Dagmál Stefanía Sigurðardóttir og Stefán Pálsson ræða forsetakjörið.
Dagmál Stefanía Sigurðardóttir og Stefán Pálsson ræða forsetakjörið. — Morgunblaðið/Hallur
Við blasir að fleiri framboða er ekki að vænta til forsetakjörs, en eins að þar standi baráttan ljóslega á milli þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Baldurs Þórhallssonar. Þetta kemur fram í Dagmálum í dag, beinu streymi Morgunblaðsins á netinu, sem…

Við blasir að fleiri framboða er ekki að vænta til forsetakjörs, en eins að þar standi baráttan ljóslega á milli þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Baldurs Þórhallssonar.

Þetta kemur fram í Dagmálum í dag, beinu streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum, en þar lýsa þau Stefán Pálsson og Stefanía Sigurðardóttir ástandi og horfum, en bæði eru þaulvön kosningastarfi.

Þrátt fyrir að þar skeri fjórir frambjóðendur sig úr eru þau efins um að Halla Hrund Logadóttir og Jón Gnarr blandi sér í toppslaginn og töldu raunar að Jón hefði einfaldlega ekki gefið sig að kosningabaráttunni vegna anna í leiklist, hvað sem síðar yrði.

Bæði telja þau að þrátt fyrir að greina megi ýmsan mun á kosningaáherslum og ásýnd framboðanna, sem m.a. endurspeglist á félagsmiðlum, þá muni mat kjósenda á persónum vega þyngst.

Það komi í ljós á ferðum þeirra og fundum um landið, en eins reyni á þá í viðtölum og ekki síður þó kappræðum, þar sem í ljós komi úr hverju frambjóðendur eru gerðir. Hvernig þeir bregðist við óvæntum spurningum og uppákomum, en þar glitti einnig í dómgreind þeirra, mælsku og látæði.

Það væri þó ekki eins og áður fyrr á árum, þar sem lokakappræður í Rúv. hefðu ráðið mestu um val kjósenda, sú væri ekki raunin lengur. Því réðu breyttar áhorfsvenjur, en eins misstu kappræður mikils fjölda frambjóðenda marks.