Bananar Opið hús í Garðyrkjuskólum á Reykjum í Ölfusi í dag.
Bananar Opið hús í Garðyrkjuskólum á Reykjum í Ölfusi í dag. — Ljósmynd/Garðyrkjuskólinn
Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í dag, sumardaginn fyrsta, frá kl. 10-17. „Sumarið byrjar í garðskálanum og gróðurhúsunum þar sem gróðurinn blómstrar og fyrsta uppskeran af fersku grænmeti er tilbúin,“ segir í tilkynningu frá skólanum

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í dag, sumardaginn fyrsta, frá kl. 10-17.

„Sumarið byrjar í garðskálanum og gróðurhúsunum þar sem gróðurinn blómstrar og fyrsta uppskeran af fersku grænmeti er tilbúin,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

Grænmetis- og plöntumarkaðurinn verður í garðskálanum og í ár verður hægt að kaupa heimaræktað íslenskt kaffi á meðan birgðir endast. Einnig verður sýning á túlí­pönum í garðskálanum og í bananahúsinu verða að sjálfsögðu brakandi ferskir bananar. Verkefni nemenda verða til sýnis og hægt að fræðast um námið í skólanum.

Hátíðardagskrá hefst kl. 13 en þá afhendir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, garðyrkjuverðlaun ársins og umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar. Veitingasala verður á svæðinu allan daginn.

Margir líta á það sem fastan lið í sumarkomunni að heimsækja Garðyrkjuskólann,“ segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur, Gurrý, sem kennir við skólann. Hún segir gesti á þessum degi jafnan skipta þúsundum, enda stemningin einstök og ýmis dagskrá önnur í Hveragerði í dag.