Sett ofan í við þá sem móðguðust þegar Trump viðraði sanngjarna kröfu

Donald Trump skefur ekki utan af því þegar hann svarar spurningum á fjölmennum fundum, og skiptir þá ekki öllu hver umræðuefnin eru. Hann var spurður um viðbrögð sín við því að vestræn Nató-ríki stæðu illa eða ekki við margítrekuð loforð um að verja 2% af þjóðarframleiðslu til varnarviðbúnaðar undir merki Nató. Var fullyrt víða í vestrænum fjölmiðlum að Trump hefði orðið sér til skammar er hann svaraði því til að stæðu Evrópuríkin ekki við sitt, þá myndu Bandaríkin ekki endilega grípa inn í árás Rússa í þágu ríkja sem hefðu margsvikið loforð sín.

Fullyrt var, þegar Trump viðraði sömu sjónarmið í forsetatíð sinni, að Angela Merkel kanslari Þýskalands, sem þá var foringi evrópsku skátanna, hefði sagt á lokuðum fundi að lausnin væri að bíða Trump af sér! Þess vegna voru Evrópuríkin illa stödd til að veita hjálp sem dugði þegar ráðist var inn í Úkraínu.

En nú er tónninn breyttur. Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands sagði á dögunum að Evrópuríkin yrðu að hækka sín framlög upp í það sem lofað hefði verið til að tryggja að Bandaríkin stæðu við sínar skulbindingar.

Scholz kanslari Þýskalands stóð við hlið breska ráðherrans þegar hann sagði að forsetar Bandaríkjanna hefðu ætíð gert sanngjarnar kröfur til bandamanna sinna og bætti við að evrópsk ríki gætu ekki gert kröfur á Bandaríkin vildu þau ekki sjálf standa við sitt.

Sagði Sunak að það væri „þýðingarmikið“ að ríki Evrópu sýndu vilja til að rísa undir loforðum sínum um stærri hlut til að tryggja að Bandaríkin yrðu sátt við að styðja bandalagið.