Leikskáldið Indriði Einarsson var bæði hagfræðingur og leikskáld en frægustu leikverk hans eru Nýársnóttin, Dansinn í Hruna og Hellismenn.
Leikskáldið Indriði Einarsson var bæði hagfræðingur og leikskáld en frægustu leikverk hans eru Nýársnóttin, Dansinn í Hruna og Hellismenn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimildir eru fyrir því að Indriði Einarsson (1851-1939), hagfræðingur og leikskáld, hafi þýtt fjórtán leikrit eftir Shakespeare. Átta eru varðveitt á Leikminjasafninu en sex voru talin glötuð. Merkisfundur varð því þegar handritin fundust nýverið í fórum afkomenda Indriða

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheiður@mbl.is

Heimildir eru fyrir því að Indriði Einarsson (1851-1939), hagfræðingur og leikskáld, hafi þýtt fjórtán leikrit eftir Shakespeare. Átta eru varðveitt á Leikminjasafninu en sex voru talin glötuð. Merkisfundur varð því þegar handritin fundust nýverið í fórum afkomenda Indriða. Verða þau formlega afhent Landsbókasafninu til varðveislu á laugardag, 27. apríl, og verður af því tilefni efnt til dagskrár á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Flutt verða erindi um Indriða og Shakespeare-þýðingar hans, sungin lög við ljóð Indriða og leikarar Leikfélags Reykjavíkur lesa atriði úr þýðingunum á Much Ado About Nothing, eða Mikil fyrirhöfn út af engu eins og það heitir í þýðingu Indriða, og As You Like It, eða Sem yður þóknast. Dagskráin er opin almenningi og hefst hún kl. 13.

Þýddi Shakespeare um sjötugt

Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur er afkomandi Indriða og mun halda erindi um langafa sinn, sem henni finnst standa sér nærri þótt hún hafi aldrei kynnst honum sjálf. „Ég er alin upp í miklum kærleika til afa Ind, eins og hann var kallaður heima hjá mér. Mamma elskaði hann alveg út af lífinu. Hann var léttur í spori og fjörugur til hinsta dags nærri níræður, og hafði svo lifandi ímyndunarafl að það var alltaf gaman að tala við hann. Hann var fyrsti hagfræðingur landsins, hélt utan um ríkisreikningana og var næstum eins manns þjóðarstofnun. En þó hann hafi alveg verið með fæturna á jörðinni í sínu daglega starfi þá var hann meira en að hálfu leyti í ævintýraheimi leikhússins. Þannig var maðurinn sem ég elst upp við að heyra talað um.“

Guðrún vísar í ævisögu Indriða, Sjeð og lifað, þar sem fram kemur að þegar hann um sjötugt lauk leikritinu Dansinn í Hruna, hafi hann tekið sér verðskuldað frí. „Það leiddi hins vegar til iðjuleysis sem olli honum þunglyndi. Því lengur sem hann var í fríi því meira leiddist honum og þeim mun lítilmótlegri fannst honum hann sjálfur vera. Hann kom að máli við Emilíu dóttur sína sem bjó hjá honum og segist vera orðinn hundleiður á sjálfum sér. „Það hendir okkur öll,“ segir hún, „þú verður bara að hafa eitthvað fyrir stafni – af hverju þýðirðu ekki Shakespeare? Kannski kemur andinn aftur yfir þig, þegar þú hefur sökkt þér í Shakespeare um stund.“ Samdægurs byrjaði Indriði að þýða. Fjórtán leikritum síðar leit hann út um gluggann, hugsaði: „Ætli nóg sé nú spunnið?“ Og gekk út í vorið. Eftir það skrifaði hann leikritið Síðasti víkingurinn, sem kom út þegar hann var 85 ára. Ráð Emilíu höfðu dugað vel.“

Ert ÞÚ með kassann?

Guðrún segir að sín kynslóð hafi velt vöngum yfir því hvar gögnin sem lágu eftur Indriða væru niðurkomin en aldrei tekið á því af festu. Hildur Kalman leikkona, dótturdóttir Indriða, hafði varðveitt töluvert af skjölum. „Það má segja að Indriði hafi skrifað sér til óbóta því hann fékk krampa og gat ekki haldið á venjulegum penna. Hann notaði sérsmíðaðan penna sem lá þvert í greipinni og fjöðrin stóð fram milli vísifingurs og löngutangar. Þetta hafði ekki góð áhrif á rithöndina og Hildur var ein fárra sem gátu lesið skriftina hans. Hún vélritaði nokkur leikritanna og eftir hennar dag voru skjölin afhent Leikminjasafninu þar sem Sigríður Jónsdóttir hefur skráð þau og flokkað.“

Þegar Þórarinn Eldjárn var að þýða Jónsmessunæturdraum fyrir nokkrum árum, hafði hann samband við Guðrúnu og spurði hvort hún vissi hvar þýðingar Indriða sem ekki eru á Landsbókasafni væru. „Ég hafði ekki hugmynd, vissi ekki einu sinni að það vantaði verk,“ segir hún.

„Skömmu síðar hitti ég frænda minn Hörð Bjarnason sendiherra. Hann sagðist vera í smá vanda því hann hefði fundið kassa fullan af stílabókum langafa okkar, sem innihéldi Shakespeare-þýðingar. „Ert ÞÚ með kassann?” spurði ég, eins og ég hefði leitað hans árum saman. Ef Þórarinn hefði ekki hringt hefði ég ekki kveikt á perunni. Það fyrsta sem við Hörður gerðum var að láta skanna handritin. Síðan höfðum við samband við Guðrúnu Nordal forstöðumann Árnastofnunar, sem sagði okkur að láta Sigríði Jónsdóttur hjá Leikminjasafni Íslands vita. Eins væri Ingibjörg Þórisdóttir, sem vinnur á Árnastofnun, að skrifa doktorsritgerð um fyrstu Shakespeare-þýðingarnar á íslensku. Þetta small allt saman, Ingibjörg hafði samband við Magnús Þór Þorbergsson, dramatúrg við Borgarleikhúsið, og hann tók að sér að standa fyrir dagskránni. Þannig varð skókassinn að hátíð, sem er alveg í anda Indriða og við afkomendurnir höfum bæði kynnst betur og lært heilmikið um þennan hugmyndaríka og síkvika forföður okkar.“

Afkomendakórinn

Auk Guðrúnar heldur Katrín Fjeldsted læknir erindi um Indriða á laugardag. Þá mun Skagfirðingurinn Eyþór Árnason, sem kominn er af bróður Indriða, flytja ljóð sitt, „Indriði frændi“.

„Martha María kona Indriða var dóttir Péturs Guðjohnsens, fyrsta organista þjóðarinnar, sem fyrstur kenndi henni raddaðan söng,“ segir Guðrún.

„Martha spilaði listavel á gítar og lagði sig eftir gítarútsetningum helstu tónverka heimsins, sem hún undi sér við. Þessi mikla músíkkona heyrði bara einu sinni á ævinni hljómsveit spila, þegar hún heimsótti dóttur sína til Kaupmannahafnar. Það var mikil músík á heimilinu og alltaf sungið raddað. Eitthvað virðist þetta smitast milli kynslóða, því á tónleikum hjá Fílharmóníukórnum fyrir fáeinum árum horfði ég á stjórnandann Magnús Ragnarsson og hina og þessa söngvara, sem ég vissi að eru komnir af Pétri Guðjohnsen í fimmta lið,“ segir Guðrún.

