Taka þarf alvarlega ábendingar um ofvaxnar og íþyngjandi reglur

Í ViðskiptaMogganum í gær var rætt við tvo stjórnendur hjá íslenskum fyrirtækjum, Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, og Sigurð Örn Ágústsson, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Play. Bæði eru þessi fyrirtæki umsvifamikil á íslenskan mælikvarða þó að ólík séu að öðru leyti, annað er rótgróið í framleiðslu og innflutningi en hitt er ungt flugfélag. Báðir þessir viðmælendur benda á vanda sem snýr að ofvöxnu eftirlitskerfi.

Sigurður Örn er spurður að því hvaða lögum hann mundi vilja breyta ef hann fengi að ráða og svarar þannig: „Það er verðugt verkefni að einfalda íslenskt lagaumhverfi og það væri til bóta að almenn skynsemi fengi meira vægi við setningu laga en nú er. „Gullhúðunarárátta“ íslenskra þingmanna er svo sérkapítuli út af fyrir sig og alveg óþolandi.“

Þessi svokallaða gullhúðun, sem er hugtak til að lýsa því að hér á landi sé bætt við reglur sem innleiddar eru frá Evrópusambandinu vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er verulegt vandamál. Og það er ekki aðeins vandamál, það er líka óskiljanlegt að það skuli hafa fengið að viðgangast og að ráðherrar og þingmenn skuli ekki hafa verið betur á verði í þessum efnum.

Andri Þór tekur fram að almennt eftirlit sé nauðsynlegt og heilbrigt, en eftirlitsumhverfið hér á landi sé „alltaf að verða fyrirferðarmeira og kröfurnar sem settar eru á okkur varðandi sjálfbærni, skýrslugjöf og annað verða sífellt meiri.“ Og hann bætir við að það kosti bæði tíma og peninga að skrásetja allar þessar upplýsingar í samræmi við Evrópureglurnar.

Það gleymist allt of oft þegar verið er að setja reglur um aukið eftirlit og aukna skýrslugjöf um ýmis áhugamál einstakra þrýstihópa eða þingmanna að þetta kostar allt saman mikla vinnu og mikið fé. Þau verðmæti nýtast ekki í þarfari verkefni, svo sem verðmætasköpun og bætt kjör almennings í landinu. Það er ekki ókeypis að hlaða kostnaði á fyrirtækin í landinu og á endanum er það almenningur sem ber byrðarnar.