Verðbólga Mælingin í gær var sú síðasta fyrir vaxtaákvörðun.
Verðbólga Mælingin í gær var sú síðasta fyrir vaxtaákvörðun. — Morgunblaðið/Eggert
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl. Við það lækkaði ársverðbólgan úr 6,8% í 6%. Þeir undirliðir sem höfðu hvað mest áhrif á mælinguna voru reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl. Við það lækkaði ársverðbólgan úr 6,8% í 6%. Þeir undirliðir sem höfðu hvað mest áhrif á mælinguna voru reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,7%, sem var meiri hækkun en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 11,3% sem var í takt við væntingar greiningaraðila. Þótt flugfargjöld hafi hækkað milli mánaða er nú 11% ódýrara að fljúga til útlanda en á sama tíma í fyrra.

Í greiningu Landsbankans segir að liðirnir flugfargjöld og reiknuð húsaleiga skýri 95% af hækkun vísitölunnar milli mánaða. Mat bankans er að verðbólgan haldist í kringum 6% næstu þrjá mánuði.

„Við spáum því nú að vísitala neysluverðs hækki um 0,46% í maí, 0,62% í júní og 0,05% í júlí. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 6,1% í maí, 5,9% í júní og 5,9% í júlí,“ segir í greiningunni.

Greining Íslandsbanka telur allgóðar líkur á að verðbólgan haldi áfram að hjaðna út árið þótt sú hjöðnun verði mun hægari en sést hefur undanfarin ár.

„Gæti verðbólgan mælst í kringum 5% undir lok árs og þar með helmingi minni en hún fór hæst fyrir rúmu ári,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Fram kemur í greiningum Íslandsbanka og Landsbanka að helstu óvissuþættir næstu mánuði séu meðal annars áhrif breyttrar aðferðafræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu og verðþróun á íbúðamarkaði. Verðbólgumælingin sem birt var í gær var síðasta mæling fyrir næstu vaxtaákvörðun en hún verður birt þann 8. maí næstkomandi.