausar nætur sannfærðist hann um áreiðanleika Biblíunnar.

Foreldrar okkar gerðust vottar Jehóva 1962 og ákváðu að helga Íslandi starfskrafta sína. Heimilið sem þau skópu okkur var mjög örvandi. Líflegar rökræður með alfræðibækur við höndina voru mjög tíðar. Gestrisni var honum í blóð borin og var því oft gestkvæmt hjá okkur og glatt á hjalla. Hann var ástríkur faðir og einstaklega trygglyndur og bar traust til okkar. Alla ævi hafði hann yndi af að auka þekkingu sína og hvatti okkur til að gera það líka. Hann hafði þó enn meiri löngun til að bæta sig og verða að betri persónu. Hann elskaði fólk og hann elskaði sannleikann og hafði hugrekki til að hlýða sannfæringu sinni.

Trú hans á upprisuna var óhagganleg og þegar ljóst var hvert stefndi með sjúkdóminn talaði hann af mikilli tilhlökkun um tímann fram undan þegar þetta stórkostlega fyrirheit rætist: „Þú munt kalla og ég svara þér.“ (Job. 14:15)

Ástríður E.
Guðmundsdóttir,
Ragnheiður
Guðmundsdóttir.