Gjöf Elsa Dóra Grétarsdóttir formaður Vorboðans í Hafnarfirði kom með gjöf.
Gjöf Elsa Dóra Grétarsdóttir formaður Vorboðans í Hafnarfirði kom með gjöf. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum að fagna sjötíu ára afmæli Eddunnar, félags sjálfstæðiskvenna í Kópavogi, núna síðasta vetrardag hérna í Kópavogi og horfum bjartsýn fram á veginn,“ segir Sólveig Pétursdóttir, formaður félagsins og fv

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við erum að fagna sjötíu ára afmæli Eddunnar, félags sjálfstæðiskvenna í Kópavogi, núna síðasta vetrardag hérna í Kópavogi og horfum bjartsýn fram á veginn,“ segir Sólveig Pétursdóttir, formaður félagsins og fv. ráðherra og forseti Alþingis. Opið hús var í Hlíðarsmára 17-19 í gær í tilefni afmælisins og heiðursgestir voru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð utanríkisráðherra og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, en Sólveig setti veisluhöldin í gær og var vel fagnað á þessum merku tímamótum, ræður fluttar og þjóðmál rædd.

Styrkt konur í stjórnmálum

„Fyrsti stjórnarfundur Eddu, félags sjálfstæðiskvenna í Kópavogi, var haldinn 15. mai 1954 og fyrsti formaður var Margrét Guðmundsdóttir. Margar öflugar sjálfstæðiskonur hafa verið formenn í Eddunni. Þeirra starf hefur hvatt konur til þátttöku í stjórnmálum og stuðlað að pólitískri umræðu innan Sjálfstæðisflokksins,“ segir Sólveig og bætir við að félög sjálfstæðiskvenna á landinu öllu hafi unnið ómetanlegt starf í gegnum tíðina.

„Á afmælisárinu erum við í átaki að styrkja Mæðrastyrksnefnd sem hefur unnið mikið þrekvirki hér í Kópavogi og hægt er að styðja söfnunina á vefsvæði nefndarinnar www.maedro.is. Það er mikilvægt að gefa til baka til samfélagsins og ekki síst að styrkja samtök sem hafa staðið sig svona vel að styðja við viðkvæmari hópa samfélagsins.

Þegar ég skoða gamlar fundarbækur félagsins kemur berlega í ljós hvað Eddan hefur verið ötul í góðgerðarmálum, gefið gjafir til sjúklinga, séð um jólatrésskemmtanir fyrir börn og unglinga, verið með fjárframlög til íbúa bæjarins sem eiga um sárt að binda og verið gífurlega öflugar í öllu öldrunarstarfi svo aðeins fátt sé nefnt,“ segir Sólveig.

„Ég er alin upp við kjörorðið „Stétt með stétt“ og vil halda þá hugsjón í heiðri með því að aðstoða samborgara okkar og láta gott af okkur leiða. Þetta viljum við gera í Eddunni og höldum upp á afmælið um leið og við fögnum sumarkomu og nýrri rikisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.“

Enginn kynjakvóti

Sólveig segir að stundum heyrist þær raddir að kvenfélög séu angi af gömlum tíma, en hún segir það ekki vera því það séu svo mörg málefni sem þarf að sinna í grasrótarstarfinu í stjórnmálum.

„Félagslegi þátturinn er svo mikilvægur og tengingin við kjósendur í bæjarfélaginu. Svo má ekki gleyma því að kvenfélög Sjálfstæðisflokksins hafa staðið fyrir ræðunámskeiðum og haldið fundi um ýmis mikilvæg málefni og þau hafa gegnt mikilvægu hlutverki í að breyta viðhorfum til þátttöku kvenna í stjórnmálum. Við erum eini flokkurinn sem hefur ekki verið með kynjakvóta í flokknum, og sjáðu bara allar okkar glæsilegu konur í forystu Sjálfstæðisflokksins í dag. Það má ekki vanmeta mikilvægi góðs tengslanets og að vinna í nánu sambandi við kjósendur í sínu bæjarfélagi.“

Sólveig segir að stjórnmálastarfið sé einstaklega öflugt í Kópavogi undir styrkri stjórn bæjarstjórans Ásdísar Kristjánsdóttur og það sé mikilvægt að halda því þannig. „Við viljum fá enn fleiri konur til að vera með, því ég trúi því að stefna flokksins sé farsælust fyrir land og þjóð.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir