Hildur Eir „Að koma á Einbúakaffi er eins og að fara á kaffihús, nema við eigum öll erindi hvert við annað.“
Hildur Eir „Að koma á Einbúakaffi er eins og að fara á kaffihús, nema við eigum öll erindi hvert við annað.“ — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjá okkur í Einbúakaffi er ekkert aldurstakmark og enginn þarf að gefa skýringar á komu sinni,“ segir Hildur Eir Bolladóttir, einn af þremur prestum við Akureyrarkirkju, um nýjung sem boðið er upp á í safnaðarheimilinu einu sinni í hverjum mánuði

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Hjá okkur í Einbúakaffi er ekkert aldurstakmark og enginn þarf að gefa skýringar á komu sinni,“ segir Hildur Eir Bolladóttir, einn af þremur prestum við Akureyrarkirkju, um nýjung sem boðið er upp á í safnaðarheimilinu einu sinni í hverjum mánuði.

„Við fórum af stað með Einbúakaffi í febrúar og það hefur verið þrisvar og gengið svona líka vel, andrúmsloftið afslappað og einlægt, töluvert hlegið og spjallað um allt milli himins og jarðar. Eins og nafnið gefur til kynna er þessi samverustund í boði fyrir þá sem búa einir og til okkar hefur mætt hópur fólks með alls konar sögur og forsendur. Þetta er fólk á öllum aldri, yngsta rúmlega þrítug manneskja og elsta um áttrætt. Aðeins fleiri konur en karlar eru í hópnum, en þó mæta fleiri karlar en ég þorði að vona og ég er glöð með það,“ segir Hildur og bætir við að fólk búi eitt af ólíkustu ástæðum.

„Sumir eru fráskildir, aðrir ekkjur eða ekklar, sumir velja að búa einir, aðrir hafa flutt hingað til að vinna og þekkja engan á nýjum stað. Undirmarkmið Einbúakaffis er að mæta ákveðinni einsemd sem getur hugsanlega verið til staðar, en þarf ekki að vera það. Þegar kemur saman breiður hópur einbúa er ekkert ólíklegt að einhverjir þar glími að einhverju leyti við einsemd. Það er auðveldara að stíga yfir þröskuldinn og mæta í kaffi þegar þú veist að allir hinir búa líka einir. Einbúakaffi er ætlað til að svara margvíslegum þörfum og ein skemmtileg hliðarverkun af þessum samverustundum gæti verið sú að einhverjir meðal einbúa séu einhleypir og langi að hitta aðra einhleypa. Það langar ekki alla að fara á barinn til að hitta aðra sem eru á lausu og það hentar ekki öllum að stofna til kynna á netinu,“ segir Hildur og tekur fram að þeir sem búi einir séu ekki sjálfkrafa einmana þótt þá langi í félagsskap, en þá vanti kannski vettvang til að hittast.

Húmor í Einbúakaffi

Hildur segir að kveikjan að Einbúakaffi sé í raun prestsstarfið sjálft, af því að prestar hitti fólk í alls konar aðstæðum og eigi með því bæði trúnaðarsamtöl og sálgæslusamtöl.

„Prestar hafa svo marga snertifleti við fólk og eiga mörg einlæg samtöl við fólk, það er eðli starfsins. Upp úr slíkum samtölum kviknaði hugmyndin, en hluti af því að vera prestur og byggja upp safnaðarstarf er að fá alls konar hugmyndir og reyna að svara þörfum í samfélaginu, hvar kirkjan geti komið inn. Ég hef vissulega fengið fullt af hugmyndum í gegnum tíðina, en Einbúakaffið er hugmynd þar sem ég upplifði strax í byrjun að það væri komið til að vera. Svörunin við þessu er þannig að þörfin er greinilega fyrir hendi. Ég velti lengi fyrir mér hvað þetta ætti að heita og hvernig ég ætti að kynna þetta, því það langar engan að koma í kaffi þar sem yfirskriftin er: Ertu einmana? Þekkir þú engan? eða eitthvað á þá leið. Þetta er vandmeðfarið af því að maður má aldrei kynna starf eða viðburð þannig að fólk upplifi að það sé talað niður til þess, eða að gert sé ráð fyrir að fólk sé með einhverjum ákveðnum hætti. Heitið Einbúakaffi er gott af því að það býr yfir smá húmor og við erum alltaf með gott kaffi og kaffibrauð. Þetta er notaleg stund þar sem við erum með nokkur borð þar sem margir geta setið saman.“

Pöbbkviss-stemning

Hildur segir að strax í fyrstu samveru hafi skapast samtal um það að búa einn, hvernig það væri með kostum og göllum, og muninn á því að vera einmana og leiðast.

„Þetta var mjög fræðandi og skemmtilegt en við spjölluðum líka um ýmsilegt fleira. Í næsta hittingi hafði ein úr hópnum sem er garðyrkjufræðingur boðist til að koma með innlegg um garðrækt og hvernig fólk getur undirbúið garðinn fyrir sumarið. Margir nýttu sér að spyrja sérfræðinginn ráða, enda vorið að koma. Í þriðju samveru vorum við með skondna Biblíu-spurningakeppni: „Hvað manstu úr fermingarfræðslu og sunnudagaskóla?“ Við skiptum í lið og það var hálfgerð pöbbkviss-stemning, skapaðist fyndið andrúmsloft því sumir höfðu kannski fermst fyrir hálfri öld og mundu ekki það sem við prestarnir sögðum að þau ættu að vita,“ segir Hildur og hlær.

Við erum líka ísbrjótar

„Við erum ekki endilega með einhverja svaka dagskrá og við erum með spil og tafl sem fólk getur gripið í ef það vill. Ákveðin sjálfbærni er að myndast í hópnum og fólk hefur stungið upp á hinu og þessu skemmtilegu. Einn sagðist til dæmis næst ætla að koma með smurt brauð með reyktum silungi. Hlutverk okkar prestanna þriggja hér í Akureyrarkirkju er að vera með þeim sem mæta í Einbúakaffi og við skiptum okkur niður á borðin. Samtölin hafa verið mjög áreynslulaus og við getum líka verið hugsanlegir ísbrjótar, til dæmis að passa að það sé ekki erfitt að koma nýr inn í hópinn,“ segir Hildur sem hlakkar mjög til framhaldsins hjá Einbúakaffi.

„Þótt ákveðinn kjarni sé sama fólkið þá bætast alltaf einhverjir nýir við, því þetta er opið hús. Ég fæ heilmikið út úr því að spjalla við alls konar fólk í þessum hópi, þetta er eins og að fara á kaffihús, nema við eigum öll erindi hvert við annað. Það hentar ekki öllum að fara einir á kaffihús úti í bæ, setjast þar niður og hafa engan til að spjalla við. Við viljum endilega fá erlenda einbúa hér á Akureyri í hópinn, það væri dýrmætt,“ segir Hildur og minnir á næsta Einbúakaffi í safnaðarheimili Akureyrarkirkju 23. maí.