Hjörtný Jóna Sigríður Árnadóttir fæddist 23. júlí 1923 í Flatey á Breiðafirði. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 14. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Árni Jónsson trésmiður, f. 4. júlí 1891 í Sauðeyjum, Vestur-Barðastrandarsýslu, d. 3. júní 1985, og Jónína Sigríður Jónsdóttir húsfreyja, f. 12. desember 1882 á Ytri-Fagradal á Skarðströnd, d. 24. janúar 1972. Systkini Hjörtnýjar voru: Hjörtný Jónína Sigríður, f. 17.9. 1917, d. 21.5. 1923, og Jón Sigurður, f. 4.6. 1919, d. 4.6. 1978.

Árið 1954 giftist Hjörtný Steingrími Einari Arasyni bókbindara, f. 28. mars 1925 á Vatneyri við Patreksfjörð, d. 13. mars 2012. Foreldrar hans voru Ari Jónsson, skósmiður og kaupmaður á Patreksfirði, f. 9.11. 1883, á Vattarnesi við Vattarfjörð í Austur-Barðastrandarsýslu, d. 24.8. 1964, og Helga Jónsdóttir, f. 10.3. 1893, í Djúpadal, Austur-Barðastrandarsýslu, d. 9.5. 1962. Börn Hjörtnýjar og Steingríms eru: 1) Jónína Árndís hjúkrunarfræðingur, f. 12.8. 1954, gift Þorsteini Helgasyni, arkitekt og myndlistarmanni, f. 15.8. 1958. Börn þeirra eru: Bryndís, f. 29.8. 1985, Unnur Arna, f. 25.1. 1989, og Steinunn Helga, f. 24.5. 1996. 2) Sigmar Arnar sjávarlíffræðingur, f. 6.4. 1957, kvæntur Ástu Benediktsdóttur grunnskólakennara, f. 4.5. 1960. Börn þeirra eru: Arndís Auður, f. 25.3. 1982, Gunnbjört Þóra, f. 23.9. 1987, og Hjörtur Steinn, f. 4.4. 1993. Afkomendur Hjörtnýjar og Steingríms eru nú 16 talsins.

Hjörtný ólst upp í Flatey á Breiðafirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur árið 1941. Hún lauk námi í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, sem þá var nýlega stofnaður, og vann við ýmis verslunarstörf áður en hún giftist og hóf búskap. Síðar, þegar barnauppeldi lauk, vann hún lengi hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.

Útför Hjörtnýjar fór fram í kyrrþey þann 4. apríl 2024.

Ég hitti Hjörtnýju tengdamóður mína fyrst í Kaupmannahöfn fyrir liðlega 40 árum, þá nýbúinn að kynnast Jónínu dóttur hennar. Hjörtný og Steini voru komin til borgarinnar í árlegt sumarfrí og var verið að grilla í sumarblíðunni. Eins og við var að búast var ég nokkuð stressaður en ég skynjaði strax velvild í minn garð og ánægju með að dóttirin hefði kynnst Íslendingi sem að auki var ættaður að vestan. Ekki varð hrifningin minni þegar pilturinn tók lagið á „klavieret“ seinna um kvöldið á Íslendingakránni Skindbuksen í Kaupmannahöfn.

Hjörtný var skapgóð, hógvær og hlý en gat verið ákveðin ef henni líkaði ekki eitthvað. Hún var listræn og ung lærði hún á gítar og sótti námskeið í málaralist og prýddu olíumyndir hennar heimili þeirra hjóna. Hún var hlustandi númer eitt þegar ég spilaði á flygilinn, innlifunin var mikil og hún naut þess að hlusta.

Kaffi- og matarboð voru tíð á Framnesveginum í litlu notalegu íbúðinni þeirra Hjörtnýjar og Steina. Þau vildu hvergi annars staðar vera en í Vesturbænum og þar fannst þeim allt best. Í byrjun aðventu var hefð fyrir því að rölta niður í miðbæ til að fylgjast með þegar kveikt var á norska jólatrénu á Austurvelli. Þá var notalegt að koma heim þar sem Hjörtný beið með heitt kakó og heimabakaðar smákökur. Þarna voru líka fyrstu kynni mín af vestfirsku skötunni sem ég var lítt hrifinn af í fyrstu en hún bragðaðist betur og betur með hverju árinu sem leið og er nú orðin ómissandi hefð í aðdraganda jólanna.

Á sumrin ferðuðumst við mikið saman og fastur liður var ferð í prentarabústaðinn í Miðdal við Laugarvatn. Þar var oft þröng á þingi en samveran var góð og í huga barnanna var þetta ævintýralandið.

Hjörtný bjó síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Grund þar sem hún naut sín vel og laðaði að sér fólk. Ég kveð tengdamóður með söknuði og þakka henni kærlega fyrir samfylgdina í gegnum árin.

Þorsteinn Helgason.

