Elíveig (Ella) Kristjánsdóttir fæddist í Dalsmynni í Eyjahreppi Snæfellsnesi 30. desember 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 14. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Kristján Jónsson bóndi og oddviti frá Stóru-Þúfu í Miklaholtshreppi, f. 22.11. 1897, d. 31.7. 1966, og Þorbjörg Kjartansdóttir húsfreyja frá Oddastöðum í Kolbeinsstaðahreppi, f. 22.11. 1891, d. 25.6. 1978.

Dætur þeirra voru sex og var Ella þeirra yngst. Hinar eru: Guðborg, f. 15.7. 1922, d. 14.3. 2009; Guðrún Margrét, f. 18 8. 1923, d. 6.7.1991; Anna Sigríður, f. 17.8. 1925; Lilja, f. 9.5. 1929, d. 14.1. 1994; Þórdís, f. 8.4. 1931, d. 20.3. 2004.

Árið 1956 giftist Ella eiginmanni sínum, Sverri Vilbergssyni, f. 5.10. 1922. Hann fæddist í Reykjavík en ólst upp á Stóra-Kroppi í Borgarfirði. Sverrir lést árið 2005. Synir Ellu og Sverris eru: 1) Kristján, f. 20.12. 1957, maki Birna Birgisdóttir, f. 10.3. 1961. Dætur þeirra eru Ásdís Björk, f. 1983, og Erla Dögg, f. 1985. 2) Pétur, f. 30.1. 1959, maki Fjóla Pétursdóttir, f. 1.1. 1961. Börn þeirra eru Dagný, f. 1982, Elva, f. 1986, og Bjarki, f. 1994. 3) Heimir Viðar, f. 3.4. 1967, maki Erla Bryndís Scheving Halldórsdóttir, f. 16.11. 1961. Börn Erlu og stjúpbörn Heimis eru Íris, f. 1982, Signý, f. 1983, Steindór Ingi, f. 1992, og Hólmfríður, f. 1994. Langömmubörn Ellu eru átján talsins.

Ella ólst upp í Dalsmynni til tólf ára aldurs en flutti þá með foreldrum sínum í Kópavog. Þar gekk hún í Kópavogsskóla í einn vetur og var í hópi fyrstu nemenda skólans. Hugur Ellu leitaði þó ávallt til baka í sveitina. Nýir ábúendur í Dalsmynni, sæmdarhjónin Margrét og Guðmundur, tóku Ellu opnum örmum og dvaldi hún hjá þeim næstu sumur. Foreldrar Ellu fluttu fljótlega á Akranes en Ella var áfram í sveitinni og tók ástfóstri við Borgarfjörðinn. Þar dvaldi hún fram á fullorðinsár. Hún réð sig í vist hjá góðu fólki á nokkrum sveitabýlum, var dugleg til vinnu og líkaði vistin vel.

Í borgfirskri sveit kynntist hún Sverri eiginmanni sínum og hófu þau búskap í Borgarnesi árið 1957. Fljótlega hófu þau byggingu húss síns á Sæunnargötu 9 þar sem þau bjuggu sér framtíðarheimili. Þar var jafnan gestkvæmt og var gestrisni Ellu í blóð borin.

Eftir að Sverrir lést bjó Ella ein í húsinu þar til fyrir tveimur árum er hún flutti í Brákarhlíð vegna heilsubrests. Fyrir utan húsmóðurstörfin og uppeldi drengja sinna vann Ella með hléum utan heimilis. Hún starfaði meðal annars í naglaverksmiðjunni, Prjónastofu Borgarness, sem matráður í hálendisferðum og síðast fram að starfslokum sem næturvörður á Hótel Borgarnesi. Meðfram húsmóðurstörfunum sat Ella við prjónavélina og framleiddi vinsæl barnaföt sem hún seldi heima við, í kaupfélaginu og víðar.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Ella var yngsta systir móður minnar, 12 árum eldri en ég. Hún var stór partur af mínum bernskuárum enn í heimahúsum í Kópavogi þegar ég var barn. Man eftir því að ég vildi hafa skyrið nákvæmlega eins og Ella þegar ég borðaði hjá ömmu og afa. Ella kom oft í heimsókn og minnisstæð er heimsókn hennar í Fögrubrekku þegar ég var fjögurra ára. Hún var þá táningur, mikil pæja og ég elti hana á röndum, gaf mér sælgæti og tyggjó sem ég hafði aldrei fengið fyrr og ég dýrkaði þessa flottu frænku. Það var alltaf eitthvað spennandi að gerast í kringum hana og svo Sverri eftir að hann kom til sögunnar. Minnisstætt er þegar þau tóku uppstilltar ljósmyndir af allri fjölskyldunni sem enn eru varðveittar.

Við Gunnar heimsóttum þau reglulega eftir að við fórum að búa og alltaf var eitthvað nýtt að sjá og læra af þeim. Þau tóku hreyfimyndir sem þau sýndu okkur þegar við komum í heimsókn og kenndu okkur Gunnari að mynda. Alltaf var tekið í spil og þau reyndu að kenna okkur bridge með misjöfnum árangri þó. Margt var spjallað við eldhúsborðið, þau voru okkur góðir vinir.

Við fórum oft í sumarbústað í Borgarfirði og þá heimsóttu þau okkur og kenndu okkur að meta Borgarfjörðinn og fóru líka með okkur í berjamó. Eftir að fjölskyldan stækkaði hittumst við sjaldnar en þá tóku fjölskyldumótin við, sem þær systur komu á fyrir 50 árum og var Ella lengst af mikill drifkraftur í að sjá um og ekki spillti fyrir að hún spilaði á gítarinn og hélt uppi stuðinu framan af.

Ella var dugleg og drífandi, vann mikið eins og fleiri í fjölskyldunni, saumaði og prjónaði föt á sína, átti prjónavél og prjónaði fyrir aðra, m.a. vinsælu barnafötin. Seinna tók hún til við að læra á tölvu, spilaði bridge í tölvunni við fólk út um allan heim sem sum hver heimsóttu hana síðar. Svo vann hún myndir á diska og gaf fólkinu sínu og fleirum.

Hún var stolt af strákunum sínum og barnabörnum og glöð yfir því að þeim vegnaði vel og ánægð með tengdadæturnar. Það voru hamingjustundir fyrir hana þegar hópurinn hennar hittist. Hún var góður vinur, sendi elstu systurinni ýmsan fróðleik og skemmtiefni á kassettum og heimsótti reglulega. Einnig skrifaði hún dýrmætar endurminningar. Skemmtileg, hæfileikarík kona með ákveðnar skoðanir. Fór aldrei til útlanda, það var algjör óþarfi, en ferðaðist mikið innanlands með Sverri og eftir að hann dó var hún með bíl og keyrði um allar trissur, fór með nöfnu mína og frænku okkar norður á hverju vori og heimsótti líka fólkið okkar fyrir vestan.

Við Ella vorum B-manneskjur en hún var líka fyrirhyggjusöm, sparsöm og nýtin, eldaði oft ríflega og setti afganga í frysti, gerði sultu og tók slátur. Alltaf glöð og í góðu skapi vildi gera öllum gott, spilaði vist og bridge, mannblendin og vinmörg. Lengra hefur liðið á milli endurfunda á síðustu árum en alltaf var sama gleðin yfir að hittast. Í síðasta skiptið sem ég heimsótti hana var það í Brákarhlíð. „Ég þekki þig,“ sagði hún, „þú ert sú elsta.“

Elsku Ella, þakka þér fyrir allar okkar samverustundir, símtöl og spjall.

Þorbjörg
Guðnadóttir.

Hjarta mitt er hér á þínum svörtu söndum,

þú kallar mig heim að ögurskorn um ströndum

og ég er þér bundinn órjúfanleg um böndum,

mín ástkæra eyja.

Ég tigna þína sköpun og vegsama hvern reit,

í vetrarsól er fegurst hin íslenska sveit.

Þú ert landið mitt, mín heimafagra eyja,

skammdegin þín í sátt ég kýs að þreyja

því ég er þér bundinn órjúfanleg um böndum,

mín ástkæra eyja og hér á ég heima.

(Auður Guðjohnsen)

Þessar fallegu ljóðlínur koma upp í hugann þegar ég minnist elskulegrar tengdamóður minnar. Ella unni landi sínu og uppruna í íslenskri, fallegri sveit sem hún unni ávallt svo heitt. Hún lét ekki veðurfar og skammdegisdrunga hafa áhrif á sig. Hennar létta fas og einstök jákvæðni kom í veg fyrir það. Ella var ekki mikið fyrir sól og hita í bókstaflegri merkingu en yfir henni skein hlý og björt sól. Áhersla Ellu var að njóta lífsins, vera óhrædd við áskoranir og vera fylgin sér. Hún var sinnar kynslóðar íslensk alþýðukona sem unni niðjum sínum, stórfjölskyldu og vinum. Þannig sló hjarta hennar. Aldrei fór hún út fyrir landsteinana, hafði engan áhuga á því. Ella vissi alveg hvað hún vildi og var föst á skoðunum sínum, var jarðbundin og nægjusöm. En líka svo óhrædd og áræðin, tileinkaði sér nýungar og tók slaginn þegar færi gafst. Eftir starfslok naut hún frelsisins og nýtti tímann vel.

Ella hafði óbilandi áhuga á spilamennsku, var góður bridgespilari og naut sín með góðum spilafélögum. Eftir að hún tileinkaði sér tölvutæknina leið ekki á löngu þar til hún eignaðist spilavini um víða veröld. Hún tileinkaði sér töfra tölvunnar svo eftir var tekið. Ellu fannst sjálfsagt að eldri borgarar lærðu á tölvu og hún var óspör í að kenna þeim tæknina.

Ellu fannst gaman að ferðast um landið. Með Sverri og drengjunum var farið í útilegur, tjaldað við lækinn og landið skoðað. Seinna ferðaðist hún með verkalýðsfélaginu og fór um árabil í eldriborgaraferðir á Hótel Örk. Ella og Sverrir tóku mikið af myndböndum sem þau unnu og settu á diska. Það er eftirlifendum mikill fjársjóður.

Ella var greiðvikin og bóngóð. Eftir miðjan aldur endurnýjaði hún ökuskírteinið og keypti sér bíl. Hún var óspör á að bjóða vinkonum sínum á rúntinn, keyrði upp í Brún til að sækja eldriborgarstarf og á föstudögum var hefðin að keyra vinkonurnar í Bónus. Fyrir synina kom sér vel að alltaf mátti hringja í „gömlu“ þó að næturlagi væri. „Elskurnar mínar, ég hef nægan tíma til að sofa,“ sagði Ella þegar hún lenti í skutli um miðjar nætur. Barnabörnin í Borgarnesi kölluðu hana ömmu taxa, alltaf tilbúin í skutlið.

Kynslóðir koma, kynslóðir fara,

allar sömu ævigöng.

Gleymist þó aldrei eilífa lagið

við pílagrímsins gleðisöng.

(Matthías Jochumsson)

Margs er að minnast. Mín kynni af tengdamóður minni spanna yfir fjörutíu ár. Okkar samleið var góð. Ella kenndi mér hvernig gera má mikið úr litlu, nýta vel og að puð og prjál er ekki leiðin að hamingjunni. Hún kenndi mér að ekkert er ómögulegt með réttu hugarfari.

Við áttum það sameiginlegt að spila á gítar og hafa yndi af söng. Á dánarbeði tók ég gamla gítarinn hennar í fang og við sungum saman. Það var dýrmæt stund.

Nú hefur Ella verið kölluð heim og mun eflaust bindast órjúfanlegum böndum við nýja heima og taka þar slaginn með sínu létta fasi og glaðværð.

Blessuð sé minning elsku tengdamóður minnar, minning sem mun lifa.

Birna Birgisdóttir.