Þorgrímur Jónsson fæddist í Vík í Mýrdal 25. apríl 1924. Foreldrar hans voru hjónin Jón Jónsson (1889-1957) og Þorgerður Þorgilsdóttir (1900-1994). Systkini hans voru Sigrún (1921-2001), Hafsteinn (1931-1997) og Bryndís (1936). Faðir hans var silfursmiður og fjölhæfur handverksmaður. Þorgrímur hefur eflaust fylgst með föður sínum í smiðjunni handleika glóandi málm og var þar ef til vill lagður grunnur að framtíðarstarfsvettvangi hans. Þorgrímur hafði mikla ánægju af silungsveiði og veiddi oft í Heiðarvatni með föður sínum sumar sem vetur. Gengu þeir þá að heiman yfir Arnarstakksheiði að Heiðarvatni. Sem ungur drengur upplifði hann mátt brimsins í Vík. Loftskipið Graf Zeppelin sá hann fljúga yfir Vík árið 1930.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur 1938. Þorgrímur fór að vinna í Steiniðjunni ásamt því að stunda grásleppuveiðar með föður sínum. Þorgrímur var mikill verkmaður, talnaglöggur og þjónustulipur og byggði það vafalaust á reynslu sinni frá því hann var sendisveinn í versluninni Vaðnesi. Hann gegndi um tíma stöðu húsvarðar í Iðnó. Við hernám Breta 1941 varð hann sendiboði í heimavarnarliðinu. Hann stundaði fimleika með Ármanni og var í hópi ungmenna sem sýndu fimleika á Þingvöllum á Lýðveldishátíðinni 17. júní 1944. Þorgrímur tók sveinspróf í málmsteypu frá Iðnskólanum í Reykjavík 1945 og fékk síðar meistarabréf í sömu iðngrein.

Árið 1944 keyptu foreldrar hans Laugamýrarblett 32 í Laugarnesi. Þar stofnuðu þeir feðgar málmsteypu. Málmsteypa Þorgríms Jónssonar var þar til húsa til 1973. Á fyrstu árum málmsteypunnar voru búsáhöld úr áli aðalframleiðslan en einnig voru munir steyptir úr kopar t.d. lampar. Árið 1946 hélt Þorgrímur til Svíþjóðar til að mennta sig frekar í málmsteypu hjá Stockholms Tekniska Institut. Að námi loknu hóf hann störf hjá Söderhamn Mekaniska Verkstäder og vann þar um skeið. Er heim kom hóf hann störf á ný í málmsteypunni. Þorgrímur hannaði stálmót fyrir nýjar pönnukökupönnur sem voru með renndu skafti sem hann renndi einnig sjálfur. Þessar pönnur urðu mjög vinsælar.

Þorgrímur kvæntist Guðnýju Margréti Árnadóttur 3. júní 1950. Hún fæddist 25. apríl 1928 í Hellnafelli í Grundarfirði. Foreldrar hennar voru Árni Sveinbjörnsson og Herdís S. Gísladóttir. Börn þeirra urðu ellefu og var hún fjórða í röðinni. Að loknu barnaskólanámi stundaði hún nám við Reykholtsskóla Borgarfirði. Áður hafði hún unnið á greiðasölustaðnum Ferstiklu í Hvalfirði til að afla sér tekna fyrir náminu. Hún fluttist síðan til Reykjavíkur, þar vann hún m.a. á ljósmyndastofu. Áhugi á ljósmyndun fylgdi henni ætíð síðan. Eftir að hún giftist sinnti hún húsmóðurstörfum af miklum myndarskap. Þorgrímur og Guðný hófu búskap að Laugamýrarbletti en byggðu síðar hús við Rauðalæk ásamt móður Þorgríms og bróður. Bjuggu þar síðan alla sína tíð. Guðný var mikil dugnaðar- og handverkskona. Hún studdi mann sinn dyggilega við rekstur fyrirtækisins og tók ríkan þátt í uppbyggingu og rekstri þess. Síðar vann hún utan heimilis við þjónustu aldraðra og verslunarstörf. Guðný lést 28. september 2018.

Börn þeirra eru Bára Þorgerður (1950), Sigurður Trausti (1952), Jón Þór (1958) og Herdís (1961).

Árið 1973 flutti Málmsteypan að Hyrjarhöfða 9, í nútímalegra og stærra iðnaðarhúsnæði. Smám saman varð járn stærri hluti framleiðslunnar, einkum vörur til gatnagerðar svo sem niðurföll og brunnar. Þorgrímur tæknivæddi fyrirtækið í áföngum. Rafmagnsbræðsluofn var tekinn í notkun í stað olíukynts ofns. Þar með var endurvinnslan komin á efsta stig með innlendri orku. Fyrirtækinu var breytt í hlutafélag 1987. Sigurður Trausti og Jón Þór höfðu þá gengið til liðs við föður sinn og fyrirtækið breyttist úr handverksfyrirtæki í framleiðslufyrirtæki. Hafin var framleiðsla úr seigjárni, framleiðsluvörum fjölgaði og efnagreiningarbúnaður keyptur 1996. Feðgarnir stýrðu fyrirtækinu saman og var Þorgrímur virkur þátttakandi í stefnumörkun fyrirtækisins og framþróun. Gæði og þjónusta var í fyrirrúmi. Starfsemin efldist og árið 2000 flutti fyrirtækið í Miðhraun 6 í Garðabæ með stórbættri aðstöðu og framleiðslugetu. Stór skref voru stigin í umhverfismálum m.a. með nýtingu glatvarma til upphitunar á húsnæðinu. Fyrirtækið hefur margoft verið valið sem framúrskarandi fyrirtæki.

Þorgrímur vann á sinni starfsævi ómælt þjóðþrifastarf á sviði endurvinnslu við að breyta þúsundum tonna af brotamálmi í nýjar vörur. Þorgrímur lét af störfum árið 2005, en hugur hans var alltaf hjá fyrirtækinu. Hann lést 21. júlí 2022. Þorgrímur hefði orðið 100 ára á sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl 2024, og Guðný 96 ára. Í dag má sjá gatnagerðarvörur merktar MÞJ eða Málmsteypu MÞJ út um allt land. Eins konar minnismerki um dugnað þessara hjóna og framlag þeirra til íslenskrar iðnsögu.

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf. var seld 2019 og afhent nýjum eigendum 2020.

F.h. systkinanna,

Sigurður Trausti
Þorgrímsson.