„Þegar farið var að skipuleggja þessa dagskrá spurði ég hópinn hverjir væru kórtækir. Það stóð ekki á svörum og reyndist vera efniviður í sönghóp. Svo að í athöfninni mun nýjasti kór landsins, Afkomendakórinn, syngja nokkur lög við ljóð Indriða. Þetta er nýr flötur á frændskapnum og áreiðanlega eini kórinn á landinu sem ekki raddprófar söngvara, heldur fer fram á blóðprufu til að sanna skyldleikann við Pétur Guðjohnsen. Mér finnst þetta alveg guðdómlegt. Eins og svo margt skemmtilegt í lífinu sprettur þetta einhvern veginn upp úr engu og verður til fyrir tilviljun.“

Merkisatburður í leiksögunni

Á laugardag mun Ingibjörg Þórisdóttir flytja erindi um Shakespeare-þýðingar Indriða. Fyrrnefnd doktorsritgerð hennar mun fjalla um Matthías Jochumsson og fyrstu Shakespeare-þýðingarnar á Íslandi, en þar kemur Indriði við sögu. „Þetta er gífurlegur fengur fyrir íslenskar leikhúsþýðingar að fá þetta í hendur.

Indriði var sá fjórði í röð íslenskra þýðenda á Shakespeare, á eftir Matthíasi Jochumssyni, Steingrími Thorsteinssyni og Eiríki Magnússyni, en Indriði var sá fyrsti sem rataði á svið. Fyrsta íslenska uppsetningin á leikriti eftir Shakespeare var sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 23. apríl 1926. Það var Þrettándakvöld í þýðingu Indriða og í leikstjórn nafna hans og barnabarns, Indriða Waage,“ segir Ingibjörg.

„Einhver eftirvænting hefur legið í loftinu í listalífi Reykavíkur,“ bætir hún við og vísar í Alþýðublaðið en þar var eftirfarandi ritað nokkrum dögum fyrir frumsýninguna í Iðnó: „Merkisatburður í leiksögu landsins er það að Leikfélagið ætlar að leika Þrettándakvöld. Það er mælikvarði á þor og getu leikhúss að það vogi og geti leikið Shakespeare. Vér erum því nú búnir að fá leikhús.“

Ingibjörg segir greinilegt að þetta hafi þótt mælikvarði á alvöru leikhús og verið ákveðinn vendipunktur í leikhússögunni. „Þarna er tekin áhætta. Indriði er ekki talinn faðir íslensks leikhúss út af engu. Hann var stórhuga maður.“

Vetrarævintýri í þýðingu Indriða var einnig sett á svið árið 1926 en önnur verk Shakespeares hafa hvorki verið gefin út né sviðsett í hans þýðingum. „Þetta er fimmtíu árum eftir að Matthías þýðir. Þjóðin hafði átt harmleiki Shakespeares á riti í fimmtíu ár en hversu mikið þeir voru lesnir er ómögulegt að segja. En þeir voru ekki leiknir fyrr en í útvarpi 1946,“ segir Ingibjörg.

Áheyrilegar og lágstemmdar

„Það er athyglisvert að Indriði ákvað að sleppa þeim sex leikritum sem þegar höfðu verið þýdd og útgefin á íslensku. Hann þýðir ekki harmleikina sem Matthías, Steingrímur og Eiríkur höfðu þýtt heldur fer vítt og breitt, þýðir bæði kóngaleikrit og gamanleikrit,“ segir Ingibjörg og bætir við að líklegt sé að Indriði hafi með þessu reynt að koma til móts við almenning. Leikhúsi hafi á þessum tíma verið komið á laggirnar þar sem hægt var að skemmta fólki og því hafi ekki verið úr vegi að taka fyrir gamanleik á borð við Þrettándakvöld.

Ingibjörg vísar í skrif Indriða sjálfs þar sem hann talar um hve erfitt sé að flytja íslenskar Shakespeare-þýðingar. „Hann áttar sig á því að þegar þýtt er fyrir leikhús þarf aðgengið að vera gott fyrir leikara og textinn áheyrilegur fyrir áhorfendur. Hann heldur sig samt sem áður við stakhenduna og form Shakespeares en hann gerir það á hógværan hátt. Þetta eru lágstemmdar þýðingar en koma ágætlega út. Hann er ekki með miklar kúnstir, gerir þetta eftir sínu höfði og eftir því hvað hljómar best í hans eyrum,“ segir Ingibjörg.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir