París Ólympíuleikarnir 2024 fara fram í París en ólympíueldurinn var tendraður í Frakklandi á dögunum.
París Ólympíuleikarnir 2024 fara fram í París en ólympíueldurinn var tendraður í Frakklandi á dögunum. — AFP/Ludovic Marin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðeins einn Íslendingur hefur náð lágmarki í sinni íþróttagrein fyrir Ólympíuleikana 2024 sem fram fara í París í sumar. Leikarnir hefjast 26. júlí og þeim lýkur hinn 11. ágúst en í janúar síðastliðnum tilkynnti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hverjir væru í ólympíuhóp ÍSÍ

París 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Aðeins einn Íslendingur hefur náð lágmarki í sinni íþróttagrein fyrir Ólympíuleikana 2024 sem fram fara í París í sumar.

Leikarnir hefjast 26. júlí og þeim lýkur hinn 11. ágúst en í janúar síðastliðnum tilkynnti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hverjir væru í ólympíuhóp ÍSÍ.

Ólympíuhópurinn er skipaður afreksíþróttafólki sem hefur nú þegar tryggt sér þátttökurétt eða er líklegt til þess að tryggja sér þátttökurétt á þeim, að því er fram kemur á heimasíðu ÍSÍ.

Upphaflega voru níu íþróttamenn í hópnum, sem og íslenska karlalandsliðið í handknattleik, en landsliðið missti naumlega af sæti í undankeppni Ólympíuleikanna á Evrópumótinu 2024 í Þýskalandi. Í apríl var þeim svo fjölgað úr níu í 13 þegar fjórir íþróttamenn bættust við hópinn.

Anton Sveinn McKee

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee, 30 ára, syndir fyrir Sundfélag Hafnarfjarðar. Hann er sá eini sem hefur náð lágmarki fyrir Ólympíuleikana, í 200 metra bringusundi, en það gerði hann í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Furoka í Japan í júlí í fyrra. Anton synti þá á tímanum 2:09,19 mínútum en sundmaðurinn, sem hefur verið fremsti sundmaður landsins síðastliðinn áratug, er á leið á sínu fjórðu Ólympíuleika.

Það er nóg fram undan hjá Antoni Sveini en hann verður á meðal keppenda á AP-mótinu í Lundúnum dagana 25.-28. maí og þá keppir hann einnig á Evrópumótinu í 50 metra laug sem fram fer í Belgrad í Serbíu dagana 17.-23. júní, en það verður síðasta mót hans fyrir leikana í París.

Baldvin Þór Magnússon

Langhlauparinn Baldvin Þór Magnússon, 25 ára, keppir fyrir Ungmennafélag Akureyrar. Eins og sakir standa er Baldvin í 56. sæti á heimslistanum í 5.000 metra hlaupi fyrir París en 42 efstu keppendurnir á listanum komast á Ólympíuleikana. Lágmarkið fyrir leikana í 5.000 metra hlaupi er 13:05,00 mínútur en besti tími Baldvins í greininni er 13:32,47 mínútur.

Baldvin Þór keppir á Iberomericano á Spáni hinn 30. apríl, Lang Laufnacht í Þýskalandi hinn 11. maí, Trond Mohn-leikunum í Noregi hinn 22. maí og loks á Meistaramóti Íslands hinn 27. júní þar sem hann freistar þess að hækka sig á listanum og ná lágmarki fyrir París. Takist Baldvini ekki að ná lágmarki fyrir leikana kemur það í ljós hinn 2. júlí hvort hann verður með í París.

Eygló Fanndal Sturludóttir

Lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir, 22 ára, keppir fyrir Lyftingafélag Reykjavíkur. Eygló er sem stendur í 14. sæti á heimslistanum og hefur hækkað sig mikið á listanum undanfarna mánuði. Hún keppir í -71 kílógramms flokki og hafnaði í 11. sæti á heimsbikarmóti í Taílandi á dögunum þar sem hún bætti meðal annars eigið Norðurlanda- og Íslandsmet í samanlögðum árangri. ÍSÍ sótti um boðssæti fyrir hana á leikunum í ár.

Það eru engin mót fram undan hjá Eygló og hún þarf því að bíða og sjá hvort árangurinn í Taílandi dugi til þess að komast til Parísar. Tíu efstu á heimslistanum í -71 kílógramms flokknum komast á leikana en keppendur í þyngdarflokknum verða alls 12 og því ekki útilokað að Eygló fari til Parísar, þótt það gæti reynst erfitt. 14. júní kemur í ljós hvort Eygló fer til Parísar.

Erna Sóley Gunnarsdóttir

Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, 24 ára, keppir fyrir ÍR. Erna Sóley er sem stendur í 30. sæti á heimslistanum en lágmarkið í greininni fyrir leikana í París er 18,80 metrar. Besti árangur Ernu, utanhúss, er 17,39 metrar og 17,92 metrar innanhúss. Keppendur í kúluvarpi á Ólympíuleikunum í París verða alls 32.

Erna keppir næst á Norðurlandamótinu dagana 18.-19. maí, Evrópumeistaramótinu dagana 7.-12. júní, Smáþjóðameistaramótinu hinn 22. júní og loks Meistaramóti Íslands dagana 28.-30. júní og fær þar tækifæri til þess að hækka sig ennþá frekar á heimslistanum og tryggja sér keppnisrétt á leikunum. Ef Ernu Sóleyju tekst ekki að ná lágmarki fyrir leikana skýrist það hinn 2. júlí hvort hún kemst inn í gegnum stöðu á heimslistanum.

Guðlaug Edda Hannesdóttir

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir, 30 ára, keppir fyrir Breiðablik. Guðlaug Edda er sem stendur í 225. sæti á heimslistanum í greininni en hún þarf að vera á meðal 180 efstu á listanum til þess að eiga möguleika á boðssæti á leikana. ÍSÍ hefur sótt um boðssæti fyrir hana á leikunum.

Guðlaug Edda er á leið á þrjú þríþrautarmót á næstu vikum þar sem hún freistar þess að hækka sig um nokkur sæti á heimslistanum. Mótin þrjú fara fram í Nepal, á Filippseyjum og loks í Kína. Hún hefur verið að glíma við erfið meiðsli undanfarin ár en áður en hún meiddist var hún í það góðri stöðu á heimslistanum að hún hefði ekki þurft að treysta á boðssæti til þess að komast á leikana. Það skýrist í júní hvort Guðlaug Edda verður með í París.

Guðni Valur Guðnason

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason, 28 ára, keppir fyrir ÍR. Hann er í dag í 25. sæti ólympíulistans en lágmarkið í kringlukasti fyrir leikana í ár er 67,20 metrar. Besti árangur Guðna Vals í greininni er 69,35 metrar frá því í september árið 2020. Alls verða keppendurnir 32 talsins í kringlukasti á leikunum í París.

Guðni keppir næst á Norðurlandamótinu dagana 18.-19. maí, Evrópumótinu dagana 7.-12. júní og Meistaramóti Íslands dagana 28.-30. júní. Hann á því góða möguleika á því að hækka sig ennþá frekar á heimslistanum og tryggja sér sæti á sínum öðrum Ólympíuleikum í röð. Ef Guðna Val tekst ekki að ná lágmarki fyrir leikana skýrist það hinn 2. júlí hvort hann kemst inn í gegnum stöðu á heimslistanum.

Hákon Þór Svavarsson

Skotmaðurinn Hákon Þór Svavarsson, 45 ára, keppir fyrir Skotíþróttafélag Suðurlands. Hákon er sem stendur í 102. sæti á heimslistanum í haglabyssuskotfimi. ÍSÍ hefur sótt um boðssæti fyrir Hákon Þór á leikunum.

Hákon keppir á heimsbikarmóti í Katar 22.-30. apríl, Evrópumótinu á Ítalíu 15.-17. maí og loks öðru heimsbikarmóti dagana 10.-19. júní þar sem hann fær tækifæri til þess að hækka sig á heimslistanum. Það skýrist því seinnipartinn í júní hvort Hákon Þór verður á meðal þátttakenda í París.

Hilmar Örn Jónsson

Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson, 28 ára, keppir fyrir FH. Hann er sem stendur í 35. sæti á heimslistanum í sleggjukasti en alls verða keppendurnir 32 í greininni á Ólympíuleikunum í París. Lágmarkið í greininni fyrir leikana er 78,20 metrar en besti árangur Hilmars í greininni er 77,10 metrar frá því í ágúst árið 2020.

Hilmar er á leið á Norðurlandamótið í Malmö dagana 18.-19. maí og þá verður hann á meðal keppenda á Meistaramóti Íslands 28.-30. júní þar sem hann fær tækifæri til þess að hækka sig ennþá frekar á heimslistanum. Ef Hilmar nær ekki lágmarki fyrir leikana skýrist það hinn 2. júlí hvort hann kemst til Parísar vegna stöðu sinnar á heimslistanum.

Ingibjörg Edda Grétarsdóttir

Taekwondo-konan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, 29 ára, keppir fyrir Björk. ÍSÍ hefur sótt um boðssæti fyrir hana á leikunum en hún varð meðal annars Norðurlandameistari fyrr í vetur og fagnaði sigri á sterku alþjóðlegu móti í Bretlandi á síðasta ári.

Ingibjörg er stödd í Tallinn í Eistlandi á Evrópumóti minni þjóða og þá verður hún einnig á meðal keppenda í Forsetabikarnum 26.-28. apríl, Evrópumótinu 9.-12. maí og Lux-mótinu 8.-9. maí. Það ætti að skýrast strax í næsta mánuði hvort Ingibjörg Edda fær boðssæti á leikunum í París.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir, 23 ára, keppir fyrir Aalborg-sundklúbbinn. Snæfríður freistar þess að ná lágmarkinu í 200 metra skriðsundi sem er 1:57,26 mínútur. Besti árangur hennar í greininni er 1:57,98 mínútur.

Það eru allar líkur á því að Snæfríður Sól komist inn á undanþágukvóta, sem er einn karl og ein kona, þar sem sundmaðurinn Anton Sveinn McKee hefur nú þegar náð lágmarki. Snæfríður Sól fær þó tækifæri til þess að ná lágmarkinu í AP-mótinu í Lundúnum dagana 25.-28. maí og á Evrópumótinu í 50 metra laug sem fram fer í Belgrad í Serbíu dagana 17.-23. júní. 3. júlí kemur í ljós hvort Snæfríður fær sæti á leikunum í gegnum undanþágukvóta.

Svana Bjarnason

Klifurkonan Svana Bjarnason, 32 ára, keppir fyrir franska liðið Blackout. ÍSÍ sótti um boðssæti fyrir hana á leikunum.

Það er nóg fram undan hjá Svönu þar sem hún freistar þess að tryggja sér sæti á leikunum en hún keppir í Kína 16.-17. júní, í Ungverjalandi 20.-21. júní, Þýskalandi 26.-30. júní og loks á tveimur mótum í Frakklandi, 13.-14. júní og 17.-18. júní. Það ætti að skýrast seinnipartinn í júní hvort Svana verður með á leikunum í París.

Thelma Aðalsteinsdóttir

Fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir, 23 ára, keppir fyrir Gerplu. Thelma er á leið á Evrópumeistaramótið á Ítalíu, sem fram fer dagana 2.-5. maí, þar sem hún freistar þess að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana og því er allt undir hjá fimleikakonunni í byrjun næsta mánaðar.

Hún gæti þó fengið sæti á leikunum í gegnum stöðu á heimslista, sem er mjög breytilegur, en það ætti að skýrast seinnipartinn í júní hvort hún verður á meðal keppenda á leikunum í ár.

Valgarð Reinhardsson

Fimleikamaðurinn Valgarð Reinhardsson, 27 ára, keppir fyrir Gerplu. ÍSÍ sótti um boðssæti fyrir hann á leikunum í ár en hann er á leið á Evrópumeistaramótið á Ítalíu dagana 2.-5. maí, þar sem hann freistar þess að ná lágmarki fyrir leikana í París.

Líkt og hjá Thelmu skýrist það hjá fimleikafólkinu seinnipartinn í júní hvort þau fá sæti á leikunum í París í gegnum boðssæti.

Sóttu um sex boðssæti

Íslandi stóð til boða að sækja um svokölluð boðssæti á leikunum í ár. Ísland hefur ekki átt fleiri en átta keppendur að meðaltali á síðustu tvennum Ólympíuleikum, 2021 í Tókýó og 2016 í Ríó, en alls eru 104 boðssæti í boði á leikunum í ár, í 21 íþróttagrein.

Hver þjóð, sem átti kost á því að sækja um boðssæti, gat sótt um fyrir sex íþróttamenn og sótti Ísland um boðssæti fyrir Eygló Fanndal, Guðlaugu Eddu, Hákon Þór, Ingibjörgu Eddu, Svönu og Valgarð eins og áður hefur komið fram.

Hugmyndin á bak við boðssætin á Ólympíuleikunum er fyrst og fremst að auka fjölbreytni á leikunum og gefa smærri þjóðum tækifæri til þess að fjölga keppnisfólki sínu.