Yfirvegun Fyrir flesta er nógu erfitt að halda jafnvægi í öldugangi lífsins. Að halda jafnvægi í öldugangi í orðsins fyllstu merkingu kallar líklega á mikla tækni og þjálfun.
Yfirvegun Fyrir flesta er nógu erfitt að halda jafnvægi í öldugangi lífsins. Að halda jafnvægi í öldugangi í orðsins fyllstu merkingu kallar líklega á mikla tækni og þjálfun. — Ljósmyndir/Halldór Kr. Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brimbrettaiðkun fer vaxandi hérlendis og á umliðnum árum hefur brimbrettafólk unað sér vel á Brimnesi í Ólafsfirði. Þegar ljósmyndarann Halldór Kr. Jónsson bar að garði um helgina voru um tuttugu manns að glíma við öldurnar og létu ekki á sig fá þótt frostið næði 8 gráðum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Brimbrettaiðkun fer vaxandi hérlendis og á umliðnum árum hefur brimbrettafólk unað sér vel á Brimnesi í Ólafsfirði.

Þegar ljósmyndarann Halldór Kr. Jónsson bar að garði um helgina voru um tuttugu manns að glíma við öldurnar og létu ekki á sig fá þótt frostið næði 8 gráðum. Á hinn bóginn var stillt veður og aðstæður við Brimnes voru afskaplega góðar.

Brimnestunga er nyrst í bænum í Ólafsfirði, að mestu óbyggt svæði og þar þykir aðstaða góð fyrir brimbrettaiðkun þótt einhvern tíma hefði fólk ef til vill tengt sportið frekar við lönd þar sem loftslagið er hlýrra.

Eitt besta svæði landsins

Í febrúar í fyrra kom fram hér í blaðinu að vinna væri hafin við að deiliskipuleggja brimbrettaaðstöðu á svæðinu. Í skipulagslýsingu Fjallabyggðar vegna deiliskipulagsvinnunnar kom fram að helsta verkefni vinnunnar væri að vernda brimbrettaöldu í Ólafsfirði til framtíðar og skipuleggja brimbrettaaðstöðu á svæðinu.

„Við búum svo vel að hér er eitt besta brimbrettasvæði landsins frá náttúrunnar hendi, að margra mati,“ var þá haft eftir Sigríði Ingvarsdóttur bæjarstjóra.

Uppbyggingin í farvegi

Deiliskipulagið og breytingar á aðalskipulagi var samþykkt í bæjarmálunum í Fjallabyggð í janúar og nú í vikunni staðfesti Skipulagsstofnun breytingu á aðalskipulagi. Á næstunni verður hægt að nálgast skipulagsbreytinguna á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar og í skipulagsgátt. Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir brimbrettafólk þar sem sveitarfélagið skaffar sturtuaðstöðu og fleira sem tengist iðkuninni. Einnig er skipulagt svæði fyrir verslun og þjónustu sem einkaaðilar munu geta sóst eftir þegar þar að kemur.

Töluvert er um að hraustmennin sem stíga kaldar öldurnar við Íslandsstrendur geri sér ferð í Ólafsfjörð um helgar til að ná æfingum.