Bamberg „Ég gef öllum listamönnum sem komu að þessum frábæru tónleikum í Eldborg Hörpu réttilega fimm stjörnur en tek um leið skýrt fram að stjörnugjöf í þessu tilviki er óþörf og rýnin skrifaði sig í raun sjálf.“
Bamberg „Ég gef öllum listamönnum sem komu að þessum frábæru tónleikum í Eldborg Hörpu réttilega fimm stjörnur en tek um leið skýrt fram að stjörnugjöf í þessu tilviki er óþörf og rýnin skrifaði sig í raun sjálf.“ — Ljósmynd/Andreas Herzau
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Bamberg-sinfóníuhljómsveitin ★★★★★ Tónlist: Richard Wagner (prelúdía að fyrsta þætti Lohengrin og forleikur að Tannhäuser), Robert Schumann (píanókonsert í a-moll) og Johannes Brahms (sinfónía nr. 3 í F-dúr og ungverskur dans nr. 18 í D-dúr í útsetningu Antoníns Dvořáks). Einleikari: Hélène Grimaud. Bamberg-sinfóníuhljómsveitin. Stjórnandi: Jakub Hrůša. Konsertmeistarar: Bart Vandenbogaerde og Ilian Garnet. Tónleikar í Eldborg Hörpu laugardaginn 20. apríl 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það kemur fyrir að tónlistarrýnum (sem áður nefndust tónlistargagnrýnendur) fallast bókstaflega hendur. Það leiðir auðvitað til þess að erfitt er að skrifa nokkuð af viti og gildir það raunar hvort heldur sem tónleikar voru verulega slæmir eða þá eitthvað í áttina að því að maður hafi nánast aldrei upplifað annað eins. Tónleikar hinnar þýsku sinfóníuhljómsveitar frá Bamberg undir stjórn Tékkans Jakubs Hruša falla undir seinni flokkinn. Það var því sannkölluð tónlistarveisla í Eldborg Hörpu hinn 20. apríl; raunar stórveisla sem líður viðstöddum seint úr minni.

Það eru um það bil 130 sinfóníuhljómsveitir starfandi í Þýskalandi, það er að segja hljómsveitir sem þiggja opinberan stuðning svo að einhverju nemi. Um tveir þriðju hlutar þeirra gegna jafnframt hlutverki óperuhljómsveita eða um 80 talsins. Hvergi í heiminum er stuðningur við klassískt tónlistarlíf meiri en einmitt í Þýskalandi og Þjóðverjar eiga því margar framúrskarandi hljómsveitir. Ein þeirra er Bamberger Symphoniker eða Bamberg-sinfóníuhljómsveitin. Hún kemur frá samnefndum smábæ í Bæjaralandi og er sú eina af þýskum hljómsveitunum í fremstu röð sem raunar starfar ekki í stórborg. Hún var stofnuð árið 1946, þá að mestu leyti af hljóðfæraleikurum sem lögðu á flótta frá Tékkóslóvakíu undir lok seinna stríðs. Fyrstur aðalstjórnenda hljómsveitarinnar var Joseph Keilberth en hljómsveitin hefur aðeins haft fimm aðalhljómsveitarstjóra í hartnær 80 ára sögu sinni. Jakub Hruša (sem var meðal annars nemandi hjá Jirí heitnum Belohlávek) tók við hljómsveitinni 2016 en hann mun á næsta ári taka við sem tónlistarstjóri Konunglegu óperunnar, Covent Garden, og er einn eftirsóttasti hljómsveitarstjóri veraldar af sinni kynslóð. Hann mun þó áfram stjórna Bamberg-sinfóníuhljómsveitinni sem nýverið endurnýjaði við hann samning fram til ársins 2029.

Það fyrsta sem vakti eftirtekt á tónleikunum í Hörpu var stærðin á hljómsveitinni; hún er fjölmennari en við eigum að venjast hér á landi. Þannig léku til að mynda sex kontrabassaleikarar í verkunum eftir Wagner og Brahms og þykkur strengjahljómurinn (með mjög góðum botni) var framúrskarandi. Raunar var jafnvægið milli strengja annars vegar og blásturshljóðfæra hins vegar (tré og brass) ótrúlega flott og myndaði heildstæðan, mjúkan hljóm sem skilaði sér einkar vel í hljómburðinum í Eldborg Hörpu.

Fyrsta verkið á efnisskránni var prelúdían að fyrsta þætti óperunnar Lohengrin eftir Richard Wagner (1813-1883). Ég hef sjaldan heyrt viðkvæmt upphafið (í björtum A-dúr) betur leikið en það er afar vandasamt í flutningi. Intónasjón var þannig eins og best verður á kosið en flutningurinn var bæði ákaflega fallegur og dýnamískur. Hruša byggði upp spennu jafnt og þétt og mótaði ótrúlega langar hendingar í lúshægu tempóinu. Það vakti líka eftirtekt mína hversu „mjúk“ innkoma blásaranna var og hún féll fullkomlega saman við mið-evrópskan strengjahljóminn (einhverjir kunna til að mynda að hafa tekið eftir því hve aftarlega hljómsveitin var í slaginu hjá Hruša, það er að segja hversu seint hún svaraði slaginu sem er stíll sem maður sér ekki oft núorðið). Hruša myndaði eina órofa heild í túlkun sinni með því að stjórna í hendingum, frekar en að stjórna hverju einasta slagi og ég endurtek að strengjahljómurinn var aðdáunarverður (öll púlt lögðu sig 110% fram).

Það fór vel á því að leika Johannes Brahms (1833-1897) á eftir Wagner, enda voru tónskáldin tvö forystumenn í deilum í hinum þýskumælandi tónlistarheimi um og eftir miðja 19. öld, deilum sem umvöfðust um hinn svokallaða „nýþýska skóla“. Wagner (og Liszt) vildu velta í rústir og byggja upp á ný en verk Brahms hvíldu á gömlum merg. Brahms var líka lengi framan af feiminn við sinfóníuformið og var raunar að brasa við fyrstu sinfóníu sína í 21 ár (hún var loks frumflutt árið 1876). Eftir það samdi hann slík verk með miklu styttra millibili en þriðja sinfónían var frumflutt í Vínarborg árið 1883. Hún er styst af sinfóníunum fjórum en langerfiðust þeirra í flutningi. Hún endar á undurblíðum dúrhljómum og er því oft leikin fyrir hlé, rétt eins og Bamberg-sinfóníuhljómsveitin gerði í Hörpu.

Hruša hefur einmitt hljóðritað allar sinfóníur Brahms með Bamberg-sinfóníuhljómsveitinni og túlkun hans í Hörpu var mjög svipuð því sem heyra má á þessum upptökum (fáanlegar á öllum helstu streymisveitum). Hún var afar lýrísk og laus við allar öfgar en um leið áferðarfalleg og gegnsæ (það heyrðist vel í öllum hljóðfærahópum). Það var greinilegt á upphafshljómunum þremur, sem hljómsveitin lék mezzo-forte, forte og fortissimo, að Hruša myndi einbeita sér vel að smáatriðum í raddskránni (þar með talið styrkleikabreytingum og áherslum) en það var aldrei á kostnað heildarmyndarinnar. Fyrsti þáttur grundvallast einmitt á þriggja tóna hendingu (F-As-F), það er að segja nokkurs konar mottói sem Brahms hafði tileinkað sér eða „frei aber froh“ (frjáls en glaður). Raunar var piparsveinninn Brahms þar að svara þar mottói aldavinar síns, fiðlusnillingsins Josephs Joachims, „frei aber einsam“ (frjáls en einmana). Það sama var uppi á teningnum í Brahms og Wagner, strengjahljómurinn var ákaflega þykkur en mjúkur tónn blásaranna komst þó vel í gegn.

Brahms var auðvitað meistari laglínunnar og þær mótaði Hruša smekklega. Þá hefur hann greinilega ekki bara góða þekkingu, heldur líka djúpan skilning á sónötuformi, því hann rammaði helstu undirkafla fyrsta þáttar einkar vel inn. Blásarar fóru á kostum í lýrískum öðrum þættinum (þar með talinn Günther Forstmaier á klarínettið) og aftur var intónasjón framúrskarandi.

Einkar fallegt aðalstef þriðja þáttar var leikið nokkuð gangandi en það þekkja flestir. Það gengur í gegnum hljómsveitina en leyndardómsfull lýríkin nær nokkurs konar hámarki þegar fyrsta horn tekur við stefinu. Aldrei hljómaði flutningurinn „of“ æfður, heldur var hann bæði sjálfsprottinn og einkar músíkalskur. Þannig fékk tónlistin, til að mynda í fjórða þætti, að fljóta eðlilega áfram, stundum veikt, stundum sterkt, en aldrei með fyrirsjáanlegum hætti.

Eftir hlé var komið að Roberti Schumann (1810-1856) en hann var ákafur fylgismaður Brahms í deilunum um „nýþýska skólann“. Píanókonsertinn var frumfluttur í lok árs 1845 og var eiginkona Schumanns, Clara Wieck, í hlutverki einleikarans. Píanistinn kemur beint inn í upphafshljómunum en tekur svo við tregafullu stefi óbósins og mótar það áfram. Hljómsveitin var aðeins fámennari en í Wagner og Brahms en jafnvægið milli einleikara og hljómsveitar var prýðilegt. Franski píanóleikarinn Hélène Grimaud, sem hefur einmitt hljóðritað þetta verk fyrir forleggjarann Warner (undir stjórn Davids Zinman), mótaði píanópartinn einkar vel og var leikur hennar ekki bara lýrískur og dýnamískur, heldur var hann fullur af rómantík og dramatík. Þannig leyfði hún sér að draga seiminn hér og þar en tónninn var ávallt einkar fallegur. Niðurlag (Coda) fyrsta þáttar var glæsilegt sem og „samtal“ Grimaud við hljómsveitina í öðrum þætti. Hann leiddi svo beint yfir í rómantíska flugeldasýningu lokaþáttarins. Túlkun Grimaud var þannig marglaga og hún átti alls kostar við hljóðfærið og blæbrigði þess.

Síðasta verkið á efnisskránni var svo forleikurinn að Wagner-óperunni Tannhäuser. Öfugt við lúshægt tempóið í Lohengrin-prelúdíunni stjórnaði Hruša þessum forleik nokkuð hratt en að sama skapi var túlkunin mjög hátíðleg. Fallega mótað pílagríma-stefið í upphafinu var einkar vel leikið og eins og áður stjórnaði Hruša í löngum hendingum. Innkoma básúnanna undir lokin með sama stef var ógleymanleg (undir æsilegum leik strengjanna) en það var eiginlega sama hversu sterkt hljómsveitin lék, brassið yfirgnæfði aldrei þykkan strengjahljóminn.

Það fór svo vel á því að Bamberg-sinfóníuhljómsveitin léki aukalag í lokin eftir áköf fagnaðarlæti áheyrenda og flutningur á ungverskum dansi nr. 18 eftir Brahms (í útsetningu samlanda Hruša, Tékkans Antoníns Dvoráks) var í senn æsilegur og spennandi.

Ég gef öllum listamönnum sem komu að þessum frábæru tónleikum í Eldborg Hörpu réttilega fimm stjörnur en tek um leið skýrt fram að stjörnugjöf í þessu tilviki er óþörf og rýnin skrifaði sig í raun sjálf. Harpa á líka hrós skilið fyrir að hafa boðið upp á þessa tónleika. Bamberg-sinfóníuhljómsveitin fetar þannig í fóstpor hljómsveita á borð við Berlínarfílharmóníuna, Hátíðarhljómsveitina í Búdapest og Concertgebouw-hljómsveitina sem allar hafa leikið í Eldborg. Meira af þessu, takk fyrir!