Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Ég ákvað að byrja að halda draumadagbók í covid-tíð, af því ég var heima, líkt og allir aðrir, en líka af því þetta var tímabil þar sem ég mundi óvenjuvel drauma mína. Draumaheimurinn byggist á allt öðrum lögmálum en heimur vökunnar, þess vegna gleymir maður draumum fljótt eftir að maður vaknar. Þeir eru fljótir að renna manni úr greipum, svo maður verður helst að skrá þá í svefnrofunum. Ég var því með fartölvuna mína í seilingarfjarlægð við rúmið mitt og reif mig ævinlega upp í svefnrofunum til að skrá draumana,“ segir Steingrímur Dúi Másson kvikmyndagerðarmaður um myndlistarverkefnið Draumadoc, sem hann vann yfir fimm ára tímabil, frá 2019 til 2024. Sýning á verkunum stendur nú yfir á Facebook, en verkin samanstanda af ljósmyndum með textum yfir og segir frá einum draumi á hverri mynd.
„Ég reyndi að tengja og festa tilfinningu hvers draums á þeirri mynd sem ég tók fyrir viðkomandi draum. Upphaflega hugmyndin á bak við þessi verk var ekki endilega að gera myndlist en það gerðist nú samt. Draumurinn ræður algerlega ferðinni og myndin fylgir honum hljóðlega eftir, eins og skuggi hans,“ segir Dúi og bætir við að þegar hann hafi byrjað að halda draumadagbók hafi hugmyndin ekki verið að halda sýningu.
„Þar sem ég er kvikmyndagerðarmaður hef ég unnið mikið í heimildarmyndum, bæði í kvikmyndum og sjónvarpi, og þegar ég var í meistaranámi á Bifröst stúderaði ég heilmikið observational-kvikmyndagerð en ég var í raun að skrá draumana með það í huga. Ég vildi hafa þetta hlutlausa skráningu þar sem ég tek ekki afstöðu, hvorki með eða á móti því sem ég fylgist með og ég vildi ekki fegra eða fela neitt. Þetta er í raun svipaður stíll og í observational-heimildarkvikmynd þar sem myndavélin er eins og fluga á vegg, nema hjá mér var ég að skoða drauma mína á hlutlausan hátt, sem getur verið snúið, því draumar eru persónulegir og í raun fagurfræðilegir.“
Tók myndirnar eftir á
Dúi segist fyrst hafa hugsað draumadagbókina sem efnivið í textaverk, annaðhvort ljóð eða prósa.
„Þetta var þó nokkuð langt vinnuferli og ég gerði fyrst myndbandsupptökur þar sem ég setti draumana sem texta yfir vídeóverk. Ég náði að spegla það svolítið í vini mínum Stephen Lárusi myndlistarmanni, en mér fannst myndbandsaðferðin ekki virka eins og mig langaði að sýna draumana. Ég ákvað því að prófa ljósmyndaformið, og þá hugsaði ég hvert verk, hvern draum, sem frosinn ramma. Ég tók allar ljósmyndirnar eftir á og ef ég vissi hvar draumurinn hafði gerst, þá fór ég á staðinn og tók ljósmynd. Einn draumurinn gerist til dæmis í Meðallandi í Austur-Skaftafellssýslu og ég fór þangað og myndaði sveitabæ þar sem draumurinn átti sér stað. Stundum fór ég eftir tilfinningu við ljósmyndunina, ef mér fannst ég hafa verið einhvers staðar, þá lét ég það leiða mig þangað. Einn draumurinn gerist til dæmis í skíðalyftu og ég fór því á skíðasvæðið í Bláfjöllum til að taka mynd af skíðalyftu.“
Miskunnarlaus skoðun
Í draumheimum getur jú allt gerst, enda hefur sá heimur allt aðra uppbyggingu en raunheimurinn. Í einum draumi Dúa á sýningunni á sér til dæmis stað verkfræðilegur ómöguleiki og í öðrum breytist karlkyns glæpaforingi í konu. David Attenborough rennir sér á skíðum í einum draumanna og í einni draumafrásögn kemur fram að Dúi sé oft í draumum sínum valdalaus og minni máttar. Sums staðar er undirliggjandi háski og jafnvel hryllingur. Þegar hann er spurður að því hvort hann hafi skoðað sérstaklega eða velt fyrir sér af hverju hann dreymi það sem hann dreymir, svarar hann því neitandi.
„Ég er í raun að leggja þetta fram án þess að hafa skoðun á því. Ég ákvað að beina linsunni að draumunum og hún getur vissulega verið mjög miskunnarlaus þessi tegund af þessari skoðun, en ég ákvað að láta allt koma fram. Ég er hvorki að draga úr né gefa í. Tilgangurinn með þessu er ekki að skoða af hverju mig dreymir það sem mig dreymir.“
Einhvers konar nýsköpun
Dúi segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að hafa sýninguna á þessum myndverkum, Draumadoc, í gegnum miðilinn Facebook, en ekki í hefðbundnum sýningarsal.
„Mér fannst það eðlileg leið fyrir þessi verk og þetta verkefni, því það er frekar þægilegt að setja Draumadoc upp á vefnum, verkin eru á stafrænu formi. Að fara þessa leið er einhvers konar nýsköpun án milligöngu listasafns. Facebook er almenningsrými og vissulega er þetta allt öðruvísi rými en veggir í listagalleríi, en ég reyni samt að hafa svipuð lögmál, til dæmis læt ég sýninguna standa þar í takmarkaðan tíma, hún verður tekin niður 1. maí. Það getur meira en verið að verkin fari upp á öðrum vettvangi, á sýningu í galleríi sem prentuð verk, því þá verður upplifunin allt önnur, en verkin eru frekar stór,“ segir Dúi og bætir við að eitt draumaverkið hans hafi verið á sýningunni Art365 í Listasafni Reykjanesbæjar.