Spilliefni Dönsk stjórnvöld eru ekki í vafa um þau skaðlegu áhrif sem losun skolvatns úr útblásturshreinsibúnaði skipa hefur á lífríki sjávar. Stefnt er að því að bann við að losa slíkt í sjó taki gildi 1. júlí 2025.
Spilliefni Dönsk stjórnvöld eru ekki í vafa um þau skaðlegu áhrif sem losun skolvatns úr útblásturshreinsibúnaði skipa hefur á lífríki sjávar. Stefnt er að því að bann við að losa slíkt í sjó taki gildi 1. júlí 2025. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breið pólitísk samstaða hefur myndast í Danmörku um bann við losun á skolvatni úr útblásturshreinsibúnaði (e. scrubber) í sjó innan landhelgi frá og með 1. júlí 2025. Niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum hafa bent til…

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Breið pólitísk samstaða hefur myndast í Danmörku um bann við losun á skolvatni úr útblásturshreinsibúnaði (e. scrubber) í sjó innan landhelgi frá og með 1. júlí 2025. Niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum hafa bent til þess að skolvatnið valdi verulegri mengun, en notkun búnaðar af þessum toga var heimilaður hér á landi árið 2019.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir fyrirhugað bann í Danmörku eiga að vera hvatningu til íslenskra stjórnvalda að taka notkun búnaðar af þessum toga við Íslandsstrendur til endurskoðunar.

Löngu þekktur vandi

Margar þjóðir hafa um nokkurt skeið unnið að því að draga úr notkun svartolíu sem eldsneyti á skip með því að setja takmarkanir á eldsneyti sem inniheldur mikinn brennistein, í þeim tilgangi að minnka losun spilliefna í andrúmsloftið. Hefur víða verið sett bann við notkun á svartolíu sem eldsneyti á skip, en þó með undanþágu fyrir skip sem nýta hreinsunarbúnað.

Slíkur vothreinsibúnaður þvær útblástur skipanna áður en honum er sleppt úr skipinu, en eftir verður mengað skolvatn. Hægt er að safna skolvatninu og farga því á sérhæfðum móttökustöðvum, en flest skip losa einfaldlega skolvatnið í sjóinn.

Í febrúar 2020, aðeins tveimur mánuðum eftir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfisráðherra, heimilaði notkun hreinsibúnaðarins í reglugerð, greindi breska blaðið Guardian frá því að í leynilegri innanhússskýrslu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) væri vakin athygli á mögulegri hættu sem stafaði af opnum vothreinsibúnaði. Jafnframt lægju ekki fyrir nægilega áreiðanlegar upplýsingar til þess að hægt væri að leggja mat á hættu sem steðjaði að manneskjum vegna notkunar búnaðarins.

Hafði skýrslan verið unnin í aðdraganda gildistöku samþykktar sem gerð var á vettvangi IMO um brennisteinsmagn í eldsneyti sem var ætlað að setja miklar takmarkanir á brennslu svartolíu og þannig minnka m.a. sótmengun. Tók samþykktin gildi 1. janúar 2020.

Sögðust fylgjast með

Fjallað hefur verið töluvert um hreinsibúnaðinn í Morgunblaðinu og í 200 mílum á undanförnum árum.

Nú síðast í október á síðasta ári fjallaði Morgunblaðið um mat vísindamanna við Chalmers-tækniháskólann í Gautaborg og telja þeir að um 90% af skaðlegum efnum í höfnum í Evrópu, þar á meðal þrálát PAH-efni sem sögð eru valda krabbameini, megi rekja til losunar skolvatns úr hreinsibúnaði skipa.

„Þessi rannsókn sýnir að það er umtalsvert mengunarálag af málmum og PAH frá skipum í höfnum og að stór hluti mengunarinnar dreifist í nærliggjandi umhverfi. Þess vegna er þörf á heildrænu mati á rekstri skipa til að gera sér fulla grein fyrir áhrifum á lífríki hafsins,“ segir í grein vísindamannanna sem birt var í vísindatímaritinu Marine Pollution Bulletin.

Innviðaráðuneytið var þá innt álits á þessum niðurstöðum og sagði að gera mætti ráð fyrir að skolvatn væri losað í sjó umhverfis Ísland og að ráðuneytið fylgdist með því sem gerðist í málaflokknum innan IMO og Evrópusambandsins.

Ekki í vafa um uppsprettuna

Í tilkynningu á vef danska umhverfisráðuneytisins kemur fram að stjórnarflokkarnir, Jafnaðarflokkur, Vinstri og Moderaterne, hafa ásamt sjö flokkum stjórnarandstöðunnar komist að samkomulagi um að banna losun skolvatns innan 12 sjómílna frá landi. Óhætt er að segja að eining sé um málið enda nær samkomulagið til fleiri en 160 þingmanna af 179 á danska þinginu.

Dönsk yfirvöld segja ljóst að losun skolvatns hafi stuðlað að óhóflegu magni þungmálma og tjöruefna eins og blýs, kadmíums og PAH-efna í hafinu. Skolvatn er sagt afgerandi uppspretta spilliefna og er gert ráð fyrir að bann við losun skolvatns muni minnka losun nikkels í hafið um 20% og antrasens um 7%.

„Þetta samkomulag er enn eitt mikilvægt skref á leiðinni að bættu lífríki sjávar. Skolvatn gefur frá sér fjölda efna sem safnast fyrir á hafsbotni okkar og sogast inn í fæðukeðjur hafsins og lenda í fisknum sem við borðum. Losun umhverfisspillandi efna kemur úr mörgum mismunandi áttum, en skolvatnið er uppspretta sem við höfum mikla þekkingu á og gögn um og því fagna ég því að nú sé verið að binda enda á mengun af völdum skolvatns í danskri landhelgi,“ segir Magnus Heunicke umhverfisráðherra í tilkynningunni.

Aðrar leiðir færar

Enginn vafi er í huga Árna Finnssonar að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða gegn vothreinsibúnaði hér á landi.

„Þetta stenst ekki hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er bannað að nota tækni sem mengar til að koma í veg fyrir mengun. Þetta er ekki rétta leiðin,“ segir hann.

Hvatinn til að nýta svartolíu hefur fyrst og fremst verið fjárhagslegs eðlis enda er svartolían nokkuð ódýrari en annað eldsneyti.

Í skýrslu hollenska ráðgjafarfyrirtækisins CE Delft frá síðasta ári kemur fram að hægt sé að losna við svartolíuvandann með því að nýta sömu tækni við sjóflutninga og nú er nýtt við landflutninga, þ.e.a.s. að taka upp notkun dísilolíu og vottaðar loftsíur. Þannig verði hægt að minnka til að mynda sótmengun skipa um 90%. Einnig var bent á að með því að minnka hraða skipa um 20-30% er hægt að minnka losun þeirra um 28-47%.

„Rétta leiðin er bara að taka upp notkun á eldsneyti sem er eins hreint og hægt er,“ segir Árni.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson