Skemmtun Kvennakór Suðurnesja heldur úti metnaðarfullu og skemmtilegu starfi fyrir konur á Suðurnesjum.
Skemmtun Kvennakór Suðurnesja heldur úti metnaðarfullu og skemmtilegu starfi fyrir konur á Suðurnesjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Kvennakór Suðurnesja tekur þátt í alþjóðlegu kóramóti í Kalamata í Grikklandi í haust og hefur í vetur æft sig fyrir keppnina. Fluttar verða íslenskar söngperlur frá þjóðlögum yfir í popptónlist og allt þar á milli, en kórinn frumflytur dagskrána undir yfirskriftinni Draumalandið á tónleikum í bíósal Duus-safnhúsa Reykjanesbæjar 29. apríl og 1. maí.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kvennakór Suðurnesja tekur þátt í alþjóðlegu kóramóti í Kalamata í Grikklandi í haust og hefur í vetur æft sig fyrir keppnina. Fluttar verða íslenskar söngperlur frá þjóðlögum yfir í popptónlist og allt þar á milli, en kórinn frumflytur dagskrána undir yfirskriftinni Draumalandið á tónleikum í bíósal Duus-safnhúsa Reykjanesbæjar 29. apríl og 1. maí.

Kórinn var stofnaður 22. febrúar 1968 og er elsti starfandi kvennakór landsins, að sögn Guðrúnar Karitasar Karlsdóttur formanns hans. Hún segir að stofnendurnir hafi staðið vel að uppbyggingunni og fjölmargar konur hafi sungið í kórnum og haldið honum gangandi með kröftugu starfi. Því hafi tekist að halda starfseminni eins blómlegri og raun beri vitni.

„Helsta markmið Kvennakórs Suðurnesja er að bjóða upp á metnaðarfullt og skemmtilegt kórstarf fyrir konur á öllum aldri á Suðurnesjum,“ segir Guðrún Karitas. Markmiðið sé jafnframt að stuðla að öflugu menningarstarfi á Suðurnesjum með tónleikahaldi og þátttöku í ýmsum viðburðum. Þar skipti góður stuðningur frá samfélaginu miklu máli.

Stjórnandi í 20 ár

Geirþrúður F. Bogadóttir hefur verið meðleikari á píanó með kórnum í yfir 20 ár og Dagný Þ. Jónsdóttir stjórnandi hans byrjar 20. starfsárið í haust. Kórinn hefur sungið víða heima og erlendis, til dæmis farið til Bandaríkjanna og Færeyja á líðandi öld, og meðal annars staðið sig vel í alþjóðlegri kórakeppni. „Við hrepptum tvenn gullverðlaun í keppni á Ítalíu fyrir nokkrum árum,“ segir Dagný. „Það var mjög skemmtilegt og gefandi og við ákváðum að endurtaka leikinn í Grikklandi í haust!“

Kórinn hefur tekið þátt í flestum landsmótum kvennakóra og verður gestgjafi vorið 2026. „Við ætlum að halda mikið söngpartí,“ segir Dagný. Bætir við að kórinn hafi meðal annars farið um Snæfellsnes, haldið tónleika á Akureyri og á landsmótinu í fyrra hafi þær komið fram í Hörpu. „Það var einstök upplifun.“

Dagný útskrifaðist sem söngkennari 2001 og byrjaði að kenna söng í Reykjanesbæ árið eftir. Hún segir að þegar Kvennakór Suðurnesja auglýsti eftir kórstjóra hafi hún brugðist skjótt við og verið ráðin skömmu síðar. „Þetta er yndislegt starf, konurnar eru svo frábærar og ekkert kemur í staðinn fyrir sönginn.“

Kóræfingar eru tvisvar í viku, tvo tíma í senn, í Reykjanesbæ og í Garði. Dagný segir að algengt sé að konur hafi verið lengi í kórnum og meðal annars sé stutt síðan tvær hafi hætt eftir að hafa verið með nánast frá byrjun. „Margar konur sem eru núna í kórnum hafa verið í honum lengur en ég. Sérlega öflugar konur hafa fundið sér stað í lífinu í þessum kór.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson