Kveðja Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson láta gott heita.
Kveðja Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson láta gott heita. — Morgunblaðið/Eyþór
Spennusagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson hafa ákveðið að leggja niður glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn. Ekkert handrit sem sent var inn í samkeppnina í ár þótti verðlaunanna virði

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Spennusagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson hafa ákveðið að leggja niður glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn. Ekkert handrit sem sent var inn í samkeppnina í ár þótti verðlaunanna virði.

Yrsa og Ragnar stofnuðu til glæpasagnaverðlaunanna í samvinnu við bókaforlagið Veröld árið 2017. Markmið verðlaunanna var að efla íslensku glæpasöguna með því að laða fram nýja höfunda og veita þeim brautargengi, bæði heima og erlendis. Á hverju ári síðan hefur verið efnt til samkeppni um þau og var eina skilyrðið að höfundurinn hefði ekki sent frá sér glæpasögu áður.

Nýir krimmahöfundar hafa þarna fengið stökkpall inn í bransann og margir spjarað sig í kjölfarið. Meðal annars hafa tvær af verðlaunabókunum komið út erlendis og þar af hefur fyrsta verðlaunabókin, Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur, komið út á um 20 tungumálum og hlotið alþjóðleg verðlaun. Í fyrra hlaut Ragnheiður Jónsdóttir verðlaunin en meðal fyrri verðlaunahafa eru Unnur Lilja Aradóttir og Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.

Samkvæmt upplýsingum frá Veröld barst vel á annan tug handrita í samkeppnina í ár. Segir Pétur Már Ólafsson útgefandi að þau hafi verið mjög ólík að gerð, innihaldi og stíl sem sýni að íslensk glæpasagnaflóra sé afar fjölbreytt. Segir hann að mat dómnefndar hafi verið að nokkur handritanna hafi verið mjög álitleg en herslumuninn vantaði til að þau gætu hlotið verðlaunin.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon