Minningar Fólk skoðar sýningu blaðaljósmyndarans Eduardos Gageiros í Lissabon í vikunni á myndum sem hann tók af atburðunum í apríl 1974.
Minningar Fólk skoðar sýningu blaðaljósmyndarans Eduardos Gageiros í Lissabon í vikunni á myndum sem hann tók af atburðunum í apríl 1974. — AFP/Patricia de Melo Moreira
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Haldið er upp á það í Portúgal í dag, að 50 ár eru liðin frá svokallaðri nellikubyltingu þegar ungir herforingjar steyptu einræðisherranum Marcelo Caetano af stóli og bundu með því enda á nærri hálfrar aldar einræði og blóðug nýlendustríð í Afríku.

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Haldið er upp á það í Portúgal í dag, að 50 ár eru liðin frá svokallaðri nellikubyltingu þegar ungir herforingjar steyptu einræðisherranum Marcelo Caetano af stóli og bundu með því enda á nærri hálfrar aldar einræði og blóðug nýlendustríð í Afríku.

Upphaf byltingarinnar var í raun valdarán en herforingjarnir, sem fyrir því stóðu, mættu lítilli mótstöðu hermanna hliðhollra stjórnvöldum og almenningur fagnaði valdaskiptunum. Byltingin var nefnd nellikubyltingin eftir blómum sem hermennirnir settu á byssur og skriðdreka og er sjaldgæft dæmi um valdarán sem framið er til að koma á lýðræði.

Upphaf einræðistímabilsins í Portúgal er rakið til ársins 1926 en á næstu árum náði Antonio de Oliveira Salazar forsætisráðherra öllum völdum í landinu og hélt þeim til ársins 1968 þegar hann fékk heilablóðfall og Caetano tók við.

Flykktust út á götur

Óánægja með stjórnarfarið og langvinn nýlendustríð í Afríku magnaðist og snemma dags 25. apríl 1974 útvarpaði uppreisnarhópur innan portúgalska hersins orðsendingu til þjóðarinnar þar sem fólk var hvatt til að halda sig innandyra og sýna stillingu. En fólk flykktist út á götur, safnaðist saman á götuhornum og fagnaði hermönnunum.

Ungur höfuðsmaður, Jose Salgueiro Maia, var sendur á fund Caetano forsætisráðherra, sem hafði leitað skjóls á lögreglustöð í Lissabon, til að taka við uppgjöf hans. Mannfjöldi safnaðist í kjölfarið saman á Carmo-torgi í Lissabon, söng þjóðsönginn og hélt síðan að höfuðstöðvum illræmdu öryggislögreglunnar PIDE. Lögreglumenn skutu á mannfjöldann með þeim afleiðingum að fjórir létu lífið en það var eina manntjónið í byltingunni.

Daginn eftir lýsti Antonio Spinola fyrrverandi herforingi því yfir fyrir hönd uppreisnarmanna að mynduð hefði verið ríkisstjórn sem stefndi að lýðræði, afsali nýlendna og batnandi efnahagsþróun. Spinola hét því að haldnar yrðu frjálsar kosningar og það loforð var efnt réttu ári síðar.

Portúgal, sem hafði lagt grundvöll að miklu nýlenduveldi í Afríku á 15. öld, veitti Gíneu-Bissau sjálfstæði þegar árið 1974 og síðan Angóla, Mósambík, Grænhöfðaeyjum og Sao Tome og Principe árið 1975. Með því var bundinn endi á 13 ára nýlendustríð í Afríku sem hafði kostað að minnsta kosti 8 þúsund mannslíf en um helmingur þjóðartekna Portúgals hafði farið í að fjármagna þennan hernað.

Efnahagsleg uppbygging landsins tók lengri tíma en vonast var til en eftir að Portúgal gekk í Evrópubandalagið, síðar Evrópusambandið, árið 1986, fóru hjól efnahagslífsins að snúast fyrir alvöru og landið fékk sinn sess í samfélagi evrópskra lýðræðisríkja.

Portúgalar eru stoltir af byltingunni og hennar er minnst árlega með almennum frídegi sem nefndur er frelsisdagurinn.

„Fram til 1974 var Portúgal fátækt og vanþróað land, einangrað frá umheiminum. En atburðirnir í apríl 1974 opnuðu landið fyrir nútímanum,“ segir sagnfræðingurinn Maria Inacia Rezola við AFP.

Sumir sjá þó enn eftir stjórnartíð Salazars og þeir hafa einkum fundið athvarf í nýjum jaðarþjóðernisflokki, Chega, þótt Andre Ventura, stofnandi og leiðtogi flokksins, hafi gagnrýnt einræðistímabil landsins. Chega fékk 18% atkvæða í þingkosningum í mars sl. og er nú þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Nellikubyltingin

Mikilvægasti atburðurinn

Í skoðanakönnun, sem birt var í síðustu viku í Portúgal, sögðust um 65% svarenda telja að nellikubyltingin væri mikilvægasti atburður í sögu Portúgals, mikilvægari en afnám konungdæmisins árið 1910 og aðild landsins að Evrópubandalaginu árið 1986.

Þegar spurt var um afstöðu til einræðistímabilsins sagðist helmingur svarenda telja að fyrra stjórnarfar landsins hefði haft fleiri neikvæða þætti í för með sér en jákvæða, en um fimmtungur sagði hið gagnstæða.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson