Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Heimilin í landinu geta ekki eins og Seðlabankinn, ríkissjóður eða útflutningsfyrirtækin velt vaxtavandanum yfir á aðra. Þau bera sínar byrðar sjálf.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Seðlabankinn hefur aukið verulega hina svokölluðu bindiskyldu bankanna. Það þýðir að viðskiptabankarnir þurfa að leggja meira fé inn á vaxtalausa reikninga í Seðlabankanum. Þetta er ugglaust skynsamleg ráðstöfun.

Ákvörðunin staðfestir að stjórnvöld eru enn langt frá því að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Sú staðreynd kemur ekki á óvart. Heimilin í landinu finna fyrir því. Við erum í þriðja sæti eða á eftir Rússlandi og Úkraínu þegar kemur að vöxtum. Í könnun Maskínu sem gerð var um daginn segja um 70 prósent íslenskra heimila að verðbólga og vextir hafi mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhaldið.

Það sem mér finnst hins vegar tíðindum sæta við þessa ákvörðun Seðlabankans um aukna bindiskyldu er rökstuðningur bankans.

Hvað er hægt að gera við 40 milljarða, á hverju ári?

Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans er mikilvægur. Við þurfum hann ekki síst vegna krónunnar. Það gleymist hins vegar að hann kostar mikla fjármuni. Yfir 40 milljarða árlega. Vaxtagreiðslurnar eru þungar byrðar fyrir bankann. Krónubyrðar. En þetta er val stjórnvalda og gömlu flokkanna. Í raun kostar krónan íslenskt samfélag meira en einn milljarð á dag. Meðan þessi krónuskattur er til staðar er holur hljómur í að tala um hagræðingu og lækkun skatta ef ekki má ráðast á umsvifamikinn kostnað íslenskra heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Svo ekki sé minnst á réttlætið sem fylgir traustum gjaldmiðli eins og evru.

Helsti rökstuðningur Seðlabankans fyrir hækkun bindiskyldunnar er sá að rétt sé að viðskiptabankarnir beri þennan kostnað með Seðlabankanum. Það má jafnvel skilja sem svo að þetta sé brýnt jafnréttismál.

Seðlabankinn er með öðrum orðum að segja að hann ráði ekki sjálfur við það vaxtastig sem hann hefur ákveðið. Vextirnir af gjaldeyrisvarasjóðnum leiða til halla í reikningum bankans. Það er ekki góð latína á þenslutímum. Þess vegna er bankanum nauðugur einn kostur að dreifa byrðunum á fleiri herðar.

Hér nýtur Seðlabankinn hins vegar sérstöðu. Hann hefur vald til þess að ákveða að viðskiptabankarnir beri þessar vaxtabyrðar vegna gjaldeyrisvarasjóðsins með honum. Það er bara ákveðið með einu pennastriki.

Ríkissjóður er í sömu aðstöðu. Hann ræður ekki við þá vexti sem ríkisstjórnin felur Seðlabankanum að ákveða. Vaxtagjöld síðasta árs voru um 80 milljarðar króna. Undir forystu þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur ríkissjóður valið þá leið að auka skuldir og láta skattgreiðendur framtíðarinnar borga brúsann. Heill áratugur af halla á ríkissjóði er arfleifð þessarar ríkisstjórnar.

Stærsta jafnréttisspurning samtímans

Útflutningsfyrirtæki með 42 prósent af þjóðarframleiðslunni starfa í vaxtaumhverfi sem stýrt er af Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Bandaríkjanna. Ofurvextir Seðlabanka Íslands snerta ekki einu sinni þennan stóra hluta í þjóðarbúskapnum.

Seðlabankinn getur sem sagt velt hluta af sínum eigin vaxtavanda yfir á viðskiptabankana. Ríkissjóður veltir sínum vaxtavanda yfir á unga fólkið, skattgreiðendur framtíðarinnar. Útflutningsfyrirtækin vita hins vegar ekki af vaxtavandanum.

Þá er komið að garminum honum Katli. Heimilin í landinu geta ekki eins og Seðlabankinn, ríkissjóður eða útflutningsfyrirtækin velt vaxtavandanum yfir á aðra. Þau bera sínar byrðar sjálf. Sama má segja um litlu og meðalstóru fyrirtækin sem eru í innlendri samkeppni. Það sjá flestir að það þarf að jafna leikinn. Nokkuð sem allir gömlu flokkarnir eiga erfitt með að beita sér fyrir.

Það er í ljósi jafnréttishugsjónar að Seðlabankinn getur dreift vaxtabyrðinni af gjaldeyrisforðanum að hluta til yfir á viðskiptabankana. Og það er á grundvelli jafnréttishugsjónar að útflutningsfyrirtækin búa í sama vaxtaumhverfi og keppinautarnir á erlendum mörkuðum. Það er jafnréttismál að þau geti starfað í öðru vaxtaumhverfi en því sem Seðlabanki Íslands ákveður.

En þegar kemur að heimilunum í landinu lokar ríkisstjórnin augunum. Þá má ekki nefna jafnrétti og jafna möguleika allra. Að verkakonan, trésmiðurinn eða kennarinn njóti jafnréttis við eigendur útflutningsfyrirtækjanna er ekki hægt. Það er víst vegna „stærra samhengis“, eins og einn forystumaður ríkisstjórnarinnar komst að orði um þessa stærstu jafnréttisspurningu samtímans!

Af átta flokkum á Alþingi hefur Viðreisn ein sett þetta jafnréttismál á dagskrá.

Höfundur er formaður Viðreisnar.

Höf.: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir