Söngur Karlakór Grafarvogs og Söngspírurnar halda sameiginlega tónleika undir stjórn Írisar Erlingsdóttur.
Söngur Karlakór Grafarvogs og Söngspírurnar halda sameiginlega tónleika undir stjórn Írisar Erlingsdóttur.
Sjöttu sameiginlegu tónleikar Karlakórs Grafarvogs og Kvennakórsins Söngspíranna verða í Grafarvogskirkju þriðjudaginn 30. apríl og hefjast klukkan 19.30. Kórarnir syngja bæði hvor í sínu lagi og sameiginlega og meðal annars syngja þeir saman syrpu…

Sjöttu sameiginlegu tónleikar Karlakórs Grafarvogs og Kvennakórsins Söngspíranna verða í Grafarvogskirkju þriðjudaginn 30. apríl og hefjast klukkan 19.30. Kórarnir syngja bæði hvor í sínu lagi og sameiginlega og meðal annars syngja þeir saman syrpu úr söngleiknum Vesalingunum, sem byggist á samnefndri sögu eftir franska ljóðskáldið Victor Hugo, en yfirskrift tónleikanna, Vakna skal veröld, er þaðan. „Lögin í Vesalingunum eru mjög grípandi og laglínurnar eftirminnilegar,“ segir Íris Erlingsdóttir, stofnandi og stjórnandi kóranna frá upphafi.

Um 30 manns frá 20 til 70 ára eru í hvorum kór. Íris segir að yfirleitt halli á karla í blönduðum kórum og því sé sameiginlegur kórinn nokkuð sérstakur. Lagavalið sé líka mjög fjölbreytt og efnisskráin miðuð fyrir alla aldurshópa karla og kvenna. „Fyrir þá sem hafa gaman af kórtónlist verður þetta algjör veisla fyrir eyrað.“

Einar Bjartur Egilsson er píanóleikari kóranna en aðrir hljóðfæraleikarar á tónleikunum eru Birgir Steinn Theódórsson bassaleikari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Þórður Árnason gítarleikari.

Hefð er fyrir því að kórarnir flytji syrpu af þekktum lögum eða úr kunnum verkum á sameiginlegum tónleikum. Þeir hafa til dæmis sungið syrpu úr My Fair Lady, syrpu af Vínartónlist, syrpu úr safni Abba sem og Bítlanna og Stuðmanna. „Við höfum gert ýmislegt skemmtilegt,“ leggur Íris áherslu á. „Við höfum slitið barnsskónum og erum á fullri siglingu við að eflast og verða æ betri.“

Mörg hlutverk

Íris stofnaði Karlakór Grafarvogs 2011 og Söngspírurnar 2014. Hún lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1989 og kennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 1997. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum óperu- og söngleikjauppfærslum Þjóðleikhússins, var formaður Þjóðleikhúskórsins um skeið, stjórnaði Reykjalundarkórnum 2000 til 2014 og Karlakór Rangæinga veturinn 2012/2013. Hún er söngkennari við Listaskóla Mosfellsbæjar og sinnir auk þess einkakennslu.

„Það er aðeins öðruvísi að stjórna kvennakór en karlakór,“ segir Íris. „Þegar ég er með strákana er ég eina konan, en þegar ég er með stelpurnar er ég ein af þeim!“ Karlarnir séu hlýðnir og fari eftir því sem þeim sé sagt að gera en konurnar hafi frekar skoðun á hlutunum og það sé líka ágætt. „Ég tek tillit til allra sjónarmiða.“ Engu að síður séu kórarnir svipaðir. Í þeim sé fólk sem vilji vera í kór án þess að álagið sé of mikið. „Kórarnir hafa mjög gaman af því að koma svona saman, því það reynir svolítið á báða hópana.“

Kórarnir æfa vikulega frá hausti fram á vor, karlakórinn í Grafarvogskirkju og kvennakórinn í Grensáskirkju. „Kirkjan styður víða vel við sönginn og það er mikilvægt fyrir okkur að finna þennan stuðning,“ segir Íris og bætir við að miðasala sé á tix.is og hjá kórfélögum.

Tónlistin er ríkur þáttur í lífi Írisar og hún nýtur sín í öllum hlutverkum. „Tónleikarnir hverju sinni eru skemmtilegastir. Stundin þegar allt gengur upp að lokum. Það er sigur fyrir alla og sérstaklega er ánægjulegt að finna og sjá upplifunina hjá þessu áhugafólki, hvað því finnst gaman og hvað söngurinn gefur því mikið.“