Hálsaskógur Lokað vegna myglu. Undirbúnings- og greiningarvinna tók eitt ár. Áætluð verklok eru haustið 2025. Börnin eru í Ævintýraborg á meðan.
Hálsaskógur Lokað vegna myglu. Undirbúnings- og greiningarvinna tók eitt ár. Áætluð verklok eru haustið 2025. Börnin eru í Ævintýraborg á meðan. — Ljósmynd/Aðsend
Óskar Bergsson oskar@mbl.is Kostnaður vegna myglu í skólum og leikskólum Reykjavíkurborgar er á bilinu 1,14-1,47 milljónir á fermetra, að því er fram kemur í svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Kostnaður vegna myglu í skólum og leikskólum Reykjavíkurborgar er á bilinu 1,14-1,47 milljónir á fermetra, að því er fram kemur í svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 11. apríl sl. að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta á húsnæði Hálsaskógar í Breiðholti. Kostnaðaráætlun var sögð 550 milljónir króna. Leikskólinn hefur verið lokaður frá upphafi árs 2023 og starfsemin tímabundið verið í Ævintýraborg í Vogabyggð. Frá þeim tíma hefur verið unnið við greiningar- og undirbúningsvinnu og búið er að fjarlægja þá byggingarhluta sem reyndust vera skemmdir og þarfnast endurnýjunar.

Morgunblaðið sendi fyrirspurn til borgarinnar um umfang verksins og hvaða skýring lægi að baki svo hárri fjárhæð fyrir 430 fermetra húsnæði. Miðað við kostnaðaráætlun er fermetraverðið þá um 1,3 milljónir króna.

Í svarinu kemur fram að í grunninn sé öll byggingin endurnýjuð, allar lagnir og allt þak. Í raun standi bara steinninn eftir. Bætt er við loftræsikerfi með varmaskipti ásamt því að öll einangrun er þykkt og fæst fram um 30-40% orkusparnaður með tilheyrandi minnkun á heitavatnsnotkun. Inni í kostnaðartölum er endurnýjun á öllum húsgögnum og búnaði fyrir leikskólann ásamt hönnunarkostnaði og Svansvottun. Áætluð verklok eru haustið 2025.

Laun starfsmanna hluti af byggingarkostnaði

Innri kostnaður Reykjavíkurborgar er hluti af heildarkostnaðaráætlun, þ.e. laun starfsmanna borgarinnar. Auk viðgerða á húsnæðinu verða einnig gerðar á því breytingar til að mæta kröfum um leikskólastarf. Verkefnið er hluti af endurbóta- og viðhaldsátaki í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Verkið felst í niðurrifi innanhúss sem og á þakvirki, fullnaðarfrágangi að utan og innan ásamt hurða- og gluggaísetningu. Hálsaskógur verður endurhannaður með tilliti til betri kennsluhátta og nútímalegri aðstöðu fyrir kennara samkvæmt kröfum vinnueftirlits og heilbrigðiseftirlits. Þessi hönnun er gerð í fullu samráði við skóla- og frístundasvið.

Verður Svansvottuð

Einnig kemur fram í svari umhverfis- og skipulagssviðs að endurhönnun og endurgerð verði Svansvottuð sem styðji við græna stefnu Reykjavíkurborgar. Hönnunarforsendur miðist við umhverfisvænt efnisval, betri orkunýtingu byggingar, m.a. minni heitavatnsnotkun, lægri rekstrarkostnað, gæði byggingar fyrir notendur, skilgreindar kröfur um loftræsingu, hitastig, ljósvist og hljóðvist. Einnig eru gerðar ítarlegar kröfur til verktaka um gæðakerfi og rakavarnir við endurbyggingu.

Stærð hússins er samkvæmt teikningum nákvæmlega 430,8 m2. Nákvæm kostnaðaráætlun er enn trúnaðarmál þar sem útboð er í gangi og enn enginn samningur við verktaka kominn á. En miðað við 550 milljónir samkvæmt heildaráætlun er byggingarkostnaður frá 1,14 til 1,47 milljónir á fermetra fyrir fullbúinn Svansvottaðan leikskóla með öllum búnaði og tækjum.

11 skólar lokaðir vegna myglu

Einnig var borgin spurð um fjölda leikskóla sem eru lokaðir vegna myglu og áætlaðan kostnað vegna þeirra. Í svari til blaðsins kemur fram að í dag séu 11 leikskólar lokaðir að hluta eða öllu leyti.

Áætlaður endurgerðarkostnaður verður svipaður á fermetra í minni skólum en í stærri skólum má gera ráð fyrir lægri fermetratölum einfaldlega vegna stærðarhagkvæmni. Hér er eingöngu um að ræða verst förnu húsin sem kalla á stærri endurgerðir, aðrir leikskólar eru í mun betra ásigkomulagi og kalla því síður á heildarendurgerð.

Höf.: Óskar Bergsson