Jón Þór Sigurðsson fæddist á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 8. október 1947. Hann lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 30. mars 2024.

Foreldrar hans voru Sigurður Gestsson, f. 1918, d. 2004, og Unnur Ágústsdóttir, f. 1920, d. 2002. Systkini hans eru: Helga, f. 1944, d. 1990, Magnhildur Þórveig, f. 1950, og Ágúst Frímann, f. 1954.

Jón Þór giftist Laufeyju Jónsdóttur, f. 1944. Barn þeirra er Unnur Sigrún, f. 1980, maki Helgi Garðarsson, f. 1969. Börn Unnar eru Júlíus Theodór Jónsson, f. 2008, og Ísak Alexander Jónsson, f. 2013. Börn Laufeyjar úr fyrri samböndum eru: 1) Sóley Edda Haraldsdóttir, f. 1967. Börn hennar eru Hrafnhildur Rut Hauksdóttir, f. 1989. Barn hennar er Jökull Daði, f. 2005. Bryndís Björk Hauksdóttir, f. 1991. Börn hennar eru Irmelín Aþena, f. 2013, Míríel Eldey, f. 2014, og Þrymir Dreki, f. 2016. Elvar Freyr Þorsteinsson, f. 1992, og Andri Már Þorsteinsson, f. 1997. 2) Kristín Árnadóttir, f. 1962, eiginmaður Jón Óli Sigurðsson, f. 1965. Sonur hennar Árni Þór Óskarsson, f. 1983. Barn Sonja Kristín, f. 2019 3) Bjarki Haraldsson, f. 1969, eiginkona Erna Friðriksdóttir, f. 1964. Börn Bjarka eru Kolbrún Eva, f. 1988, og Sigurvin Dúi, f. 1995.

Jón Þór fæddist á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Hann ólst upp á bænum Mörk í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann gekk í barnaskólann á Hvammstanga. Síðan fór hann í Héraðsskólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þar sem hann útskrifaðist sem gagnfræðingur.

Hann byrjaði snemma að vinna fyrir sér, en 14 ára var hann farinn að handmoka skurði inni á Hvammstanga með skóflu og haka. Eitt sumar vann hann uppi á Búrfellsvirkjun. Hann vann tvö ár hjá Snorra Jóhannessyni húsasmíðameistara við smíðar. Fjöldamörg ár vann hann við sauðfjárslátrun í sláturhúsinu á Hvammstanga. Einnig fór hann fjórar vertíðir á sjó í Grindavík.

Þegar hann var 24 ára keypti hann sér jörðina Sæból, þar sem hann síðar byggði sér hús, hlöðu og fjárhús ásamt eiginkonu sinni sem hann kynntist árið 1976. Jón og Laufey bjuggu á Sæbóli í 36 ár með sauðfé og æðarvarp. Þau voru mjög samhent og natin við allt sem þurfti að gera í búskapnum. Þau seldu svo jörðina sína árið 2013 og fluttu til Akureyrar þar sem þau keyptu sér íbúð í Tröllagili 19.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Elsku pabbi minn, aldrei bjóst ég við að þurfa að skrifa mína hinstu kveðju til þín svona snemma. Þú sagðist alltaf ætla að verða 100 ára. Núna ertu lagður af stað í óvissuferðina þína og vonandi muntu hitta allt okkar fólk í sumarlandinu sem hefur kvatt þennan heim. Er ég viss um að það verður tekið vel á móti þér og að það sé rjómaterta á boðstólum hjá ykkur, því það var þitt uppáhald.

Það var algjört reiðarslag fyrir okkur öll þegar við fengum að vita að krabbamein væri búið að koma sér fyrir í líkama þínum, því þú hafðir allt þitt líf verið svo hraustur. Þú tókst þessu af einstakri ró og æðruleysi, eins og með svo margt annað í lífi þínu. Ég er búin að vera svo lánsöm að eiga ykkur mömmu að í þessu lífi og fékk þann heiður að geta kallað þig pabba minn.

Þegar ég hugsa til þín kemur eitt orð efst í hugann, þakklæti. Þú hefur leitt mig í gegnum lífið, þurrkað tár mín, og huggað mig á slæmum tímum. Þú hafðir stórt hjarta fullt af visku og hlýju. Þú hjálpaðir mér að ná markmiðum mínum og draumum í lífinu. Takk fyrir að vera kletturinn minn, og takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar. Ég væri ekki sú sem ég er í dag, nema vegna þín.

