Rósa Þóra Hallgrímsdóttir fæddist 4. maí 1951. Hún lést 5. apríl 2024. Útför hennar fór fram 24. apríl 2024.

Elsku besta Rósa. Á svona stundu er erfitt að finna orðin. Ég á erfitt með að trúa því að þú sért farin og finn fyrir miklum söknuði en um leið þakklæti fyrir að hafa verið svo lánsöm að þekkja þig allt mitt líf.

Ég á dýrmætar minningar af okkur frá því ég man eftir mér en milli okkar ríkti alveg sérstakt samband þar sem væntumþykjan skein í gegn á báða bóga. Ég leitaði mikið til þín og ég fann hvað þér þótti innilega vænt um mig og okkar samband.

Ég var svo heppin að fá að dvelja mikið hjá þér í gegnum tíðina. Fyrsta sumarið okkar saman var þegar ég aðeins tveggja ára og kom ég svo eftir það reglulega til þín yfir sumartímann þar sem við vorum tvær saman ásamt Halla frænda og Kubbi í sveitinni. Þú varst alltaf að bralla eitthvað með mér og kenndir mér svo margt, eins og að skíða, hjóla og synda, en dýrmætustu stundirnar voru sumarkvöldin í Kristnesi þar sem við vorum tvær saman í rólegheitunum og þú að klóra mér mjúklega á bakinu eins og þú gerðir best og segja mér skemmtilegar sögur.

Þú kenndir mér einnig mikilvægi þess að gefa sér tíma fyrir þá sem manni þykir vænt um. Þú varst svo dugleg að hringja í mig og athuga hvernig við hefðum það og við gátum spjallað heillengi um allt og ekkert. Mér þótti svo gott að hringja í þig og Sölku Björt og Sóllilju þótti það einnig en þú ljómaðir alltaf þegar þú sást þær. Þegar Salka Björt fæddist varð hún strax bestasta þín eins og þú kallaðir hana og svo bættist Sóllilja í hópinn. Saman voru þær systur bestustu þínar og hvílík heppni fyrir þær að fá að njóta þín í þennan tíma.

Þótt mikið hafi gengið á í veikindum þínum sl. ár gafstu þér alltaf tíma fyrir þitt nánasta fólk og lést ekkert stoppa þig. Æðruleysið sem þú bjóst yfir í gegnum veikindin var aðdáunarvert og mun ég ávallt taka mér þig til fyrirmyndar.

Ég er ólýsanlega sorgmædd yfir að þú sért farin frá okkur en ég mun halda áfram að minnast þín og ég veit að þú passar upp á mig og stelpurnar. Takk fyrir allt sem þú gafst mér. Þín verður sárt saknað.

Hvíldu í friði.

Þín

Birta.

Lífið getur verið svo fallegt en um leið svo sárt, þannig upplifði ég lífslok minnar kæru tryggu vinkonu Rósu Þóru.

Hallgrímur einkasonur hennar og Viktoría kona hans uppfylltu hennar hinstu ósk um að fá að kveðja þessa jarðvist heima í faðmi fjölskyldu og vina. Heimahjúkrunin frá Heimahlynningu Akureyrarbæjar kom þrisvar sinnum á sólarhring og var unnin af einstakri fagmennsku og nærgætni.

Það að verða vitni að þeirri virðingu og hlýhug þegar öll vaktin hans Halla hjá Slökkviliði Akureyrar kom til að votta samúð sína og styðja vinnufélaga sinn var bæði fallegt og sárt er Rósa Þóra var borin út frá heimili þeirra í hinsta sinn.

Persónuleiki Rósu Þóru einkenndist af kærleika, hún átti stóran faðm og var alltaf til staðar fyrir fjölskyldu sína og vini og gaf af hjartahlýju sinni. Hún var líka keppnismanneskja að eðlisfari, það var ekki til umræðu að gefast upp og á ég margar minningar um það.

Þegar við vorum ungir hjúkrunarfræðingar starfandi á FSN í Neskaupstað datt okkur í hug á góðviðrisdegi að ganga upp í Drangaskarð (660 metra hátt). Við gengum upp á röngum stað og komumst í sjálfheldu, það var ekki til umræðu að gefast upp heldur skriðum við á fjórum fótum þar til við höfðum örugga fótfestu og upp komumst við alla leið, stoltar.

Hún var ekki eingöngu lærður hjúkrunarfræðingur, áður lærði hún íþróttafræði og kenndi börnum okkar bæði sund og á skíði sem þau minnast með þakklæti.

Það var fastur liður hjá okkur Rósu Þóru að tala saman í síma á meðan landsleikir í handbolta stóðu yfir bæði karla og kvenna. Hún var alltaf búin að undirbúa sig, þekkti hvern leikmann og úr hvaða liði hann kom og fleira. Einnig var hún með allar reglur á hreinu að sjálfsögðu, var eins og uppflettirit fyrir mig.

Við skemmtum okkur oft yfir að hlusta á alls konar tónlist og pæla í textum. Leonard Cohen var í uppáhaldi þó svo að við skildum ekki alltaf hvað hann var að fara, en melódían var falleg eins og t.d. „Dance Me to End of love“.

Það var mikil gæfa þegar hún eignaðist Halla sinn sem ég fékk líka að vera viðstödd. Við studdum hvor aðra á margan hátt og sérstaklega við umönnun og gæslu barna okkar í mörg ár.

Síðustu ár hefur Rósa Þóra notið þess að búa nálægt syni sínum og fjölskyldu og fengið að fylgjast með ljósinu sínu, Adrian Þór.

Með söknuði og þakklæti í huga kveð ég nú mína kæru vinkonu og sendi innilegar samúðarkveðjur til Halla, Viktoríu, Adrians Þórs, Ingibjargar, Jóhönnu og annarra aðstandenda. Minning hennar lifir.

Ruth
Guðbjartsdóttir.

Alltaf til staðar, alltaf eins og klettur, alltaf tilbúin að hlusta og setja sig í aðstæður. Kvart og ramakvein jafn fjarri og næsta stjörnuþoka. Alltaf til í grín og skemmtilegheit, sá gullna rönd við öll sorgarský. Það verður skarð eftir slíka konu.

Á sokkabandsárum okkar á Eskifirði var gott að þekkja Rósu Þóru sem og jafnan síðar. Það var til dæmis ekki mjög leiðinlegt að eiga vinkonu sem bjó beinlínis á Póst- og símstöðinni og fá að kíkja baksviðs þar. Upplifa leyndardóma fjarskiptatækninnar, símaskiptiboðið þar sem snúrum með járni á endanum var stungið í göt á vegg – og bang, þá gátu þorpsbúar og sveitafólk talað saman og jafnvel náð sambandi í fjarlægar sveitir eins og til Reykjavíkur. Eða pakkarnir og bréfin sem við máttum ekki anda á. Bernskuárin liðu við brask og brall og alltaf var Rósa fremst meðal jafningja, íþróttaálfur, hugrökk og hraust. Stundum má vera að henni þættu vinkonurnar dálítið litlar í sér. Gerði ekki mikið úr því en skildi, skildi, það var það sem hún gerði.

Eftir að Rósa Þóra fór að missa heilsu og þurfti að ganga við stafi, göngugrind og síðar að setjast í hjólastól kynntumst við nýrri hlið á henni. Það var engu líkara en fyrri tilhneigingar í skapgerðinni tækju að þenjast út, nefnilega jákvæðni, bjartsýni og hvatning til umhverfisins. „Látt' ekki svona“, „er eitthvert vesen á okkur núna?“, „heiiii, ég er ekki farlama!“ Hún ætlaði, vildi og gerði. Sífur og sút ekki í myndarammanum hennar. Á ferðalögum okkar þríeykisins til Skotlands, Svíþjóðar og Danmerkur þurfti sko ekki að taka tillit til þess að ein okkar væri ekki alveg jafnfljót og hinar. Það var bara svoleiðis og ekki orð um það meir.

Rósa Þóra var einstaklega fordómalaus og umhyggjusamur vinur. Á sérlega hógværan og lágstemmdan hátt tókst henni að láta samferðamönnum sínum líða eins og þeir væru mikilvægir og málefni þeirra umræðunnar virði. Og þótt hún gæti gert grín að vinkonum sínum fyrir einhvern endemis klaufaskap, þá var grínið þrungið skilningi og jákvæðni. Þetta er sennilega það sem heitir að vera „gefandi manneskja“ sem hlýtur að vera eitthvað það fallegasta sem prýtt getur hverja manneskju.

Nú hefur okkar hjartkæra vinkona haft vistaskipti og farið á næsta tilverusvið, en við sem eftir erum ornum okkur við minningar og þakklæti fyrir að hafa átt hana að í næstum 73 ár.

Innilegar kveðjur til Hallgríms sonar hennar, Viktoríu tengdadóttur og litla prinsins, Adríans Þórs. Einnig til systra Rósu Þóru, þeirra Ingibjargar og Jóhönnu, og fjölmargra frænka, frænda og vina, sem nú syrgja tryggan vin.

Söknuðurinn og sorgin

er sviði í einmana hjarta,

sem lengur veit ei hvort það lifir eða deyr.

Hver minning er myndin bjarta

sem máir út allt það svarta

og þerrar vanga sem vermandi hnúkaþeyr.

Vináttan sjálf er værðin,

vonin sem kveikir ljósin,

sem umvefur ástúð er eitthvað bjátar á.

Hún er áin sem finnur ósinn,

ilmur sem gefur rósin,

hún er gullakistan sem æ verður okkur hjá.

(USB)

Vertu sæl, fagra sál, við gleymum þér aldrei.

Guðný Anna og
Unnur Sólrún.

Mikið er erfitt að kveðja góðan vin en minningar ylja engu að síður þegar litið er yfir farinn veg. Ekki get ég sagt til um hvenær eða hvar ég hitti Rósu Þóru fyrst en hún hefur alla mína tíð verið fastur punktur í tilverunni. Fyrsta sem kemur upp í hugann eru hlátrasköll úr eldhúsinu á æskuheimilinu þegar hún var í heimsókn en hún og mamma gátu sko blaðrað börkinn af trjánum. Fyrir hartnær 45 árum kynntust hún og móðir mín Ruth þar sem þær unnu saman sem hjúkrunarfræðingar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Mikil vinátta og stuðningur myndaðist þeirra á milli og var Rósa Þóra meira heima hjá okkur en á sínu eigin heimili, slíkt var sambandið. Faðir okkar systkina sótti sjóinn og sinnti móðir okkar vaktavinnu á spítalanum og þurfti oft að púsla hver ætti að huga að barnahópnum á heimilinu. Rósa var fljót að stíga inn þeim til stuðnings með dug og gleði að vopni sem var henni eðlislægt. Svo fór að hún bjó hjá okkur í nokkurn tíma og fengum við að sama skapi að vera henni til stuðnings þegar hún átti gullmolann sinn hann Hallgrím. Ég man það sem í gær þegar ég frétti að lítill drengur væri fæddur og fannst ég hafa eignast lítinn bróður og þótti mikið til um enda yngst systkinanna.

Hún Rósa Þóra átti góðan og hlýjan faðm. Hún var einstaklega vina- og ættrækin og átti maður oft fullt í fangi við að svara spurningaflóði hennar þegar einhver tími leið á milli hittinga og símtala. Hún hafði alltaf áhuga á að heyra hvað við værum að bralla hverju sinni og hafði gaman af misjöfnum sögum um lífið og tilveruna. Hún hafði einstakt lag að fá okkur til að segja frá hugsunum og skoðunum. Ef einhver var uppgjöfin var hún snögg að benda á að slíkt væri ekki í boði.

Það er seint hægt að segja að við systkinin séum miklar íþróttamanneskjur en þá íþróttaiðkun sem við höfum í farteskinu getum við þakkað „fóstru“ okkar enda var hún lærður íþróttafræðingur og sýndi okkur fram á að hver sem er gæti stundað íþróttir. Hún kenndi okkur á skíði og að synda og eigum við öll góðar minningar bæði úr sundlauginni sem og skíðasvæðinu þegar hún leiðbeindi okkur réttu handtökin í hvoru tveggja. Hún var þolinmóður kennari og ef við sögðumst ekki þora eða geta þá var svarið iðulega „þú veist ekki nema að prófa“ og þar við sat, við prófuðum og urðum betri með hana við hlið okkar.

Stórt skarð hefur verið höggvið í líf okkar sem þekktum Rósu Þóru og er það þyngra en tárum taki að hún fái ekki að fylgja barnabarninu sínu lengur eftir. Vinátta hennar og foreldra okkar var falleg og einstök. Við systkinin nutum góðs af og hefur hún alla tíð verið okkur dýrmæt. Það er ekki hægt að undirstrika nægjanlega hversu mikil áhrif Rósa Þóra hafði á barnæsku okkar en við horfum til baka með þakklæti, hlýju og væntumþykju efst í huga þegar við kveðjum góða og hjartahlýja konu.

Elsku Halli, Viktoría, Adrian Þór, Ingibjörg, Jóhanna og fjölskylda, ykkar missir er mikill. Ykkur viljum við votta okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd systkina minna Steinunnar og Guðbjarts Óla Kristjánsbarna,

María
Kristjánsdóttir.