Brynhildur Fjölnisdóttir fæddist 28. maí 1967. Hún lést 6. apríl 2024. Útför hennar fór fram 24. apríl 2024.

Brynhildur Fjölnisdóttir, móðursystir mín og guðmóðir. Maður naut hverrar stundar með henni Brynhildi, ég man þær ferðir sem ég fór með fjölskyldunni upp í bústað til þeirra ömmu og var það alltaf mjög notalegt. Húmorinn hennar Brynhildar og systra minnir mig alltaf á húmorinn hjá afa mínum heitnum. Hláturinn hennar ómaði hvar sem hún var, eins konar nornahlátur sem hún sjálf og við fjölskyldan grínuðumst með. Ég heyri hlátur hennar svo skýrt er ég skrifa þessi orð.

Ég á ennþá minningar frá því þegar ég var ungur drengur og við fórum saman með Brynhildi og fleirum hringinn í kringum landið. Ég sat í bílnum og náttúrulega stuttu eftir að við lögðum af stað spurði ég hvort við værum komin á næsta áfangastað, liðu svo nokkrar mínútur og spurði ég þá aftur: „Erum við að verða komin?“ án þess að vita að það væri að minnsta kosti nokkurra klukkutíma keyrsla á næsta stað. Snéri Brynhildur sér þá við í bílnum og sagði: „Keli, sérðu þessar gulu stangir sem liggja meðfram veginum?“ Ég kinkaði kolli. „Teldu hundrað af þessum stöngum og þá erum við kannski að verða komin á næsta stað.“ Hún kunni alveg á mann. Ég taldi og taldi og taldi þangað til að mér leiddist aftur og spurði svo þessarar frægu spurningar: „Erum við ekki að verða komin?“ Það hafði liðið korter og ennþá langt í næsta stað. Ég á góðar minningar af þessari ferð með henni Brynhildi.

Þegar ég minnist guðmóður minnar þá eru það góðar minningar. Ég heimsótti hana eins og ég gat þessi síðustu ár og átti margar góðar stundir með Brynhildi. Ég man sérstaklega þær stundir sem var hringt í mig til að aðstoða við tæknina á heimilinu, drukkum þá kaffi og te saman, ég spilaði oft tónlist fyrir hana á píanóið og við spjölluðum saman um margt, sérstaklega þá um tónlist og nýjasta dramað í kringum konungsfjölskyldur Evrópu. Tónlistin, eins og hún gerir hjá mörgum, sameinaði okkur á mörgum stundum. Ég sem lærður organisti og hún lærð í kirkjutónlist og sem söngvari, það var eitthvað sem við gátum alltaf talað um. Ég sýndi henni nýjar upptökur af uppáhaldsverkum hennar og hvaða nýja tónlistafólk var að gefa út plötur og sýndi henni smá sýnisdæmi í gegnum snjallsjónvarpið. Bach var alltaf efstur á þeim skala. Húmor hennar og hlátur var alveg einstakur. Hennar verður sárt saknað.

Ljósfaðir, viltu leiða mig,

ljá mér þinn sterka arm,

svala þorsta' og sefa harm,

í sannleika skapa undur ný,

beina mér birtuna í.

(Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Hrafnkell Karlsson.

Það er stórt skarð höggvið í frændsystkinahópinn okkar. Brynhildur elsku frænka er farin okkur frá, alltof snemma. Það er fjölskylduboð foreldra okkar frá Valdastöðum í Kjós. Hávær hlátrasköll Brynhildar eru það fyrsta sem mætir manni, og bros breiðist út því fjörugt kvöld er fram undan. Brynhildur, drottningin sjálf, situr fyrir miðju, ávallt glæsileg með sína ljósu lokka og dillandi hlátur. Hún sveiflast í bakföllum yfir skemmtilegum sögum um skrautlegan ættbogann og frásagnargáfa hennar tók flugið. Það var ávallt mikið hlegið en líka deilt um stjórnmál og menningu en boðin enduðu alltaf með stóru föstu faðmlagi í anda ömmu Guðrúnar. Við ólumst frændsystkinin flest upp í Hrauntungunni í Kópavogi, Brynhildur ein af þremur systrum og við fjórar. Líf okkar var því samtvinnað, þótt tilvera okkar hafi samt að mörgu leyti verið ólík. Við uppreisnargjarnar íþróttastelpur en þær tónlistarelskendur í samstilltri fjölskyldu.

Það var snemma ljóst hvað í henni Brynhildi bjó, mikið skap og raddstyrkur leyndi sér ekki strax í bernsku. Frá unga aldri þurfti hún að takast á við gifs og spelkur, aðgerðir og spítalavist – heimur sem var okkur systrum ókunnur. Hún tókst á við lífið og tilveruna með ótrúlegum viljastyrk, og þótt í henni gæti hvinið þá rann henni fljótt reiðin því Brynhildur var alltaf með húmorinn að vopni. Þótt boðum hafi fækkað þá höfum við samt heldur betur notið hennar kímnigáfu áfram. Fésbókarfærslur Brynhildur eru óviðjafnanlegar. Hún hafði einstakt lag á að sjá það skondna í þessu litla í tilverunni, fólki og samskiptum. Hún hlífði þar engum og síst sjálfri sér, tók alltaf afstöðu með þeim sem minna mega sín, eins og hún á kyn til, og skóf ekki af pólitískum skoðunum sínum. Frískur andblær lék um allt sem frá henni fór. Dagurinn var ávallt litríkari og bjartari eftir hressandi pósta frá henni er fengu mann til að skella upp úr.

Brynhildur var mikill fagurkeri og þar var ekkert undanskilið. Húsbúnaður, föt og karlmenn mátti aðeins vera af fínustu gerð og ægifagurt. Til hennar var því gjarnan leitað þegar reyndi á smekkvísi. Ef brúðkaup stóð fyrir dyrum var frænka að sjálfsögðu fengin til að velja tónlistina og syngja, þótt brúðguminn hafi hugsanlega ekki mætt hennar kröfum um fegurð og ættgöfgi. Þegar ein okkar hóf innflutning á tei með alls konar tilbrigðum var Brynhildur sú fyrsta sem leitað var til enda með mikla þekkingu á tedrykkju í anda breska aðalsfólksins. Hún lá þó ekki á skoðunum sínum ef fínheitum og grundvallarhefðum var ekki mætt á því sviði líkt og öðrum.

Það voru mikil gleðitíðindi þegar fréttist að Brynhildur ætti von á Arndísi Önnu sinni. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að þær mæðgur fái ekki meiri tíma saman en stærsta djásnið hennar Brynhildar fermist í vor. Hugur okkar og hjarta er í dag hjá Arndísi Önnu, Arndísi móður hennar, systrunum Ingibjörgu og Þorberu og fjölskyldum þeirra. Brynhildi frænku kveðjum við með sorg í hjarta og þakklæti fyrir hennar gjafir til gleðinnar og lífsins.

Diljá, Arney, Sif og Hrund.

Ævilöng vinátta. Eða því sem næst. Orð eru svo fátækleg til að lýsa þeim fjársjóði og gæfu sem slík vinátta er, ég vildi bara óska að ég þyrfti ekki að gera það nú, að Brynhildi vinkonu minni látinni, aðeins 56 ára að aldri. Þetta átti að verða á sextugsafmælinu – eða sjötugs, áttræðis, níræðis. Við vorum jú báðar svo ungar! Eða þannig leið okkur að minnsta kosti. En nú eru allar dýrmætu minningarnar sem ég á svo sannarlega margar og góðar.

Ég man ekki einu sinni eftir því þegar ég kynntist Brynhildi, því ég var tveggja ára og hún þriggja og við vorum saman á leikskólanum á Bjarnhólastíg í Kópavoginum, þar sem við ólumst báðar upp. Ég í Grænutungu 5 og hún niðri á næsta horni, í Hrauntungu 31. Við urðum vinkonur og óaðskiljanlegar, allan grunnskólann og áfram í MH. Minningar um litlar stelpur að leik, inni eða úti, alltaf var ímyndunaraflið látið ráða og hvað það var oft gaman hjá okkur! Spenningurinn að hringjast á til að fara yfir jólagjafirnar og hittast aftur eftir ferðalög. Þegar byrjað var í Víghól og allt annað en Barbí og búleikir fór að taka yfir hugann. Menntaskólinn og djammárin. Alltaf jafn miklar vinkonur. Einu hléin á samveru okkar fram til tvítugs voru þegar hún fór sem unglingur til Gautaborgar í aðgerð og síðan þegar ég fór til Bandaríkjanna til að gerast barnapía í eitt ár. Þá var oft erfitt að hafa ekki vinkonu sína en löng sendibréf og rándýr símtöl bættu það upp að einhverju leyti og auðvitað heimsótti hún mig um sumarið. Fróðlegt væri að lesa þessi bréf nú. Ég efast ekki um að þau séu á vísum stað í fórum Brynhildar, því hún var skipulagðasta manneskja sem ég hef kynnst. Það er eins og ég heyri röddina hennar: „Gunna Magga, bara gera lista og fara eftir honum og þá er þetta ekkert mál!“ Og svo skellihló hún af því að þetta var einn af okkar klassísku bröndurum, eins og óbeit mín á jólahaldi, en Brynhildur var mikið jólabarn. Þessi hái smitandi hlátur er það sem kemur svo oft upp í hugann þessa dagana og húmorinn sem alltaf var á sínum stað og svo stór hluti af hennar persónuleika, enda alin upp í kærleiksríkri fjölskyldu þar sem alltaf hefur mikið verið spjallað saman og hlegið. Aragrúi ljósmynda ber vitni langri vináttu, þar sem öllum tímamótum var fagnað saman. Þegar ég hugsa um Brynhildi þá er það létta skapið, ásamt mikilli ákveðni og tryggð við sína sem einkenndi hana svo mjög. Gildin hennar voru skýr og nýttust henni vel alla tíð í lífi þar sem margar áskoranir var við að eiga. Fæðing einkadótturinnar, Arndísar Önnu, augasteinsins í lífi móður sinnar, var ótrúleg gæfa og Brynhildur var svo sannarlega góð móðir. Í dag hugsa ég til Arndísar Önnu, augasteinsins og ljóssins hennar Brynhildar. Einhverntíma mun ég deila með henni minningum mínum af mömmu hennar eins og ég þekkti hana, traust, góð og skemmtileg vinkona alla tíð. Ég veit að Arndís Anna á góða og ástríka fjölskyldu og það er huggun en missirinn er mikill. Að leiðarlokum þakka ég góðri vinkonu samferðina, minningin lifir í hugum okkar sem elskuðum hana.

Guðrún Margrét Baldursdóttir.

Það fyrsta sem Brynhildur vinkona mín gerði þegar hún fékk þær vondu fréttir að hún væri komin með krabbamein var að setjast fyrir framan sjónvarpið og hverfa inn í horfna en ódauðlega veröld Evelyns Waughs, eins og hún birtist í sjónvarpsþáttaröðinni Brideshead Revisited, til að heilsa þar upp á gamla vini sína, þá Charles Ryder og Sebastian Flyte. Algjörlega frábær hugmynd sem enginn hefði getað fengið nema Brynhildur, sem kunni svo vel að njóta skáldskapar í öllum formum þótt mikið færi fyrir dálæti hennar á vönduðu bresku sjónvarpsefni. Þetta form má segja að hafi verið hennar sérsvið; hún átti þar „sína menn“, eins og við sögðum stundum, og lét engan segja sér neitt í þeim efnum. Angi af þessari ástríðu var áhugi hennar og þekking á bresku konungsfjölskyldunni, og ekki var hún síður vel að sér um sögu danskra kónga og drottninga langt aftur í aldir. „Royalismi“ Brynhildar var því hálfvegis sögulegur, og eiginlega alveg sér á báti því það fylgdi honum svo mikil gleði, svo mikill galsi: Pappírsfígúra af Karl III í fullri stærð við útidyrnar á Hlíðarvegi á krýningardegi, Dannebrog dreginn að húni í hálfgerðu hláturskasti á lítilli fánastöng á kaffiborði í Lækjarsmára í tilefni brúðkaups Friðriks Danaprins. Og så videre. Og það er í raun það sem segja má um Brynhildi: hún var sannarlega skarpvitur og ákveðin kona, ritfær og hrifnæmur fagurkeri sem skapaði með söng og útsaumi, en fyrst og fremst svo ferlega skemmtileg manneskja. Léttleiki hennar og glaðværð var manni þó stundum ráðgáta, eða kannski frekar áminning, því andstreymið var nokkurt hvað líkamlega heilsu áhrærði, allt frá unglingsaldri. En gæfan var henni líka hliðholl í lífinu. Því komumst við að, við sem höfðum kynnst henni í menntaskóla, þegar okkur var boðið inn á æskuheimilið í Hrauntungu um miðjan 9. áratuginn. Við dáðumst að smekkvísinni og listaverkum á veggjum en skynjuðum líka að það lá eitthvað hlýtt og fallegt í loftinu. Mesta gæfa Brynhildar var þó auðvitað einkadóttirin Arndís Anna. Megi minningin um einstaka og sterka konu umvefja ástríka fjölskyldu Brynhildar Fjölnisdóttur um ókomna tíð.

Sigrún
Pálsdóttir.

Þegar sólin er farin að hækka á lofti, fuglarnir syngja og vorið á næsta leiti berst okkur sú harmafregn að æskuvinkona okkar, Brynhildur Fjölnisdóttir, hafi kvatt þetta líf. Þótt kallið hafi kannski ekki komið á óvart hafði vonin lifað með okkur að hún fengi lengri tíma, fengi að njóta vorsins sem var svolítið hennar tími; sólskinsstundir á pallinum, berar tásur og þykkar peysur víkja fyrir litríkum sumarkjólum. Þetta vor átti að verða enn þá skemmtilegra; ferming einkadótturinnar var fram undan auk þess sem von var á tveimur litlum frændsystkinum og því er sorgin enn þungbærri að hún sé kölluð á brott frá ungri dóttur, móður, systrum og fjölskyldum.

Brynhildur var mikill fagurkeri og ber heimili hennar vott um það. Fallegir munir í hverju horni, raðað saman á smekklegan hátt, að ógleymdum útsaumnum hennar.

Brynhildur var tónelsk og unni klassískri tónlist eins og hún átti kyn til. Áhugi hennar á Eurovision-söngvakeppninni var líka mikill og nutu vinir og vandamenn góðs af því þegar hún var búin að greina öll keppnislögin og gefa út sína stórkostlegu pistla með ráðleggingum um hvað þyrfti að hlusta á og hvað ekki.

Brynhildur sendi vinum árlega áminningu um ýmsar tímasetningar fyrir jólaundirbúninginn; hvenær þyrfti að fara að bródera jóladúkana, kaupa jólagjafir, skrifa á jólakortin og hversu margar smákökusortir ætti að baka fyrir jólin. Þessar áminningar voru alltaf jafn fyndnar og uppfullar af húmor. Einhverjir reyndu að malda í móinn en hún lét engan komast upp með að vera Skröggur og eyðileggja jólastemninguna.

Fyrir ári fórum við systurnar með þeim systrum Ingibjörgu, Þorberu og Brynhildi í helgarferð til Kaupmannahafnar. Við áttum þar dásemdardaga og minningar úr þeirri ferð eru okkur dýrmætar. Brynhildur var á heimavelli í borginni eftir að hafa búið þar í nokkur ár. Þegar hún áttaði sig á því að hótelið sem við gistum á hafði eitt sinn hýst eitt stærsta vöruhús Kaupmannahafnar réð hún sér ekki fyrir kæti, og ekki síst fyrir byggingarstílinn á því. Fyrir framan Amalíuhöllina þótti við hæfi að stilla sér upp fyrir myndatöku með lífvörð hennar hátignar í baksýn. Á einni myndinni horfum við allar á ljósmyndarann nema Brynhildur, sem var augljóslega að leita að einhverju mikilvægu í töskunni sinni og útskýrði það: „Ég er viss um að ég setti veldissprotann í töskuna.“ Þetta var einmitt eitt af því sem einkenndi Brynhildi, hnyttin í tilsvörum og húmorinn aldrei langt undan. Hún gat gert létt grín að fólki án þess að særa nokkurn, en oftast gerði hún þó mest grín að sjálfri sér.

Brynhildur gaf okkur eitt sinn gott ráð, sem við nýtum okkur óspart þegar við ætlum að láta eitthvað eftir okkur í verslunarferð: „Þú sérð kannski eftir því í korter ef þú kaupir þetta en átt eftir að sjá eftir því alla ævi ef þú kaupir þetta ekki.“ Það er gott að hugsa um minningar sem þessar og við eigum örugglega eftir að gera það oft í framtíðinni og hugsa til Brynhildar í leiðinni.

Við minnumst glaðværrar vinkonu með hlýhug, kaffiboðin verða ekki þau sömu án hennar og við munum sakna þess að fá ekki skemmtileg og hnyttin tilsvör frá henni með góðum skammti af hennar smitandi og dillandi hlátri.

Ástvinum Brynhildar sendum við innilegar samúðarkveðjur. Megi minningin um lífsgleði Brynhildar vera ykkur leiðarljós á erfiðum tímum.

Meira á www.mbl.is/andlat

Guðmundur, Helga,
Kristín og Berghildur.

Kveðja frá Árósavinkonum.

Elsku Brynhildur okkar er farin. Við sem eftir stöndum náðum varla að átta okkur á að hún væri alvarlega veik. Nú skiljum við ekki hvernig þetta getur staðist.

Við kynntumst Brynhildi í Árósum, fyrir um það bil 30 árum. Þetta tímabil var eiginlega gullöld, bæði fyrir okkur og Árósa. Brynhildur var í söngnámi og bjó á stúdentagörðum á Skjoldhøj. Hún var glæsilegust kvenna, alltaf vel tilhöfð í fallegum fötum úr nýjustu kolleksjóninni, með lakkaðar neglur og langa, ljósa lokka sem létu engan ósnortinn. Í samanburði vorum við hinar og Danir almennt agalegir lúðar. Það tóku allir eftir Brynhildi, hvar sem hún fór.

Brynhildur var einstaklega skemmtileg og með beinskeyttan húmor, sem hún sparaði lítið og gerði grín að sjálfri sér og öðrum. Hún kunni að koma orðum að því sem hún vildi koma á framfæri og gerði það svo engum duldist hvað henni fannst. Hún lauk iðulega máli sínu með því að skella upp úr, háværum, tindrandi og leiftrandi hlátri.

Á Skjoldhøj fór vel um Brynhildi, sem iðulega kallaði sig Brünhilde von Skjoldhøj, enda var aðalsbragur yfir mörgu hjá henni. Hún saumaði út á meðan hún sagði fréttir af evrópskum konungsfjölskyldum úr Billedbladet og saman biðum við eftir krónprinsinum Friðriki. Hann stundaði nám í Árósum en rataði ekki út til Skjoldhøj. Við skildum það ekki. Brynhildur var mikill fagurkeri, sem safnaði danskri hönnun og var einstaklega nösk á að finna fallega hluti, eins og heimili hennar bar vitni.

Eftir heimkomu frá Danmörku hittum við Brynhildi sjaldnar en við hefðum viljað. Þannig er lífið. Sem betur fer byggja samfélagsmiðlar brýr milli bæja og landa og þannig héldum við góðum tengslum – og Brynhildur hélt áfram að segja fréttir af kóngafólkinu, koma skoðunum sínum á framfæri og vinum sínum til að hlæja.

En fyrst og fremst var Brynhildur fjölskyldumanneskja. Hún var einstaklega náin foreldrum sínum, systrum, mágum og systrabörnum, sem henni þótti afskaplega vænt um. Fjölskyldan naut óskiptrar athygli Brynhildar og þegar augasteinninn Arndís Anna bættist í hópinn var hamingjan endalaus.

Fjölskyldu Brynhildar og Arndísi Önnu sendum við einlægar samúðarkveðjur. Ykkar missir er stærstur og sárastur.

Við þökkum Brynhildi áratuga vináttu með hlýju. Við munum sakna hennar.

Áslaug S. Árnadóttir
og Halla Þorvaldsdóttir.