Það er vor í lofti, – Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir: Máríerlan marga heillar, mjúkt um loftið þýtur. Stéli nettu, stolt hún sveiflar, strá í hreiður brýtur. Vor í dal, segir Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn og heldur áfram: Tókst að…

Það er vor í lofti, – Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir:

Máríerlan marga heillar,

mjúkt um loftið þýtur.

Stéli nettu, stolt hún sveiflar,

strá í hreiður brýtur.

Vor í dal, segir Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn og heldur áfram: Tókst að böðla dráttarvél yfir skafla og koma inn heyrúllu eftir mánaðar gjöf úr hlöðu. Lóan komin og Halla Hrund á mikilli siglingu til Bessastaða. Virkilega góður og deilingarhæfur dagur:

Nú bjart er jafnt úti sem inni

og öll er tilveran grín.

Það sumrar í sveitinni minni

og sólin á jökulinn skín.

Reinhold Richter er í sólskinsskapi:

Oft er gott að yrkja smá

erindi á vorin

því að nú er næstum frá

nefrennsli og horinn.

Nokkrar feitar flugu hér

flugur inn um gluggann

og segli þöndu fjörðinn fer

fjarska lítil duggan.

Áðan Signý systir mín

sat hér úti á stétt.

Að 'ún mjólki ána sín

ekki þykir frétt

Bjarni Jónsson yrkir við ljósmynd:

Gleðigjafi

Heim kom í hríðaréli

hugrakka litla perlan.

Stöðugt veifaði stéli

á stöplinum maríuerlan.

Jón Atli Játvarðarson skrifar: Fólk sem er í svo viðkvæmri stöðu, að það fyllir varla stuðningsmannalistann en blóðlangar á Bessastaði, heldur að ævintýrið sé rétt að byrja. Ég held að Tjaldur og Spói nái þessu. Sama hvað öllum kjólgopum og kjóabringum líður:

Gengur vel á vistirnar,

vel á stóð með fyrirheit.

Flæmast yfir flatirnar

fuglar tveir í ormaleit.

Enn um forsetakjörið, segir Jón Atli og heldur áfram: Ekki bara metnaður til þjónustu við þjóðina, heldur líka vængjasláttur furðufugla í forsetavalinu sjálfu. „Fólkið velur forsetann,“ eins og Gunnar Thoroddsen sagði í stuðningsyfirlýsingu við tengdaföður sinn, Ásgeir Ásgeirsson:

Framboðið er fráleitt plott,

framinn lagður undir.

Kjóabringa og kvinna flott,

kjaga spóagrundir.