Njarðvík Veigar Páll Alexandersson sækir að körfu Þórsara í leiknum ótrúlega í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gær. Jordan Semple er til varnar.
Njarðvík Veigar Páll Alexandersson sækir að körfu Þórsara í leiknum ótrúlega í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gær. Jordan Semple er til varnar. — Morgunblaðið/Skúli
Njarðvík tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með sigri á Þór frá Þorlákshöfn í stórkostlegum oddaleik liðanna í átta liða úrslitum í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Njarðvík tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með sigri á Þór frá Þorlákshöfn í stórkostlegum oddaleik liðanna í átta liða úrslitum í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi. Urðu lokatölur 98:97.

Þorvaldur Árnason, KR-ingur sem kom til Njarðvíkur frá Cleveland Charge í þróunardeild NBA í nóvember á síðasta ári, skoraði sigurkörfuna örfáum sekúndubrotum fyrir leikslok með ótrúlegu þriggja stiga skoti.

Kerfið fór í vaskinn

Svo virtist sem Darwin Davis væri að tryggja Þórsurum glæsilegan útisigur með körfu úr sniðskoti 0,9 sekúndum fyrir leikslok, er hann kom liðinu í 97:95. Njarðvík tók leikhlé í kjölfarið og Benedikt Guðmundsson þjálfari sagði skýrt og greinilega að markmiðið væri að jafna með tveimur stigum og fara í aðra framlengingu.

Það kerfi fór í vaskinn og virtist sóknin vera að renna út í sandinn þegar Þorvaldur skoraði úr nær vonlausri stöðu og allt varð vitlaust í Njarðvík.

Einvígið var það langbesta í átta liða úrslitunum, þar sem spennan var almennt ekki mikil. Það gerist ekki betra en þriggja stiga flautukarfa í framlengdum oddaleik. Svona viljum við hafa þetta.

Mun svíða lengi

Það er erfitt að finna ekki til með Þórsurum, sem spiluðu á köflum virkilega vel í einvíginu og voru hársbreidd frá því að fara með sigur af hólmi. Það var synd að annað liðið þurfti að tapa og mun tapið í gær væntanlega svíða lengi hjá íbúum Þorlákshafnar.

Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 26 stig fyrir Njarðvík og lék mjög vel. Njarðvíkingar leituðu mikið til hans og Englendingurinn var traustur. Dominykas Milka lét svo finna fyrir sér að vanda, skoraði 25 stig og tók 12 fráköst.

Hjá Þór var Darwin Davis stigahæstur með 28 stig. Á eftir honum var Jordan Semple með 27 stig. Davíð Arnar Ágústsson var svo drjúgur fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði tólf stig.

Njarðvík fær vægast sagt ærið verkefni í undanúrslitum, þar sem deildarmeistarar Vals bíða. Valur vann báða leiki liðanna í deildinni í vetur, en í báðum tilvikum var um æsispennandi leiki að ræða.

Valsmenn unnu heimaleikinn sinn á Hlíðarenda með fjórum stigum, 91:87, og seinni leikinn í lokaumferðinni eftir framlengda spennu, 114:106. Vonandi fáum við meira af því í undanúrslitaeinvígi liðanna. Þar mætast Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur og Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals, en þeir eru tveir af reynslumestu þjálfurum landsins og verður gaman að sjá þá kljást á svo stóru sviði.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast bikarmeistarar Keflavíkur og sjóðheitir Grindvíkingar.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson