[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alúðarþakkir fyrir yndislega stund og til hamingju Ísland með frábært framlag á sviði menningar á Austurlandi.

Davíð Baldursson

Sunnudaginn 21. apríl sl. þegar vorið loks hélt innreið sína á Austurland hélt Sinfóníuhljómsveit Austurlands tónleika í Eskifjarðarkirkju, Tónlistarmiðstöð Austurlands, fyrir fullu húsi.

Efnisskráin var tvískipt.

Fyrir hlé var flutt nýtt tónverk – Stargazer – eða „Stjörnuskoðun“, eftir Charles Ross. Charles sem er víóluleikari og doktor í tónsmíði frá University of Glasgow hefur dvalið má heita sinn starfsaldur á Íslandi og vel að merkja á Austurlandi. Hefur hann kennt m.a. á strok- og ásláttarhljóðfæri, en auk þess kennt tónsmíðar, heimstónlist og spuna við Listaháskóla Íslands og við University of Glasgow.

Stjörnuskoðarinn í verkinu Stargazer gaf áheyrandanum magnaða innsýn í upplifun sína frá ýmsum æviskeiðum. Töfrum sindrandi himinljósa var varpað í umgjörð gáskafullrar, litríkrar og hrífandi tónlistar. Í flutningi hljómsveitarinnar, sem gerði þessu verki greinilega frábær skil undir öruggri stjórn Gunnsteins Ólafssonar, fylgdi áheyrandinn stjörnuskoðaranum vel eftir og var vegferðin samfelld og gefandi. Líkt og í fyrri verkum höfundar voru ásláttarhljóðfæri áberandi og auðgaði það áhrifamátt verksins. Verður spennandi að fylgjast með hvaða stjörnuljós höfundur vefur næst inn í tónlist sína, en af þessu að dæma er næsta víst að það verði í ætt við vorsólina sem baðaði Austurland þennan dag. Þeir sem þekkja höfund Stargazer vita að honum hefur tekist það sem mörgum reynist örðugt, að varðveita barnið í brjósti sér og leyfa því sannarlega að njóta sín.

Eftir hlé flutti SinfóAust sinfóníu nr. 7 í A-dúr eftir Beethoven.

Þróttmikið og kynngimagnað verk sem gerir ríkar kröfur til blásara hljómsveitarinnar. Skilaði hljómsveitin þessu verki með ágætum og röggsemi stjórnandans, Gunnsteins, og alúð konsertmeistarans Martin Frewer er við brugðið. Ekki ónýtt fyrir tónlistarfólk á Austurlandi að eiga til góðra að leita og þannig kost á að hleypa af stokkunum stórvirki sem þessu.

Alúðarþakkir fyrir yndislega stund og til hamingju Ísland með frábært framlag á sviði menningar á Austurlandi.

Höfundur er fv. sóknarprestur á Eskifirði og Reyðarfirði

Höf.: Davíð Baldursson