Átak Bólusetningarþátttaka þykir ófullnægjandi hér á landi.
Átak Bólusetningarþátttaka þykir ófullnægjandi hér á landi. — Morgunblaðið/Eggert
Þátttaka barna á Íslandi í almennum bólusetningum dróst saman um allt að 6% á árunum 2018 til 2022. Er m.a. viðvarandi dræm þátttaka fjögurra ára barna í viðhaldsbólusetningu gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Þátttaka barna á Íslandi í almennum bólusetningum dróst saman um allt að 6% á árunum 2018 til 2022. Er m.a. viðvarandi dræm þátttaka fjögurra ára barna í viðhaldsbólusetningu gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa. Þá hefur þátttaka í bólusetningu gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum farið dvínandi.

Er staðan nú orðin þannig að bólusetningarþátttaka er ófullnægjandi til að hindra útbreiðslu meðal barna ef mislingar berast til landsins. „Það hafa um árabil verið ákveðnar áhyggjur af tilteknum bólusetningum. Það er þá sérstaklega kíghóstabólusetningin sem er gerð við fjögurra ára aldur og mislingabólusetningin,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga hjá sóttvarnasviði embættis landlæknis.

Eins og í flestum löndum varð þátttaka í reglubundnum bólusetningum dræmari meðan á heimsfaraldri covid-19 stóð, m.a. sökum þess að heilbrigðisyfirvöld urðu að forgangsraða verkefnum með breyttum hætti. „Við höfum ekki náð að skríða upp úr þeirri gryfju eins hratt og við vonuðumst til,“ segir Kamilla.

Spurð hvort einnig megi rekja þetta bakslag til orðræðu um hugsanlega skaðsemi bólusetninga meðan á heimsfaraldrinum stóð segir Kamilla það mögulegt en ekki séu mjög skýr merki um það.

Unicef, Controlant og embætti landlæknis efndu í gær til vitundarvakningar um bólusetningar barna á Íslandi og hvöttu til átaks til að fyrirbyggja lífshættulega sjúkdóma og stuðla að heilbrigðri æsku.