Á dögunum kvöddum við ömmu Hjörtu í hinsta sinn. Það er skrítin tilfinning að kveðja einstakling sem hefur alltaf verið til staðar, verið okkar helsti stuðningsmaður og aðdáandi. Að koma til ömmu var alltaf notalegt og eftirsóknarvert, hvort sem það var á Framnesveginum eða á seinni árum á Grund. Hún hafði einstaka nærveru. Við hana gat maður spjallað um daginn og veginn, erfiðleika og sigra í lífinu sem og hlustað á sögur frá því í gamla daga, hvernig lífið var á Íslandi á stríðsárunum og í hversdeginum. Með henni var líka bara hægt að sitja í þögninni, halda í hlýja hönd hennar og njóta stundarinnar. Allar stundir með ömmu voru einstakar. Langömmubörnin hafa sömu sögu að segja. Þegar þau eru spurð hvað það var sem var svo gott og gaman við að vera með ömmu eiga þau erfitt með að setja fingur á það, „það var bara svo gott að vera hjá langömmu“ segja þau. Margra stunda minnast þau og við systkinin með ömmu. Gistipartíin góðu á Framnesveginum hjá ömmu og afa voru alltaf skemmtileg og þar fékk maður að gera það sem maður vildi, eða svo var upplifunin allavega. Hvort sem það var að drekka safa úr desílítramáli með matnum, borða súpuna með plastsprautu eða baka eftir okkar eigin uppskrift, hugmyndirnar urðu að veruleika. Amma hafði þrotlausa þolinmæði fyrir vitleysunni og hafði sjálf alltaf gaman af. Göngutúrar og strætóferðir um Reykjavík þar sem hún hafði sögur að segja um hvert hús eða sund, hvernig hlutirnir voru áður og höfðu breyst í tímans rás á hennar löngu ævi. Göngutúrarnir urðu seinna meir að bíltúrum sem oftar en ekki enduðu með stoppi í ísbúð eða kaffihúsi til að fá sér eitthvað gott og alltaf átti hún súkkulaðimola handa langömmubörnunum þegar þau komu í heimsókn. Amma var ákaflega listræn og músíkölsk og þótti fátt skemmtilegra en að hlusta á góða harmónikkutónlist og dilla sér við en hún gat líka fundið fegurð og rytma í jafnvel þungarokki, Miðgarðsormurinn með Skálmöld þótti henni ekki svo galið lag. Já amma var einstök. Svo hjartahlý og einlæg. Yfirvegun, þakklæti, jákvæðni og hennar einstaki eiginleiki að alltaf finna fegurð og góðsemi í öllum og öllu sem á vegi hennar varð. Það eru einmitt þeir eiginleikar sem við systkinin tökum okkur til fyrirmyndar og munum bera áfram til barna okkar.

Lítill fugl á laufgum teigi,

losar blund á mosasæng,

heilsar glaður heiðum degi,

hristir silfurdögg af væng.

Flýgur upp í himinheiðið,

hefir geislastraum í fang,

siglir morgunsvala leiðið,

sest á háan klettadrang.

(Sigfús Halldórsson)

Arndís Auður, Gunnbjört Þóra og Hjörtur Steinn.

Það sem einkenndi ömmu Hjörtnýju helst var góð nærvera, hún var alltaf til staðar og sýndi okkur einlægan áhuga. Hún kenndi okkur að horfa á jákvæðu hliðarnar og sjá það góða í aðstæðum hverju sinni. Amma var einstaklega hjartahlý og gaf bestu og lengstu knúsin.

Það eru svo ótal margar af okkar bernskuminningum sem við tengjum við ömmu Hjörtnýju og afa Steina á Framnesveginum. Við minnumst sérstaklega skemmtilegu gistipartíanna, þar sem við frændsystkinin fengum að gista saman. Kvöldkaffið var eins mikilvægt og allar aðrar máltíðir dagsins og það var alltaf búið að sjá til þess að við fengjum eitthvað sætt og gott áður en við fórum að sofa. Þessar samverustundir, þar sem við sátum öll í litla eldhúsinu og spjölluðum um það sem á daginn hafði drifið, eru ógleymanlegar.

Amma sá alltaf til þess að eitthvað væri til fyrir alla. Til dæmis á aðventunni, þegar við komum heim frá því að fylgjast með því þegar tendruð voru ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli, þá beið amma með heitt súkkulaði handa öllum. Á Þorláksmessu hittumst við fjölskyldan hjá ömmu og afa í árlegri skötuveislu. Þá var alltaf séð til þess að það væri líka pítsa á boðstólum fyrir okkur krakkana.

Ömmu var annt um fólkið sitt og var mjög stolt af afkomendunum. Veggir og aðrir fletir í notalega rjómagula herberginu hennar voru þaktir myndum af börnum, ömmu- og langömmubörnum. Líkt og lítil altaristafla. Og ekki þótti henni leiðinlegt að sýna myndirnar af öllum stúdentunum sínum sem prýddu gluggakistuna. Stoltið leyndi sér ekki.

Amma lifnaði við þegar hún hitti litlu langömmubörnin sín og hafði yndi af því að spjalla við þau og fá lítil knús frá þeim. Þeim fannst gaman að koma í heimsókn til langömmu Hjörtnýjar og ekki skemmdi fyrir ef þau fengu að drekka kaffi með henni, fá djús úr krananum eða laumast í lítinn súkkulaðimola í ísskápnum. Hlýjan streymdi frá ömmu og við vitum að börnin eiga eftir að sakna langömmu sinnar.

Amma naut þess mikið að hlusta á okkur spila á píanóið eða gítarinn, hún lifði sig inn í tónlistina, lokaði augunum og dillaði sér. Við nutum þess að spila fyrir hana.

Við barnabörnin vorum svo lánsöm að eiga frábæra ömmu og munum við sakna allra ljúfu og skemmtilegu samverustundanna með henni. Takk fyrir allt elsku amma, þú varst stór hluti af okkar lífi og minning þín mun lifa með okkur alla tíð.

Bryndís, Unnur Arna og Steinunn Helga Þorsteinsdætur.