Orkumál Kristrún Frostadóttir á fundinum í Árnesi í gær.
Orkumál Kristrún Frostadóttir á fundinum í Árnesi í gær.
Samfylkingin boðar breyttar áherslur í orkumálum og kynnti Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, þær á fréttamannafundi í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gær. Þar kom fram að þær væru afrakstur málefnastarfs flokksins síðasta hálfa árið,…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Samfylkingin boðar breyttar áherslur í orkumálum og kynnti Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, þær á fréttamannafundi í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í gær. Þar kom fram að þær væru afrakstur málefnastarfs flokksins síðasta hálfa árið, þar sem flokksforystan hélt opna fundi og heimsótti fyrirtæki víða um land.

Í stefnuskjali um málaflokkinn segir m.a. að grundvallarkrafan sé framfarir í orkumálum og 10 ára markmið flokksins sé að auka ársframleiðslu raforku um 5 teravattstundir. Á sama tíma megi ná fimmtungi þeirrar orku með bættri nýtingu. Bent er á að bæði í orkuspá Landsnets og grunnspá Orkustofnunar sé gert ráð fyrir 2,5 teravattstunda aukningu á sama tímabili.

Samfylkingin leggur áherslu á að jafnvægis verði gætt á milli orkunýtingar og náttúruverndar í rammaáætlun og að tryggt verði að virkjunarkostir í nýtingarflokki geti staðið undir markmiðum í orkuöflun. Til þess þurfi að afgreiða rammaáætlun oftar á Alþingi og fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar áætlunarinnar. Einnig verði þeim orkuframkvæmdum flýtt sem þegar hafa verið samþykktar í nýtingarflokk rammaáætlunar og orkufyrirtæki greiði auðlindagjald og hluti þess renni til nærsamfélags vegna staðbundinna áhrifa af virkjunum.

Þá vill flokkurinn að tímafrestir í ferli umhverfismats virkjunarkosta í nýtingarflokki verði einfaldaðir, enda þegar fengið meiri umfjöllun en aðrar framkvæmdir áður en til umhverfismats kemur.

Þá verði tímafrestir við veitingu leyfa lögbundnir og stjórnsýsla umhverfis- og orkumála styrkt, m.a. með því að innheimta þjónustugjöld af framkvæmdaaðilum. Þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir eigi að njóta forgangs og stofnanir skyldaðar til að setja í forgang umsóknir vegna kosta í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Þá verði eitt leyfisveitingaferli í stafrænni gagnagátt hjá nýrri Umhverfis- og orkustofnun. Einnig vill flokkurinn taka nýja byggðalínu í gagnið fyrir árið 2035 og einfaldar tengingar við þéttbýlisstaði heyri sögunni til.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson