Sjö ára stelpan mín byrjaði að æfa handbolta með KR/Gróttu fyrir tveimur mánuðum. Aðdragandinn að því var nokkuð óvenjulegur. Er við vorum í fríi í Marokkó um jólin hitti hún fyrir íslenska jafnaldra sína, tvíburastráka sem eru svipað fjörugir

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Sjö ára stelpan mín byrjaði að æfa handbolta með KR/Gróttu fyrir tveimur mánuðum. Aðdragandinn að því var nokkuð óvenjulegur.

Er við vorum í fríi í Marokkó um jólin hitti hún fyrir íslenska jafnaldra sína, tvíburastráka sem eru svipað fjörugir. Þeir voru oft að grínast í stelpunum mínum tveimur og þegar svo bar við að þeir voru að ærslast í þeirri yngri hélt sú eldri þeim báðum í skefjum.

Hún er nefnilega nautsterk og þegar ég sá þessa tilburði kom mér til hugar að þarna væri kannski fyrirtaksefni í varnarmann í handbolta.

Stúlkunni leist vel á þessa hugmynd og byrjaði að æfa. Á þeim æfingum sem ég hef séð nýtur hún sín vel en virðist sannarlega vera meira fyrir að verjast; ég hef vart séð dömuna skjóta að marki.

Svo kastar hún með vinstri hendi þrátt fyrir að vera rétthent. Segir að sér þyki það þægilegra.

Ekki ætla ég að látast skilja hvernig það virkar en þjálfari hennar hefur vinsamlega beint því til okkar foreldranna að vera ekki að biðja hana um að láta af því að kasta með vinstri. Það sé svo sjaldgæft.

Á morgun fer hún á sitt fyrsta gistimót á Selfossi og er búin að tala um hversu spennt hún sé fyrir mótinu í að nálgast þrjár vikur. Stelpan var búin að pakka öllu í Mínu mús-ferðatöskuna sína um síðustu helgi.

Ekki er laust við spenning hjá föðurnum sömuleiðis, sem vonast til þess að sjá nokkrar löglegar stöðvanir. Jafnvel eins og eitt skot að marki.

Fylkismaðurinn ég mun þá reyna að komast yfir það að dóttirin sé að fara að keppa í KR-treyju. 2000 og 2002 svíða enn.