Þú varst hörkuduglegur. Ungur keyptirðu jörðina Sæból og byggðir þar hús handa okkur. Þar fékk ég að alast upp með ykkur mömmu í sveitinni og voruð þið einstaklega samhent hjón. Fyrir utan sauðburðinn á vorin þurftir þú líka að sjá um æðarvarp. Hugsaðir þú um hvort tveggja af natni og dugnaði. Þú framkvæmdir alltaf hugmyndir þínar af hugrekki og sjálfstrausti. Einnig varstu hagmæltur og hafðir gaman af því að gera vísur annað slagið.

Þér fylgdi einstök ró og útgeislun. Varst þú einnig afar góður afi og reyndist strákunum mínum svo vel. Eiga þeir margar dásamlegar minningar um afa sinn, og sakna þín sárt. Minningarnar munu ylja þeim um ókomna tíð. Við eigum saman ótæmandi brunn góðra minninga, sem við sköpuðum í gegnum lífið saman. Frá fæðingu hefur þú kallað mig Unnu „litlu“ þótt ég væri orðin fullorðin kona, í þínum huga hef ég verið það alla tíð síðan og þykir mér afar vænt um það.

Komið er að hinstu kveðjustund hjá okkur. Hvíldu í friði og ástarþakkir fyrir allt. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð. Minning um dásamlegan föður og afa. Ég elska þig. Guð geymi þig elsku pabbi þangað til við hittumst á ný.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Unnur Sigrún (Unna litla).

Elsku Nóni minn, fyrstu kynni okkar voru þegar ég var níu ára gömul stelpuskjáta. Ég man að þú komst alltaf í heimsókn til mín og mömmu út á Tjörn á Vatnsnesi, mér er það minnisstætt úr þessum ferðum að þú komst alltaf með kók í gleri og súkkulaði fyrir mig. Það gladdi lítið stelpuhjarta. Þegar ég var 10 ára man ég eftir að þú fórst með okkur mömmu á gamla góða Willys-jeppanum í fyrstu tjaldútileguna mína. Það sem stóð helst upp úr í þessari ferð var bláa tjaldið sem við gistum í, sem varla myndi standast kröfur nútímans, og stóra fatan sem tekin var með, sem var stútfull af gæðasíld og lauk. Alla tíð síðan hef ég haft mikið dálæti á síld með lauk. Einnig eru mér minnisstæðar allar sumarbústaðaferðirnar þegar ég var yngri og ferðalögin. Við skoðuðum margt, skemmtum okkur og hlógum. Þá má ekki gleyma að minnast á sjóferðirnar okkar, þó aðallega ferðina með Glað HU, þegar þú varst stýrimaður og hálf áhöfnin, ásamt mér, ælandi vegna brælu. Þú hafðir nú lúmskt gaman af því og minntist oft á það við mig. Þú minntist þess alltaf með hlýhug þegar talað var um tímann þinn til sjós. Í síðustu bústaðarferðinni okkar fyrir þremur árum fórum við saman til Grindavíkur á gamlar vertíðarslóðir og man ég margar sögurnar sem þú sagðir frá þeim tíma og hvað þér fannst það gaman. Þá á ég líka svo margar minningar frá tíma okkar úr sveitinni, öllum heyskapnum, sauðburðinum og fíflaskapnum. Það vita það ekki margir en þú varst lúmskt stríðinn.

Þú hefur alltaf reynst mér ákaflega vel elsku Nóni minn og verður þín sárt saknað. Ég mun hugsa hlýtt um okkar tíma saman þar til við hittumst á ný.

Föðurást

Söknuður mikill sækir mér að,

og sársauki bærist í hjarta.

Bænina okkar ég þá bað,

um betri veröld og bjarta.

Föðurhöndin frábær var,

hún fingurna mína huldi.

Þögul ástin leyndist þar,

þó alstaðar væri kuldi.

Fátt er betra en föðurást,

ég fæ þig stundum að dreyma.

Samferða ert án þess að sjást,

þú sársauka lætur mig gleyma.

(Heiða Jónsdóttir)

Sóley.

Elsku afi okkar, við munum minnast þín með trega og gleði í hjarta. Allra okkar stunda saman og minninga. Hvíl í friði.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Andri og Elvar.

Elsku besti afi.

Það er frekar erfitt að trúa því og sætta sig við það að þú sért farinn frá okkur. Ég sem var alveg búin að ákveða það að þú værir ekkert á förum næstu árin en svo ákveður lífið aðra hluti sem maður þarf að sætta sig við. Ég hugga mig þó við að þér líði vonandi betur í sumarlandinu góða.

Ég hef alltaf verið rosalega stolt af því og montin að eiga þig sem afa. Þú afrekaðir mikið, varst handlaginn og gast smíðað allt. Alltaf þegar ég var að brasa heima og hlutirnir gengu ekki eins og þeir áttu, þá hugsaði ég alltaf: „Ef allt fer á versta veg, þá hringi ég bara í afa, hann getur pottþétt bjargað málunum.“ Þannig varstu, þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur ef við báðum um það.

Einu skiptin sem mér leist illa á blikuna var þegar kom að smalamennskum í sveitinni. Stressið sem því fylgdi náði oft til þín og þú skipaðir okkur eins og herforingi að hlaupa hingað og þangað og passa að kindurnar færu rétta leið. Þrátt fyrir að vera skíthrædd við kindur, þá að sjálfsögðu þorði maður ekki annað en að hlýða karlinum, ekki vildi maður valda þér vonbrigðum. Það eru margar svona minningar sem maður tengir við sveitina og var það frekar skrítið að hugsa til þess þegar þið selduð jörðina og nú voruð þið ekki lengur amma og afi í sveitinni. En mikið var nú gott að fá ykkur nær hingað á Akureyri.

Það er skrítið að hugsa til þess að þú munir ekki koma í fleiri veislur. Þú sem varst alltaf eitt af mínum viðmiðum þegar ég var að skipuleggja veislur sem ég hélt. Alltaf þurfti ég álit frá mömmu um hvaða veitingar ég ætti að hafa því ég var alltaf óákveðin. Aftur á móti var það óskrifuð regla hjá mér að alltaf skyldi nú vera íslensk rjómaterta í veislunni fyrir hann afa. Því það var nú eitt af þínu uppáhalds.

Elsku afi, ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af okkur, við spjörum okkur. Takk fyrir allar minningarnar og góðar stundir. Vona að ég fái tækifæri til að hitta þig aftur þegar að því kemur, við elskum þig.

Nú jarðvist þessa kveður,

svefninum langa sefur.

Þó sorg sé í okkar hjarta,

þá vitum við að sólin bjarta

vísar okkur veginn,

þegar að því kemur

að finna þig á ný.

Þangað til, hvíldu í friði.

(BBH)

Bryndís Björk.

Elsku afi minn, orð geta ekki lýst því hvað ég mun sakna þín mikið og hversu stórt skarð þú skilur eftir í lífi mínu. Ég mun ávallt muna hvað þú kenndir mér margt í gegnum lífið og alla þá speki sem þú komst á framfæri við mig. Mér er minnisstætt þegar ég var ung hnáta, 6-8 ára, og elti þig út um allar trissur í sveitinni. Þú kenndir mér hvernig ætti að gera sveitaverkin, m.a. brynna rollunum, moka undan hestunum og tína æðardúninn. Þú leyfðir mér að sitja í traktornum á meðan þú varst að dreifa skít eða bera á áburð á túnin.

Ég var nú meiri óþekktarormurinn og tók upp á hinu ýmsu sem ekki mátti gera. Þú sýndir mér alla jafna þolinmæði þrátt fyrir það og leiðbeindir mér. Ég man það enn í dag þegar þú sagðir að ég væri hrekkjótt og óþekk eins og hrafninn, eftir það byrjaðir þú að kalla mig Krunku og gerðir það alla tíð.

Mér fannst fátt skemmtilegra en að veiða í netin niðri við sjó í sveitinni. Ég man hversu oft við rerum út á gömlu Júllu Maríu að vitja um netin, það var svo spennandi þegar það voru komnir silungar í þau. Ég man það svo skýrt hvað þú varst sposkur á svip og skemmtir þér vel yfir gleði lítillar stúlku yfir að veiða fiska. Það var sérstaklega skemmtilegt þegar við tókum Tátu gömlu með okkur í bátinn og leyfðum henni að synda í land. Ó hvað amma var ekki kát með okkur þá!

Ótalmargar aðrar minningar standa upp úr þegar ég hugsa til þín. Nefna má alla bíltúrana okkar um Vatnsnesið og ferðalagið í kringum Ísland. Alla göngutúrana um túnin og fjöllin í sveitinni í þögninni, með mig skoppandi í kringum þig. Þá má ekki gleyma öllum sögustundunum, því þér fannst nú gaman að tala um gömlu tímana við mig. Sérstaklega síðustu mánuði þegar við eyddum löngum stundum á sjúkrastofnunum saman. Þú varst ávallt svo sterkur maður og tókst veikindum þínum með æðruleysi og ró. Það var enginn þér líkur elsku afi minn, ég mun ávallt muna eftir þér og sakna þín á hverjum degi. Þar til við hittumst á ný; hvíl í friði.

Nú kveður þú með trega í hjarta,

elsku afi við þig nú syrgjum.

Farðu yfir í sumarlandið bjarta,

okkar söknuð við inni byrgjum.

(Hrafnhildur Hauksdóttir)

Þín

Hrafnhildur (Krunka).

Oft heyrir maður fólki lýst þar sem vísað er í málma til að leggja áherslu á eðlisþætti þess: járnkanslari, járnfrú og silfurrefur, en þegar rætt er um Jón Sigurðsson kemur dýrari málmur til sögunnar því hann var gull af manni, heilsteyptur persónuleiki og drengskap hans viðbrugðið. Hann var tilbúinn að snúast fyrir aðra, fara langar leiðir og eyða í þær tíma, búa í haginn og hlúa að þeim sem áttu ekki tök á því að sinna erindum sínum. Hann tók áföllum af æðruleysi og gerði lítið úr óþægindum sínum við aðra eins og sönnu karlmenni sæmdi. Hann hafði notalega návist og ekki nauðsyn á að fitja sífellt upp á nýju umræðuefni í samtölum við hann því þögnin sagði oft meira en orðin. Það eru forréttindi að þekkja slíkan mann og njóta samvista við hann.

Þegar Jón reisti fjárhúsin vestan hlöðunnar í Sæbóli gekk ég eitt sinn til hans og bauð fram aðstoð ef hann vildi. Svarið var á þá leið að honum þætti best að vera einn að störfum og hafa útmældan hraða á verkinu, hugsa og leita lausna ef þörf krefði, hann hefði ýmis úrræði til að létta sér puðið og þyrfti ekki hjálp við smíðarnar. Þá hafði hann reist íbúðarhús fyrir foreldra sína og síðar fyrir sig, konu sína, dætur þeirra tvær og tengdamóður, traustar byggingar sem báru hagleik hans og nostri gott vitni. Þegar þau Laufey fluttu til Akureyrar sló hann strax upp gróðurhúsi í garðinum í þeim hlutföllum sem þóknast auganu best, nálægt gullinsniði sem renisans-menn á Ítalíu notuðu á 16. öld og síðar í fegurstu listaverkum álfunnar. Svo gott smiðsauga hafði hann og tilfinningu fyrir formum og línum að aðdáun vekur hjá þeim sem horfa til þeirra hluta og njóta ósjálfrátt.

Jón var eins og títt er um bændur nákominn hreyfingum náttúrunnar, umbreytingum hennar og tiktúrum, lífi, ræktun, hrörnun og dauða, með ilm af sæ, nýslegnu grasi og töðu og lifði sig inn í þau öfl sem halda utan um landsfólkið eða hrista það til eftir atvikum. Hann fylgdist vel með viðburðum, fann til með mönnum í raunum þeirra en gagnrýndi það sem miður fór og honum þótti ekki sæmandi, ekki síst í stjórnmálum þegar teknar voru vafasamar ákvarðanir sem fóru á svig við velferð þjóðarinnar og velsæmið vék fyrir óheppilegri hegðun.

Fyrir nokkrum árum tók Jón upp á því að setja saman vísur um það sem bar fyrir augu eða hann frétti þann daginn og færði þær í einstakan búning einlægni og barnslegrar tjáningar án þess að skeyta mikið um bragreglur eða slípa þær til og er ekki úr vegi að birta eina hér sem ber með sér innileg skilaboð kærleiks og umhyggju og eru líklega nálægt kjarna tilveru hans, hjarta og hugsunar:

Faðir minn sótti móður mína á næsta bæ:

Viltu koma með sængina þína ef ég þig fæ?

Nú er hann lagður til hinstu hvíldar eftir erfið veikindi og tregt tungu að hræra þegar menn deyja inn í vorið og þíðuna er sólin skín sem skærast á snjóinn og brumið bærir á sér á greinum trjánna, farfuglarnir nálgast landið og sauðburður í nánd með eftirvæntingu og gleði. En minningin lifir í huga þeirra sem syrgja, fjölskyldu, vina og samferðafólks.

Níels Hafstein.