Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) telja að reynast muni illmögulegt í framkvæmd að ráðstafa sérstökum vaxtastuðningi til að lækka afborganir lána, eins og lagt er upp með í frumvarpi fjármálaráðherra

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) telja að reynast muni illmögulegt í framkvæmd að ráðstafa sérstökum vaxtastuðningi til að lækka afborganir lána, eins og lagt er upp með í frumvarpi fjármálaráðherra. Þetta kemur fram í umsögn SFF til Alþingis.

Samkvæmt frumvarpinu mun lántakendum sem rétt eiga á sérstöku vaxtabótunum standa til boða að þær fari beint inn á höfuðstól láns eða að þeir geti nýtt þær til að lækka afborganir tiltekins láns út árið 2024.

Í umsögn SFF segir að ráðstöfun vaxtastuðnings beint inn á höfuðstól ætti að mestu að geta gengið með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Öðru máli gegni um fyrirkomulag greiðslna til lækkunar á afborgunum.

Tæknileg útfærsla ekki til staðar samkvæmt athugun

„Eftir athugun hjá helsta birgi lánakerfis til fjármálafyrirtækja er tæknileg útfærsla á ráðstöfun greiðslna til lækkunar afborgana ekki til staðar í dag og ekki er talið raunhæft að það takist að þróa slíka lausn á þeim tíma sem er til stefnu samkvæmt frumvarpinu,“ segir þar meðal annars. Bent er á að tæknileg lausn til þess að ráðstafa fjármunum til greiðslu óútgefinna gjalddaga í framtíð svo fjárhæð hans lækki, sé ekki til staðar í dag, „hvorki í gegnum handvirk né sjálfvirk ferli.

Verði fjármunum ráðstafað til lánveitenda í einu lagi en lánveitendur þurfa að halda á fjármunum og ráðstafa í skömmtum er enn fremur ekki að fullu ljóst af frumvarpinu hvernig á að fara með vörslur þeirra fjármuna á því tímabili,“ segja SFF í umsögn sinni.

Mætti bjóða upp á að greiða beint inn á bankareikning

Leggja samtökin til að frumvarpinu verði breytt þannig að eingöngu verði heimilt að ráðstafa sérstaka vaxtastuðningum til innborgunar á höfuðstól.

„Fyrir þá lántaka sem kjósa eða þurfa aukið ráðstöfunarfé sem myndi felast í lækkun reglulegra greiðslna mætti bjóða upp á það val að fá vaxtastuðninginn greiddan beint inn á bankareikning líkt og hefðbundnar vaxtabætur. Hægt yrði að skipta þeim greiðslum mánaðarlega út árið 2024 eins og lagt er til með lækkun afborgana.“

omfr@mbl.is