Flinkur „Gunnar Smári er flinkur og fimur,“ segir í rýni um einleikinn.
Flinkur „Gunnar Smári er flinkur og fimur,“ segir í rýni um einleikinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Félagsskapur með sjálfum mér ★★★★· Eftir Gunnar Smára Jóhannesson. Leikstjórn: Tómas Helgi Baldursson. Leikmynd: Auður Katrín Víðisdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Íris Rós Ragnhildar. Leikari: Gunnar Smári Jóhannesson. Frumsýnt í Tjarnarbíói 4. apríl 2024. Rýnir sá sýninguna á sama stað sunnudaginn 14. apríl 2024.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Leikhúsið hefur alltaf verið staður til að vinna úr áföllum, samfélagslegum, andlegum, persónulegum. Greina þau, skoða orsakir og afleiðingar. Fyrir einstaklinginn, fyrir samfélagið, fyrir sálina.

Gunnar Smári Jóhannesson er því í góðum félagsskap sem nær aftur í aldir þegar hann vinnur úr sinni sáru reynslu af ástvinamissi í einleiknum Félagsskapur með sjálfum mér, sem hann vann upphaflega sem einstaklingsverkefni í Listaháskólanum en hefur nú útfært fyrir stærra svið og víðari áhorfendahóp og frumsýndi í Tjarnarbíói.

Unnar hefur einangrað sig. Gert upp íbúð einn síns liðs, ekki kannski alveg upp á tíu í flísa- og parketlögn, en nóg fyrir hann. Verra ef aðrir koma í heimsókn, til dæmis systir hans og hennar dómhörðu kærastar. Tilhugsunin er nóg til að senda hann í alvarlegt uppnám og upprifjun á áföllum æskunnar, þegar báðir foreldrarnir deyja sviplega með alltof skömmu millibili. Návist dauðans heldur svo áfram þegar amman í Reykjavík sem tekur við honum útvegar honum vinnu á elliheimili.

Eru þetta of stór áföll til að hægt sé að reikna með að Unnar „komist yfir“ þau? Er leiðin hans til að takast á við hverfulleika lífsins eins og hann hefur birst honum, leið einsemdarinnar, endilega röng? Það er allavega ekki síður skemmtilegt en átakanlegt að fylgjast með honum þessa kvöldstund.

Félagsskapur með sjálfum mér er haganlega samsettur einleikur. Byrjar á ansi hreint snjallri hugleiðingu um rökvillu í hinni klassísku tímaflakksmynd Back to the Future, kemur við hjá silfurskottunum sem Unnar hefur í hugsunarleysi reynt að útrýma, og hverfur inn í ofbeldisfulla fantasíu þegar vinurinn sem hann hefur reynt að forðast reynist vera í sundi á sama tíma eftir allt saman.

Aðallega er Unnar samt að deila hugsunum sínum með okkur, segja sögu sína og bregða sér í hlutverk helstu persóna. Gunnar Smári er flinkur og fimur, það er öryggi og áreynsluleysi í því hvernig hann túlkar samskipti sín við samferðafólkið og bregður upp myndum þeirra í fáum einföldum dráttum. Það myndi kannski koma meira að sök hvað móðirin, amman og yfirhjúkkan á elliheimilinu verða líkar ef þær væru ekki svona óborganlegar hjá bæði textahöfundinum og túlkandanum. Þessar hjartahlýju en hryssingslegu konur eru ljóslifandi í meðförunum. Silfurskottan líka.

Umgjörðin er falleg og einföld. Þrenging leikrýmisins í Tjarnarbíói kemur vel út og minnir á hvað fáir leikhópar fara þá leið við að setja mark sitt á rýmið. Auður Katrín Víðisdóttir á heiðurinn af henni, en Tómas Helgi Baldursson leikstýrir og má líka vera mjög stoltur af þessari fallegu, fyndnu og átakanlegu sýningu sem óhætt er að hvetja allt áhugafólk um hverfulleika lífsins og kenjar okkar í lífsbaráttunni til að sjá áður en stuttu sýningartímabilinu lýkur.