Guðrún Pétursdóttir síðar Waage fæddist 22. júní 1942. Hún lést 11. apríl 2024. Útför hennar fór fram 24. apríl 2024.

Hún Gunna var ekkert sérstaklega stór á velli. Hún var heldur ekkert sérstaklega margmál eða hávær, né tranaði hún sér fram fyrir aðra.

En hún hafði ótrúlega notalega nærveru sem er eftirminnileg öllum sem kynntust henni og hún hafði þann sjaldgæfa hæfileika að þar sem hún var hverju sinni varð andrúmsloftið betra bara fyrir það að hún var þar.

Hún var eiginkona, móðir og amma, heimavinnandi og útivinnandi og rækti öll þau hlutverk af einstakri trúmennsku og ósérhlífni. Hún var óvenju vel lesin og átti mörg áhugamál og þó að hún hafi verið af þeirri kynslóð sem fæddist á fyrri helmingi síðustu aldar var nútíminn og tæknibyltingar henni alls ekkert framandi og forvitni hennar um nýjungar óseðjandi.

Hún var föst á skoðunum sínum en var ekkert endilega að troða þeim upp á aðra né vildi hún hafa vit fyrir öðrum. Almenn manngæska og góðvild er kannski það sem helst kemur upp í hugann þegar við minnumst hennar, umhyggja fyrir ættingjum sínum og öllum þeim nákomnum. Hún var vinum sínum, ættingjum og samferðamönnum hlý og góð og skilur eftir sig hjá öllum sem þekktu hana ljúfar minningar.

Við tengdumst henni og Tómasi fjölskylduböndum fyrir margt löngu og þó að oft liðu stundir milli funda voru öll þau tengsl við Gunnu og Tómas okkur góð og ánægjuleg og þökkum við fyrir það nú að leiðarlokum.

Tómasi og dætrunum og ættingjum öllum biðjum við blessunar og vitum að góðar minningar um góða eiginkonu, móður og ömmu munu lina sorgina.

Ragnheiður
Ebenezerdóttir,
Stefán Friðfinnsson.

Mig langar að minnast með nokkrum orðum fyrrverandi tengdamóður minnar sem féll sviplega frá núna í apríl eftir stutt veikindi.

Ég kynntist Guðrúnu og Tómasi fljótlega eftir að við Helga kynntumst á menntaskólaárunum. Mér var tekið virkilega vel og það var alveg sama hvenær beðið var um einhverja hjálparhönd þá voru þau Guðrún og Tómas ávallt tilbúin að leggja okkur lið. Sem dæmi má nefna að það var ekki tiltökumál fyrir Guðrúnu að sjá um ömmubarnið sitt – hana Hrefnu – í tæpan mánuð þegar hún var á þriðja aldursári. Þá var mikið að gera í próflestri hjá okkur Helgu þegar við vorum í námi í Bandaríkjunum og þegar far heim bauðst fyrir Hrefnu þáðum við það með þökkum þó svo að vistin hjá ömmu og afa hafi verið heldur lengri en á þurfti að halda. Að sjálfsögðu varð þeim Guðrúnu og Tómasi ekki skotaskuld úr því að sjá um Hrefnu, sem leið ávallt afar vel hjá þeim. Eftir heimkomuna úr náminu vorum við Helga mjög reglulega að flytja búferlum og í hvert skipti fengum við ríkulega aðstoð frá þeim Guðrúnu og Tómasi og skipti þá engu máli hvers konar aðstoð þurfti á að halda. Öllum beiðnum var vel tekið og drifkrafturinn og dugnaðurinn hjá þeim gerði hvert verkefni margfalt auðveldara.

Þegar við Helga slitum samvistum héldum við Guðrún áfram mjög góðu sambandi. Það var svo við hæfi að ég tæki saman við nöfnu hennar og má segja að hún hafi verið sem amma barnanna okkar Guðrúnar einnig. Þau hjónin fylgdust vel með barnahópnum og færðu þeim meðal annars afmælis- og jólagjafir og fögnuðu gjarnan með okkur stórum áföngum í lífi okkar.

Guðrún var alveg einstaklega bóngóð, barngóð og jákvæð manneskja sem var virkilega gefandi að umgangast. Við fjölskyldan á Heiðarhjallanum munum því sakna hennar sárt og sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur til Tómasar og fjölskyldu.

Helgi
Hjálmarsson
og fjölskylda.