Sjálfskoðun Yfirlit yfir sýningu Hildigunnar Birgisdóttur í íslenska skálanum í Arsenale á Feneyjatvíæringnum.
Sjálfskoðun Yfirlit yfir sýningu Hildigunnar Birgisdóttur í íslenska skálanum í Arsenale á Feneyjatvíæringnum. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Feneyjar Útlendingar alls staðar – That’s a very large number – a commerzbau ★★★★· Fulltrúi Íslands: Hildigunnur Birgisdóttir. Sýningarstjóri tvíæringsins: Adriano Pedrosa. Sýningarstjóri íslenska skálans: Dan Byers. Sýningin stendur til 24. nóvember 2024. Opið þriðjudaga til fimmtudaga og sunnudaga kl. 11-19, föstudaga og laugardaga kl. 11-18.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Feneyjatvíæringurinn var opnaður í 60. sinn 20. apríl, en hann hefur verið haldinn allt frá 1895 og skipað sér sess sem ein helsta hátíð myndlistar á Vesturlöndum. Kjarni viðburðarins, alþjóðlega sýningin, er á tveimur stöðum í borginni, í Arsenale-byggingunni og í ítalska skálanum í Giardini-garðinum. Þarna er sýning á list fjölmargra listamanna frá öllum heimshornum. Auk hennar eiga fjölmörg lönd sína eigin sýningarskála víðsvegar um borgina. Mörg ríki hafa byggt sér sérstök sýningarhús í Giardini-garðinum. Sumir skálar, eins og sá íslenski, eru í hluta Arsenale-byggingarinnar sem er mjög viðamikil.

Listrænn stjórnandi tvíæringsins í þetta sinn er Brasilíumaðurinn Adriano Pedrosa. Hann leggur drögin að hugmyndafræði tvíæringsins í heild auk þess að skipuleggja alþjóðlegu sýninguna. Í ár ber tvíæringurinn yfirskriftina Útlendingar alls staðar. Þetta er að hluta til vísun í núverandi heimsástand þar sem fjöldi flóttamanna er sem aldrei fyrr. Einnig er heitið viðtekinn frasi víða um heim, þar sem fólki finnst utanaðkomandi fólk ógna lífsstíl sínum og menningu. Út frá þemanu hefur Pedrosa skipulagt óvenjulega sýningu þar sem verk lítt þekktra listamanna sem tilheyra jaðarhópum, minnihlutahópum og frumbyggjum eru í öndvegi.

Verðlaunaverk alþjóðlegu sýningarinnar er í inngangi alþjóðlegu sýningarinnar í Giardini. Þar hefur nýsjálenski listhópurinn Mataaho Collective ofið sláandi himnafestingu sem gnæfir yfir rýmið og endurskilgreinir það. Verkið er gert úr hversdaglegu efni, spennuböndum sem almennt eru nýtt til að festa niður farm á vörubílum eða skipum. Það er ofið með hefðbundinni aðferð Maóría við helgivefnað. Heiti verksins, „Takapau“, vísar til fæðingar, þegar veran kemur úr myrkri yfir í ljós. Verkið þjónar því vel sem inngangur fyrir sýninguna og áherslu hennar á það sem sjaldan eða ekki hefur birst á vettvangi hennar fyrr en nú.

Í þjóðaskálunum vinna margir út frá markmiði sýningarinnar. Ríki sem byggja á nýlenduarfleifð gefa mörg afkomendum fórnarlamba hennar tækifæri til að tjá sig. Danir hafa þannig breytt sínum skála í grænlenskan og boðið grænlenska ljósmyndaranum Inuuteq Storch að sýna verk sín þar. Sýningin, sem ber titilinn Rise of the sunken sun, byggist á nokkrum myndröðum sem túlka persónulega sýn hans á grænlenskan veruleika í samtíð og fortíð. Hann sýnir eigin ljósmyndir sem sýna blákaldan veruleika nútímafólks á Grænlandi. Auk þessara mynda sýnir Storch myndir úr albúmi fjölskyldu sinnar og myndir sem fyrsti starfandi ljósmyndarinn á Grænlandi tók í kringum aldamótin 1900. Sýning Storch er því sterk og persónuleg birtingarmynd grænlensks veruleika frá nýlendutímum þar til nú.

Í íslenska skálanum kveður við annan tón. Þar byggir Hildigunnur Birgisdóttir upp myndheim sem er í grunninn skoðun og ádeila á neyslusamfélög nútímans. Hildigunnur hefur á ferli sínum gjarnan sýnt verk sem hún byggir á fundnum hlutum sem telja má fáfengilega, tákn fyrir innihaldsleysi neyslumenningar. Sýningar hennar nýta þessa hluti stundum beint, framsetta sem fágæti. Oftar en ekki tekur hún einnig slíka hluti og endurgerir í yfirstærð.

Sýning Hildigunnar á tvíæringnum er einskonar tengipunktur, byggður úr ólíkum og, að því er virðist, ósamstæðum einingum. Titilinn, That’s a very large number – a commerzbau, má skilja sem háa tölu eða sem mikinn fjölda. Í kringum rýmið eru nokkrir smáir hlutir í áberandi litum felldir inn í rýmið. Um er að ræða stækkaða muni úr dúkkuhúsum. Á endaveggnum er búið að stækka upp einhverskonar merkimiða. Í gegnum gluggann þar við hliðina glittir í skjá hinum megin síkisins sem sýnir uppstækkuð brot úr auglýsingahreyfimyndum.

Mest áberandi hluti innsetningarinnar er merkispjald sýningarinnar, nokkuð sem yfirleitt lætur lítið yfir sér við inngang skála. Efniviður skiltisins er fundin plata sem hafði þjónað sem gólfefni í argentínska skálanum. Hún er hér nýtt sem kynningarspjald fyrir sýninguna í heild. Þar er fyrst listaður upp fjöldi fyrirtækja sem voru „birgjar“ sýningarinnar, útveguðu vörur eða þjónustu sem þurfti til þess að sýningin gæti orðið að veruleika. Í miðju plötunnar er yfirlitskort af sýningunni sjálfri, með titlum verka og lýsingu. Þar fyrir neðan eru hefðbundnar upplýsingar um aðstandendur sýningarinnar, auk titils hennar og tilkynningar um að listamaðurinn styðji baráttu gegn þjóðarmorði. Þegar yfirlit sýningarinnar er skoðað sést einnig að upplýsingaborðið í miðju salarins og blautþurkurnar sem eru á því eru einnig hluti verksins.

Sýning Hildigunnar snýr þannig viðteknum hugmyndum um eðli og framsetningu sýningar á rönguna. Hlutirnir sem sjást á sýningunni eru í reynd yfirvarp fyrir heildarmyndina þar sem allt skiptir í raun máli. Eiginleg merking sýningarinnar er fólgin í sjálfskoðun hennar. Í meðferð Hildigunnar er það umgjörðin sem er áherslupunkturinn, það sem yfirleitt er áberandi en ekki beinlínis til sýnis. Raunveruleikinn er það sem er á bak við, eins og brotgatið í veggnum sem er falið á bak við miðann í yfirstærð. Hún dregur fram og varpar ljósi á heildarmyndina á bak við sýndarmynd myndlistarinnar. Hún neitar að taka þátt í því að fela samhengi neyslunnar og þess veruleika sem þar er að finna.