Alþjóðastarfið Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sótti ráðstefnu evrópskra þingforseta 22.–23. apríl síðastliðinn í Palma í boði forseta efri og neðri deildar þjóðþings Spánar. Filippus 6. Spánarkonungur heilsar hér Birgi.
Alþjóðastarfið Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sótti ráðstefnu evrópskra þingforseta 22.–23. apríl síðastliðinn í Palma í boði forseta efri og neðri deildar þjóðþings Spánar. Filippus 6. Spánarkonungur heilsar hér Birgi. — Ljósmynd/Alþingi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Kostnaður Alþingis vegna þátttöku í alþjóðastarfi er tæplega 344 milljónir króna síðustu þrjú árin. Þar af var kostnaðurinn rúmar 153 milljónir í fyrra.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Kostnaður Alþingis vegna þátttöku í alþjóðastarfi er tæplega 344 milljónir króna síðustu þrjú árin. Þar af var kostnaðurinn rúmar 153 milljónir í fyrra.

Þegar heimsfaraldur covid skall á féllu fundir og ráðstefnur í útlöndum niður. Á þessu tímabili sparaði Alþingi sér háar fjárhæðir. Nú er allt komið í fyrra horf og íslenskir þingmenn sækja mannamót um allan heim. Alþingi tekur þátt í umfangsmiklu samstarfi á alþjóðavettvangi.

Upplýsingar um kostnað við alþjóðastarfið fékk Morgunblaðið hjá skrifstofu Alþingis. Ef upphæðin fyrir árið 2023 er sundurliðuð sést að fargjöld voru 34,4 milljónir, dagpeningar erlendis 40 milljónir, dvalarkostnaður 17,9 milljónir, félagsgjöld 30,1 milljón og annar funda- og móttökukostnaður 30,8 milljónir. Inni í þeirri tölu er kostnaður við fundahald á Íslandi ásamt ýmsu öðru sem fellur til í erlendu samstarfi.

Hæstu greiðslurnar

Þeir þingmenn sem fengu hæstar greiðslur vegna alþjóðastarfs árið 2022 eru, frá hæsta til lægsta:

Bjarni Jónsson, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Birgir Þórarinsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Logi Már Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Þeir þingmenn sem fengu hæstar greiðslur árið 2023 eru, frá hæsta til lægsta:

Bjarni Jónsson, Hanna Katrín, Þórhildur Sunna, Diljá Mist Einarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Jóhann Friðrik, Þorgerður Katrín, Bryndís Haraldsdóttir og Njáll Trausti.

Flestir þessara þingmanna gegna formennsku í nefndum sem krefjast mikilla ferðalaga, að því er fram kemur í skriflegu svari frá Alþingi.

Forsætisnefnd þingsins ákvað í mars 2020 að fella niður vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsfólks Alþingis frá og með 17. mars það ár. Var það vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, enda var hefðbundinni þátttöku í alþjóðastarfi sjálfhætt þegar þingmannafundir og -ráðstefnur færðust í rafrænt form að frumkvæði skipuleggjenda. Sparnaður fyrir Alþingi var verulegur. Ferðalög til útlanda hófust að nýju sumarið 2021 þegar slakað var á takmörkunum sem gilt höfðu um ferðalög og samkomuhald.

Fram kemur á vef Alþingis að þingið taki þátt í neðangreindum samtökum og þingum:

Alþjóðaþingmannasambandið, Evrópuráðsþingið, þingmannanefndir EFTA og EES, NATO-þingið, Norðurlandaráð, Vestnorræna ráðið, Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál og Þing Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Einnig skal telja alþjóðastarf forseta Alþingis, annað alþjóðastarf sem heyrir undir forseta Alþingis og sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.

Margir þingmenn í útlöndum

Um miðjan mars birtist í Morgunblaðinu frétt þess efnis að fjórðungur þingmanna, eða 15 talsins, væri um þær mundir að sækja fundi og ráðstefnu í útlöndum. Þar af voru tveir að fara tvisvar. Blaðið ákvað í framhaldinu að kanna umfang alþjóðastarfs Alþingis og kostnað við það. Sömuleiðis hver væru rökin fyrir þessari umfangsmiklu þátttöku.

Alþjóðastarf er veigamikill hluti af starfsemi Alþingis líkt og annarra þjóðþinga og hefur verið um langt árabil, segir á vef þingsins.

Markmið alþjóðastarfsins

Meginmarkmið alþjóðastarfs Alþingis eru eftirfarandi:

Efling samskipta þinga og þjóða með tvíhliða samskiptum milli þjóðþinga og marghliða samstarfi á vettvangi alþjóðlegra þingmannasamtaka.

Framþróun lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins og lausn ágreinings milli þjóða.

Þátttaka í þingmannasamstarfi um stærstu áskoranir samtímans sem ganga þvert á landamæri, s.s. loftslagsmál, norðurslóðamál og jafnréttismál.

Þekkingaröflun þingmanna í alþjóðamálum sem eflir þá í að hafa eftirlit með ríkisstjórninni og veita henni aðhald í utanríkismálum.

Þátttaka í formlegri málsmeðferð og ákvörðunum á vettvangi alþjóðlegra þingmannasamtaka.

Þátttaka í eftirliti alþjóðlegra þingmannasamtaka með millilandasamstarfi.

Auk þessara markmiða tekur Alþingi þátt í starfi átta alþjóðlegra þingmannasamtaka sem hver um sig hafa skýrt skilgreind markmið og málefnasvið.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson