Líney Hrafnsdóttir fæddist 25. maí 1963. Hún lést 14. apríl 2024. Útför hennar fór fram 24. apríl 2024.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Enn eitt áfallið skall á minni kæru Ólafsfjarðarfjölskyldu þegar elsku besta Líney bróðurdóttir mín andaðist hinn 14. apríl sl. eftir erfið veikindi. Hvað getur maður sagt? Hvað er hægt að leggja mikið á eina fjölskyldu?

Ég man það eins og gerst hafi í gær, daginn 24. maí 1963 á Hornbrekkuveginum í Ólafsfirði. Lilja lögst á sæng, Líney amma og ljósmóðirin mætt á svæðið og í þetta sinn var Krummi í landi. Þegar kom að fæðingu var ég send út í göngutúr með Kidda og Laugu. Þegar ég kom svo heim aftur hafði ég eignast litla fallega frænku sem fékk nafnið Líney.

Líney var yndisleg, hlý, dugleg, greiðvikin og skemmtileg en lífið lagði svo sannarlega á hana meiri byrðar en flesta aðra. Alltaf var samt gaman að hitta þau Líneyju og Gigga og fá gott frænkuknús. Ég á eftir að sakna hennar og símtalanna frá henni.

Elsku Lauga, þú átt þakkir skildar fyrir að hafa staðið vel við bak þeirra Líneyjar og Gigga í þeirra áföllum og baráttu. Elsku Giggi, Hanna Stella, Alvilda, Lauga, Kiddi og fjölskyldur, við Villi og fjölskyldan öll sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðrún Ragnarsdóttir (Gúa).