Sigríður Kristín Andrésdóttir fæddist 5. maí 1939. Hún lést 25. mars 2024. Útför Sigríðar Kristínar fór fram 6. apríl 2024.

Elsku amma, mikið er erfitt að missa þig. Ég er rosalega þakklátur fyrir að hafa fengið að eyða öllum þessum tíma með þér í gegnum tíðina, allt brasið í garðinum og margt fleira. Það eru ekki til orð sem lýsa því hvað þú varst góð við mig og mér þykir alveg óendanlega vænt um þig og okkar tíma sem við áttum saman. Ég sótti í að fá að vera með ykkur afa og alltaf var jafn gott að koma í Sunnuveginn til ykkar. Ég er ánægður með að hafa flutt aftur heim og getað komið til þín á Naust og eytt tíma með þér síðustu árin.

Ég lærði rosalega margt af þér elsku amma sem ég á eftir að búa að alla ævi. Mér finnst gott að þú kynntist Lovísu og var hún mikið í kringum þig seinustu ár. Ég er t.d. ennþá að setja vatnsflöskur með heitu vatni við fæturna á kvöldin þegar okkur er kalt eins og þú kenndir mér. Líka vil ég þakka þér fyrir að bjóða mér á Ástjörn, þar fannst mér gott að vera og fór tvisvar eftir það og svo vann ég þar líka tvö sumur. Núna búum við Lovísa í Sunnuvegi og þykir mér vænt um það, vissulega er garðurinn stór og nóg af blómum og ætla ég að reyna að halda honum vel við.

Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa búið á Þórshöfn á meðan ég var að alast upp og vera í kringum þig. Ég á margar minningar með þér elsku amma, úr ferðalögum með ykkur afa um landið, við fórum í berjamó og svo þvældist ég með ykkur í heimsóknir og ýmislegt brasað. Stundum skildum við afi ekki hörkuna í þér í garðinum en það sýnir hversu mögnuð þú varst. Einu sinni bauð ég ykkur afa í mat þegar ég bjó fyrir sunnan og eldaði svínakjöt. Ég held að það hafi misheppnast alveg svakalega en þið sögðuð að það mætti alveg éta þetta, mér fannst það allavega hálfóætt.

Þú kallaðir mig alltaf nafna og hélst því áfram eftir að afi dó og þykir mér vænt um það.

Elsku amma Sigga, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, mér þykir ofboðslega vænt um þig.

Arnar (nafni) og Lovísa.