Ingibjörg Isaksen
Ingibjörg Isaksen
Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, segist í meginatriðum vera sammála því sem fram kom hjá Friðbirni Sigurðssyni krabbameinslækni hér í blaðinu á föstudaginn varðandi Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK)

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, segist í meginatriðum vera sammála því sem fram kom hjá Friðbirni Sigurðssyni krabbameinslækni hér í blaðinu á föstudaginn varðandi Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK).

Ýmis sérfræðiþjónusta sem áður var hjá SAK er þar ekki lengur í boði. Á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs fóru alla vega 22 þúsund einstaklingar af þjónustusvæði SAK til læknis í Reykjavík.

„Augljóst er að það er mun ódýrara að flytja einn frískan sérfræðilækni norður en tugi sjúklinga og aðstandendur þeirra suður,“ sagði Friðbjörn meðal annars.

Ingibjörg bindur vonir við að tíðinda sé að vænta frá heilbrigðisráðuneytinu. „Ég veit af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði og er ætlað að leggja til leiðir til að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þetta er í vinnslu í ráðuneytinu og vonandi verða tillögurnar kynntar á næstunni. Ég tel að skoða þurfi hvort fjármagnið, sem rennur til Sjúkratrygginga Íslands, sé hægt að nota til að gera sérstaka samninga við sérfræðilækna um að sinna þessari þjónustu,“ segir Ingibjörg en hún hefur á undanförnum árum gert stöðu SAK að umtalsefni á vettvangi stjórnmálanna.

„Rauði þráðurinn í okkar vinnu er hvernig við getum ráðstafað fjármagninu sem best í heilbrigðiskerfinu sem öðru. Í rauninni snýst þetta fyrst og fremst um þjónustu við fólkið okkar. Ég hef sent inn fyrirspurn til heilbrigðisráðuneytisins um fjölda flugferða af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vegna sérfræðiþjónustu. En erfitt er að setja fingurinn nákvæmlega á þetta vegna þess að sumir fara akandi og aðrir dvelja í langan tíma vegna sinna veikinda.

Erfitt er því að fá nákvæma tölu en það hlýtur að vera hagkvæmara að fá sérfræðilækna til að koma á landsbyggðina í einhverja daga eða vikur, og sinna þjónustunni, heldur en að stóri massinn fari suður,“ segir Ingibjörg.