Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Er 48% hækkun íbúðaverðs á fjórum árum góð hagstjórn? Skilyrði góðrar hagstjórnar er að greina vel þá efnahagskrafta sem eru að verki í hagkerfinu!

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Er 48% hækkun íbúðaverðs á fjórum árum mælikvarði á góða hagstjórn? Ekki eru allir sammála því, en frumskilyrði árangursríkrar hagstjórnar er að skilja vel þá efnahagskrafta sem eru að verki í hagkerfinu!

Eftirspurnarskellur

Í heimsfaraldrinum varð mikill eftirspurnarskellur sem hafði í för með sér miklar hagstjórnaráskoranir þar sem útflutningstekjur hrundu með tilheyrandi afleiðingum fyrir hagkerfið. Ljóst var að grípa þyrfti til róttækra keynesískra ráðstafana með millifærslum frá hinu opinbera til að halda uppi eftirspurn, atvinnustigi og velferð heimila og fyrirtækja, þ.e.a.s. að draga sem mest úr skaðlegum áhrifum þessa skells. Þá var ljóst að þessi skellur hafði veruleg áhrif á gengi krónunnar sem Seðlabankinn hafði ekkert bolmagn til að verja. Langvarandi veiking krónu hafði um síðir veruleg áhrif á innflutningsverð og þar með verðbólgustigið, auk þess sem framboðsbrestur aðfanga varð á ýmsum mörkuðum vegna faraldursins sem einnig kynti undir verðbólgu. Samhliða þessu var gripið til verulegra almennra vaxtalækkana[i] sem léttu verulega vaxtabyrði hagkerfisins auk þess að ýtti svo um munaði undir eftirspurn á húsnæðismarkaði sem enn jók á verðbólguna í gegnum húsnæðisvísitöluna.

Eftir á að hyggja var margt vel gert í hagstjórn til að draga úr alvarlegum áhrifum þessa eftirspurnarskells og þá sérstaklega hinar keynesísku ráðstafanir. Það sem helst þyrfti að skoða í þessu samhengi er hin ríflega 30% hækkun íbúðaverðs á tveggja ára tímabili heimsfaraldursins, sem hafði veruleg áhrif á verðbólgustigið. Einnig þyrfti að velta upp siðferði eða réttlæti þeirrar hagstjórnarumgjarðar sem sköpuð var. Hefðu peningamálaaðgerðir getað orðið hnitmiðaðri að nýframkvæmdum til að halda uppi atvinnustigi og því minna íþyngjandi fyrir heimilin og fyrirtækin síðar.

Eftirspurnarhnykkur

Eftir heimsfaraldurinn varð mikill eftirspurnarhnykkur í hagkerfinu í kjölfar mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna til landsins. Mikil spenna myndaðist á flestum mörkuðum hagkerfisins vegna þessa og þá sérstaklega á húsnæðismarkaði þar sem erfitt var að mæta húsnæðiseftirspurninni til skemmri tíma. Íbúðaverð hækkaði um rúm 18 prósent á fyrstu tveimur árum eftir faraldurinn og ljóst að þessu ástandi fylgdi mikill verðbólguþrýstingur. Frá hagfræðilegu sjónarhorni er hér um að ræða áhugaverða hagstjórnaráskorun. Átti að grípa til hefðbundinna stjórntækja klassískrar hagfræði og hækka stýrivexti og þar með rýra eftirspurnar- og kaupgetu skuldugra heimila og fyrirtækja[ii] til að draga úr skaðlegum áhrifum þessa eftirspurnarhnykks af völdum erlendra ferðamanna eða átti að beita t.d. hnitmiðaðri skattlagningu á orsökina sem drægi úr hraða þessarar umturnunar á efnahagsumgjörðinni? Hér eru á ferðinni veruleg álitamál því heimilin og fyrirtækin standa eftir með umtalsvert meiri vaxtabyrði auk mun hærra verðlags vegna verðbólguáhrifa þessa eftirspurnarhnykks. Einnig er spurning hvort vaxtahækkanir (að mestu á lánastokk, ekki lánaflæði) í litlu samkeppnisumhverfi fóðri ekki verðbólguna líkt og launahækkanir. Þá er ósvarað þeim siðferðis- og réttlætisspurningum sem felast í því að leysa þessa hagstjórnaráskorun með ofangreindum hætti.

[i] Stýrivextir voru 0,75% í maí 2021.

[ii] Stærri skuldug fyrirtæki í erlendri mynt (t.d. evru) bera ekki þessa íþyngingu.

Höfundur er hagfræðingur.

Höf.: Jóhann Rúnar Björgvinsson