Helga Þórisdóttir
Helga Þórisdóttir
Hvað er það sem skilgreinir okkur sem Íslendinga? Væntanlega sú staðreynd að við erum hópurinn sem býr á þessari eyju, nyrst í Atlantshafi.

Helga Þórisdóttir

Hvað er það sem skilgreinir okkur sem Íslendinga? Væntanlega sú staðreynd að við erum hópurinn sem býr á þessari eyju, nyrst í Atlantshafi. Flest erum við fædd hér en sum hafa komið síðar. Það erum við sem þolum íslenska veðrið, jafnvel slyddu á sumrin, og allt hitt sem veðurguðirnir bjóða okkur upp á.

Fyrst og fremst er það samt tungumálið. Það er íslenskan. Hún er það sem gerir okkur að þjóð meðal þjóða. Og íslenskan er okkar helsta sérkenni. Við höfum varðveitt tungumálið okkar betur en flestir aðrir og þess vegna getum við enn í dag lesið mörg hundruð ára gömul skjöl. Mörg hver eru þau skrifuð á skinn og mörg hver hafa þau varðveitt okkar sögu. Það er þessum heimildum að þakka að við vitum í dag hvernig það var að vera Íslendingur áður fyrr. Hvernig það var að lifa af veturinn þegar veturinn geisaði úti. Það er þessu fólki að þakka að við erum til. Nú er það okkar að passa íslenskuna. Passa að íslensku sérheitin séu notuð. Við skulum ekki falla í þá gryfju að halda að lykillinn að velgengni sé að snara öllu yfir á enskuna.

Verum stolt af því að vera Íslendingar. Verum stolt af því að nota íslenskuna. Hún er það sem greinir okkur frá öðrum – það sem gerir okkur að sterkri þjóð meðal þjóða!

Höfundur er forsetaframbjóðandi og í leyfi sem forstjóri Persónuverndar.

Höf.: Helga Þórisdóttir