Hagaborg Drengir í bílaleik á Hagaborg árið 1960, en Sumargjöf hefur alltaf lagt áherslu á vönduð þroskaleikföng.
Hagaborg Drengir í bílaleik á Hagaborg árið 1960, en Sumargjöf hefur alltaf lagt áherslu á vönduð þroskaleikföng. — Ljósmynd/Guðmundur Hannesson/Úr myndasafni Sumargjafar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumardaginn fyrsta árið 1924 var Barnavinafélagið Sumargjöf stofnað í Reykjavík að undirlagi reykvískra kvenna og heldur félagið því upp á aldarafmæli sitt um þessar mundir. Tilgangur félagsins var að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og…

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Sumardaginn fyrsta árið 1924 var Barnavinafélagið Sumargjöf stofnað í Reykjavík að undirlagi reykvískra kvenna og heldur félagið því upp á aldarafmæli sitt um þessar mundir. Tilgangur félagsins var að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum. Félagið hugðist ná tilgangi sínum m.a. með rekstri dagheimila fyrir börn og varð félagið brautryðjandi í stofnun og rekstri leikskóla á Íslandi.

„Félagið hefur gefið út tvær afmælisbækur um félagið, annars vegar á 25 ára afmæli félagsins og síðan á 50 ára afmælinu,“ segir Kristín Hagalín Ólafsdóttir formaður Sumargjafar og segir að í þeim bókum hafi áhersla verið lögð á starfsemi félagsins og sögu. „Núna þegar 100 ára afmælið fór að nálgast langaði okkur að minnast þessara tímamóta með ritun veglegrar bókar um börn í Reykjavík síðastliðin 100 ár.“

Sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson, sem hefur sérhæft sig í sögu Reykjavíkur, var fenginn til verksins. Strax var ákveðið að hafa bókina ríkulega myndskreytta og áhugaverða fyrir almenning og að sannkallaðan aldarspegil á líf barna í borginni, en bókin kemur út hjá Forlaginu í nóvember.

Sumardagurinn fyrsti

Kristín segir að hugmyndin að stofnun Barnavinafélagsins Sumargjafar hafi fæðst í kringum 1918 hjá reykvískum konum sem var umhugað um að efla velferð barna. „Bandalag kvenna tók að sér forystuna í þessum málum barnanna og þær ræddu einkum um mikilvægi þess að koma á fót vistheimili fyrir munaðarlaus börn, þó það breyttist svo síðar. En upphaflega hugmyndin var að styðja við börn sem stóðu höllum fæti.“

Unnið var að fjáröflun fyrir félagið í fjögur ár áður en það var stofnað og sumardagurinn fyrsti var gerður að degi barnanna. „Fyrir þennan tíma var haldið upp á sumardaginn fyrsta víða um land, en ekki sérstaklega með börn í huga. Frá og með 1924, þegar félagið var formlega stofnað, varð sumardagurinn fyrsti helsti fjáröflunardagur félagsins. Félagið fjármagnaði byggingu og rekstur dagheimilanna sem síðar risu með fjáröflun á þessum degi. Strax 1924 hófst dagvistun barna og var hún fyrstu þrjú árin í gamla Kennaraskólanum og rekin bara yfir sumartímann,“ segir Kristín og bætir við að þótt oftast sé talað um reykvískar konur sem frumkvöðla í starfinu megi ekki gleyma hlut kennara sem einnig komu að starfinu. Þeir þekktu vel aðstæður barna í Reykjavík og vissu hvar úrbóta var þörf.

„Á sumardaginn fyrsta voru hátíðarhöld í borginni og félagið seldi merki og ársritið Sólskin, sem var hefti með lesefni fyrir börn og félagið gaf út árlega frá 1930-1967 og var mjög vinsælt, en lesefni fyrir börn var af skornum skammti á þessum tíma.“ Leikskólinn Grænaborg er síðan reistur árið 1931 á Landspítalalóðinni þar sem geðdeild LSH er nú.

Fyrsta barnaheimili landsins

„Grænaborg er fyrsta dagheimilið á landinu en fljótlega varð þörf fyrir fleiri heimili. Næst kom Vesturborg og síðan Sunnuborg og Austurborg, en smám saman fóru að fást styrkir frá borginni, því reksturinn var mjög fjárfrekur. Það voru ekki allir foreldrar sem gátu greitt fyrir börnin sín en það var ekki látið koma niður á vistun barnanna. Árið 1935 fór borgin að styrkja byggingu og rekstur og árið 1950 má segja að byggingarfé og rekstrarfé komi alfarið frá borginni, en Sumargjöf var treyst til að reka heimilin, sem fjölgaði jafnt og þétt. Það var síðan ekki fyrr en 1978 að Reykjavíkurborg tók alfarið að sér rekstur leikskólanna í borginni, en þá voru heimilin orðin 35.“ Sumargjöf á enn tvö heimili sem Reykjavíkurborg rekur, Grænuborg við Eiríksgötu og Steinahlíð við Suðurlandsbraut.

Uppeldisskóli Sumargjafar

Kristín segir að alla tíð hafi verið mjög gott samstarf milli félagsins og borgarinnar og rekstur leikskólanna hafi byggst á trausti og gamalli hefð. „Það var mikill metnaður í leikskólastarfinu og fljótlega eftir að reksturinn hófst varð ljóst að það þurfti að mennta starfsfólk fyrir heimilin. Frá upphafi lagði Sumargjöf ríka áherslu á uppeldishlutverk heimilanna og árið 1946 er stofnaður Uppeldisskóli Sumargjafar, síðar Fóstruskólinn, sem var rekinn til 1973 þegar nafninu var breytt í Fósturskólinn þegar hann varð ríkisskóli. Skólastjóri á meðan Sumargjöf rak skólann var Valborg Sigurðardóttir sálfræðingur.“ Auk þess rak Sumargjöf verslunina Völuskrín frá 1977, þar sem áhersla var lögð á vönduð þroskaleikföng fyrir börn, allt til ársins 1989 þegar Mál og menning tók yfir reksturinn.

Eftir að Reykjavíkurborg tók við rekstri leikskólanna hefur Sumargjöf beitt sér sem styrktaraðili ýmissa málefna sem varða heill barna. Má þar nefna styrki til rannsókna, lista og þróunarverkefna í þágu barna. Frá árinu 1988 hefur félagið m.a. verið aðili að Verðlaunasjóði íslenskra barnabóka og einnig styrkti félagið Íslensku upplestrarkeppnina um árabil.