Strætisvagnastöð Íbúðareigendur við Klapparstíg og Skúlagötu eru ósáttir.
Strætisvagnastöð Íbúðareigendur við Klapparstíg og Skúlagötu eru ósáttir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Húsfélagið Völundur sem er félag íbúðareigenda í sex húsum við Klapparstíg og einu við Skúlagötu hefur kært breytingu Reykjavíkurborgar á deiliskipulagi svæðis við Skúlagötu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en framkvæmdir við endastöð Strætó standa þar yfir. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdaleyfi verði úr gildi fellt og allar framkvæmdir verði stöðvaðar tafarlaust á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.

Breyting var gerð á deiliskipulagi svæðisins með samþykkt í borgarráði Reykjavíkur í janúar sl. Í kærunni er fullyrt að deiliskipulagstillagan sem samþykkt var sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og því óheimil. Þá eru í kærunni reifuð mörg önnur sjónarmið þar sem lögmæti breytingar á deiluskipulagi er dregið í efa.

Róttæk og alvarleg breyting

Þannig er bent á í greinargerð lögmanns Völundar að hin meinta ólögmæta breyting á deiliskipulagi svæðisins feli í sér róttæka og alvarlega breytingu á landnotkun sem feli í sér að í stað þess að vera takmörkuð, verði á reitnum umfangsmikil atvinnustarfsemi sem hafi mikil áhrif á aðliggjandi fasteignir. Reiturinn sé skv. aðalskipulagi skilgreindur fyrir skrifstofur og þjónustu í blandaðri miðborgarbyggð og að starfsemin falli að íbúðarsvæðunum. Sú starfsemi Strætós sem koma eigi fyrir á reitnum, þ.e. skipti- og endastöð strætisvagna, sé aftur á móti mjög mengandi og falli ekki að íbúabyggðinni.

Vakin er athygli á því að með breytingu á deiliskipulaginu sé gróflega brotið á eignarrétti íbúa í nærliggjandi húsum og hagsmunum þeirra raskað. Eignarrétturinn sé friðhelgur skv. stjórnarskrá og hann megi ekki skerða bótalaust. Hagsmunir íbúðareigenda séu skertir verulega sem sé andstætt meginreglum skipulagslaga. Yfirlýst markmið aðalskipulags Reykjavíkur sé að vernda og styrkja íbúabyggð og hverfisanda á svæðum sem skipulagið tekur til og um leið að efla atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúabyggð. Því sé ekki til að dreifa í þessu tilviki, heldur þvert á móti, enda ljóst að starfsemi Strætós falli ekki að íbúabyggðinni.

Eðlilegra sé að flytja umrædda starfsemi Strætós á svæði þar sem slík starfsemi sé leyfð, enda sérhæfð starfsemi. Að öðrum kosti væri eðlilegt að finna starfseminni stað sem leyfi slíka starfsemi og uppfylli það skilyrði að hún valdi ekki nágrönnum og eignum þeirra tjóni, beinu og óbeinu. Spurt er hvort svæðið við BSÍ eða framan við Hörpu væri ekki hentugra í þessu skyni.

Stjórnsýslan hafi brugðist

Axel Hall formaður húsfélagsins Völundar segir að fyrirhuguð starfsemi Strætós framan við íbúðarhúsin við Klapparstíg og Skúlagötu, sé ekki í samræmi við aðalskipulag svæðisins. Stjórnmálavettvangur og stjórnsýsla borgarinnar hafi brugðist íbúum við breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Ábendingum um íþyngingu fyrirhugaðrar starfsemi hafi ítrekað verið komið á framfæri við borgaryfirvöld.

„Það var í engu tekið tillit til sjónarmiða okkar og okkur fannst hvorki meirihlutinn né minnihlutinn í borgarstjórn hafi þjónað okkur sem húsfélagi sem eigendur 120 íbúða eiga aðild að,“ segir Axel í samtali við Morgunblaðið. „Það er verið að setja endastöð Strætós fyrir framan svefnherbergisgluggann hjá þriðjungi íbúa húsanna. Þarna koma fimm strætisvagnar á hverjum klukkutíma frá klukkan sjö á morgnana til hálf tólf á kvöldin með tilkeyrandi hávaða og mengun. Í þokkabót er skiptistöðin innan við hljóðmön við húsin sem á að skýla okkur frá hljóðmengun frá Sæbraut. Þessi starfsemi bætist við stöðugan straum af rútum sem taka við farþegum til og frá Keflavíkurflugvelli í biðskýli við húsið okkar. Við erum búin að senda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, til að reyna að sækja okkur skjól hjá ríkisvaldinu fyrir ofríki sveitarfélagsins sem sýnir íbúunum algert tómlæti,“ segir Axel.

Engin viðbrögð enn frá úrskurðarnefnd

Krafa um stöðvun framkvæmda var send úrskurðarnefndinni í síðustu viku, en engin viðbrögð hafa borist þaðan enn. Skylt sé þó að taka erindið fyrir án tafa, sökum þess að krafist er stöðvunar framkvæmda.

Axel bendir og á að í tengslum við framkvæmdir á reitnum sé búið að breyta götu í íbúahverfi í stofnæð og loka stóru bílastæði sem þjónar veitingahúsum á svæðinu sem og tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu.

„Hér ríkir umsátursástand um bílastæði. Við erum þeirrar skoðunar að þessi ótímasetti flutningur endastöðvar Strætós frá Hlemmi, án fyrirheits um hvenær þessi starfsemi fari, hefði átt að fara á minna íþyngjandi stað,“ segir hann.