Ný tónlist Þorkell Harðarson og Pétur Ben sem hefur samið tónlist við þöglu myndina Höddu Pöddu.
Ný tónlist Þorkell Harðarson og Pétur Ben sem hefur samið tónlist við þöglu myndina Höddu Pöddu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hundrað ár eru síðan dansk-íslenska kvikmyndin Hadda Padda, í leikstjórn Guðmundar Kamban, var frumsýnd í Nýja bíói. Í tilefni þess verður blásið til kvikmyndatónleika í Laugarásbíói laugardaginn 27

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Hundrað ár eru síðan dansk-íslenska kvikmyndin Hadda Padda, í leikstjórn Guðmundar Kamban, var frumsýnd í Nýja bíói. Í tilefni þess verður blásið til kvikmyndatónleika í Laugarásbíói laugardaginn 27. apríl kl. 17. Þar verður myndin sýnd og undir hljómar ný tónlist tónskáldsins Péturs Ben, sem Lúðrasveitin Svanur flytur. Stjórnandi er Tryggvi M. Baldvinsson. Þetta er ekki fyrsta verkefni lúðrasveitarinnar af þessu tagi en árið 2018 samdi Davíð Þór Jónsson tónskáld nýja tónlist við meistaraverk Buster Keatons, Hershöfðingjann, sem frumflutt var í Hörpu við afar góðar viðtökur.

Þorkell Harðarson, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri, er varaformaður Lúðrasveitarinnar Svans og spilar á klarínett í sveitinni. „Öðru hverju treð ég sem varaformaður í gegn stærri verkefnum eins og gerðist varðandi Hershöfðingjann.

Hadda Padda er hundrað ára á þessu ári. Þetta er fyrsta myndin sem er leikstýrt af Íslendingi, Guðmundi Kamban. Hann á sér merkilega sögu og gerð myndarinnar telst söguleg, þannig að þetta er nokkuð sem ástæða er til að minnast. Mér sýndist enginn ætla að gera neitt vegna afmælisins og tók því málin í eigin hendur. Það tókst að fjármagna verkefnið með styrkjum og við réðum Pétur Ben til að semja tónlist við myndina. Myndin er 85 mínútur. Það er ekkert hlé, bara spilað allan tímann og við spilum svo í smástund eftir að myndinni lýkur.“

Hadda Padda er gerð eftir leikriti Guðmundar Kambans og þar er fjallað um ástarþríhyrning með tilheyrandi dramatískum atburðum. Í myndinni leikur danska leikkonan Clara Pontoppidan Höddu Pöddu.

Hadda Padda er afskaplega mikið barn síns tíma. Hún er mjög hæg. Það er mikið verið að drekka te í myndinni. Ef myndin yrði gerði í nútímanum, eins og hún var gerð þá, þá væri hún tímaskekkja. Uppgjörið í myndinni er eftirminnilegt en þar reynir Hadda Padda að hefna sín á unnustanum sem tekur saman við systur hennar. Þarna er löng sena þar sem hún er að spranga. Ég hef alltaf haldið því fram að ef þessi mynd hefði ekki verið gerð þá hefði Cliffhanger með Sylvester Stallone ekki orðið til.“

Um tónlist Péturs Ben segir Þorkell: „Tónlistin hljómar á köflum eins og tónlist send af himnum. Svo hljómar hún stundum eins og tónlist send frá neðra.“

Spurður hvort myndin hafi kallað á sérstaka tónlist segir Pétur Ben: „Ég er gítarleikari og spila á alls konar rafhljóðfæri en mér fannst ekkert þeirra passa þarna. Ég er með heila lúðrasveit sem er eins og litabox og ég nýti alla hljómsveitina. Ég reyndi að skapa tónlist sem væri gaman fyrir hljómsveitina að spila. Tónmálið flakkar frá því að vera rómantísk síðklassík til tónlistar sem hljómaði í byrjun tuttugustu aldar, á þeim tíma sem myndin gerist. Þessi tónlist hefði ekki getað verið skrifuð fyrir hundrað árum en hún kallast samt á við annan tíma.

Það er allt öðruvísi upplifun að sjá þessa bíómynd en bíómyndir nútímans. Fyrst fannst mér myndin þung og erfið. Þarna er senum gefinn tími, stundum kannski of mikill tími, en myndin er vel leikin og margt í henni er fallegt. Strax í byrjun er dramatík gefin í skyn. Systurnar eru að kasta á milli sín eggi, fjöreggi, og það er eins og leikur við dauðann. Ég reyni að dýpka persónurnar með músík og myndin verður betri með tónlist, maður sér hana öðruvísi.“

Pétur hefur áður samið kvikmyndatónlist en þetta er í fyrsta sinn sem hann semur tónlist fyrir hefðbundna lúðrasveit. „Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og einstaklega gaman að vinna með sveitinni.“ Þess má að lokum geta að miðar fást á tix.is.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir