Guðmundur Ingi Ingason fæddist 2. október 1956 í Reykjavík, Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. apríl 2024 eftir stutta spítalavist.
Foreldrar hans voru Ingi Ólafur Guðmundsson, f. 9.8. 1937, d. 14.11. 1962, og Kristín Kjartansdóttir, f. 31.12. 1936, d. 30.1. 1998. Guðmundur ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Kjartani Tómassyni, f. 11.12. 1899, d. 9.3. 1986, og Lilju Ólafsdóttur, f. 5.6. 1912, d. 26.1. 2006, sem hann kallaði alla tíð mömmu og pabba.
Þar bjuggu um tíma systir Lilju, Rósa, og dóttir hennar María Kjartansdóttir, f. 28.2. 1952, samband Guðmundar og Maríu var mjög náið. María er gift Þóri Haukssyni og eiga þau fjögur börn.
Samfeðra systkini Guðmundar eru Ragnheiður, f. 8.1. 1959, maki hennar er Úlfar Sigurjónsson og eiga þau þrjú börn, og Ingi Ólafur, f. 28.1. 1963, maki hans er Sigurragna Vilhjálmsdóttir og eiga þau tvær dætur.
Sammæðra systkini eru Lilja Gunnarsdóttir, f. 13.10. 1964, maki Birgir Bjarnason, Rósa Gunnarsdóttir, f. 13.6. 1969, maki Erling Hafþórsson og eiga þau fjögur börn, og Högni Gunnarsson, f. 12.12. 1973.
Fyrsta eiginkona Guðmundar er María Ingvarsdóttir, f. 4.2. 1952, og eiga þau drengina Kjartan Val, f. 30.3. 1983, og Halldór Örn, f. 4.12. 1987. Kjartan á börnin Styrmi Inga, f. 22.4. 2002, Ísabellu Stjörnu, f. 6.10. 2006, og Harald Breka, f. 19.12. 2015. Sambýliskona Kjartans er Bryndís Ósk Óskarsdóttir, f. 25.2. 1990, og eiga þau saman Kjartan Darra, f. 25.4. 2018. Fyrir á hún soninn Óskar Leó, f. 2.1. 2012. Eiginkona Halldórs er Ásdís Alexandra Lee, f. 24.11. 1992, og eiga þau saman börnin Freyju Sif, f. 8.3. 2018, og Bjart Inga, f. 15.1. 2021.
Sammæðra systkini Halldórs og Kjartans eru Jenný Kristín Valberg, f. 11.1. 1973, og Jóhannes Einar Valberg, f. 14.2. 1977.
María og Guðmundur slitu samvistum og hann kvæntist Fanndísi Steinsdóttur, f. 8.7. 1963, og slitu þau samvistum.
Guðmundur giftist hinn 1.5. 2021 eftirlifandi eiginkonu sinni, Björk Þórisdóttur, f. 28.10. 1962.
Börn hennar eru Birna Bjarkardóttir, f. 28.8. 1985, og Ingi Þór Þorsteinsson, f. 4.11. 1987. Maki Birnu er Vilhjálmur Jónasson, f. 23.4. 1983, og á hún börnin Töru Björk, f. 6.10. 2006, Tristan Inga, f. 25.8. 2008, og Tönju Móeyju, f. 12.5. 2011. Maki Inga er Lydía Dögg Egilsdóttir, f. 14.7. 1988, og eiga þau saman börnin Emilíönu Mist, f. 27.8. 2015, og Alexander Leó, f. 3.9. 2018.
Guðmundur ólst upp á Skjólbraut í Kópavogi, gekk í Kársnesskóla og var með frumkvöðlum í Skólahljómsveit Kópavogs. Gekk til liðs við lögregluna í Kóp. 1976, 19 ára. Var í ýmsum deildum lögreglunnar allan sinn starfsaldur. Lengst af í Kópavogi 23 ár, níu ár í Reykjavík, níu ár á Kirkjubæjarklaustri og víða annars staðar. Stóð síðustu vakt sína á Bessastöðum 2021. Hann tók virkan þátt í Lögreglukórnum og fann sig vel þar. Guðmundur og Björk bjuggu í Hveragerði þar sem þau lögðu rækt við sig sjálf og garðinn, sem þau fengu verðlaun fyrir 2023. Átti hann það ekki langt að sækja þar sem „mamma“ hans Lilja var með gróðurrækt og sölu. Guðmundur var snyrtimenni, glaðlyndur og blíður. Hann hafði ánægju af ferðalögum og naut sín vel í sól.
Útför hans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 26. apríl 2024, klukkan 15.
Pabbi, þú varst kletturinn minn sem ég gat leitað til, ég gat treyst á þín góðu ráð, það var enginn jafn úrræðagóður og þú, og til þín gátu allir leitað. Þú varst alltaf allur af vilja gerður til að leysa hin ýmsu mál, stundum aðeins of og þá skein rannsóknarlögreglumaðurinn í gegn, hlutirnir voru þá skoðaðir til hlítar og reyndir þú alltaf að finna góða og skilvirka lausn.
Þú varst með einstakan húmor og alltaf gastu fundið jákvæðar hliðar á aðstæðum, það var svo gott að vera í kringum þig elsku pabbi, þú notaðir hlý orð. Þú varst opinn og gafst okkur öllum mikla ást og umhyggju, það leyndi sér aldrei að þú elskaðir okkur og lést þú okkur alltaf vita hvað þú værir ríkur að eiga okkur. Þín hlýja huggar okkur í sorginni. Ég er stoltur að vera sonur þinn.
Ég á ótal góðar minningar frá ferðum okkar um landið í útilegum og sumarbústaðaferðum, við áttum mjög góðan tíma saman á Kirkjubæjarklaustri sem er mér dýrmætur, eins og tíminn sem við áttum saman á Spáni en þér leið hvergi betur en í sólinni elsku pabbi.
Pabbi minn, þú kvaddir okkur alltof snemma, það var svo margt sem við áttum eftir að gera. Ég veit að þú munt alltaf fylgja okkur, minning þín mun lifa í gegnum okkur og barnabörnin þín. Þú varst sannarlega elskaður og dáður.
Englar Guðs þér yfir vaki og verndi
pabba minn
vegir okkar skiljast núna, við sjáumst
ekki um sinn.
En minning þín hún lifir í hjörtum hér
hamingjuna áttum við með þér.
Kjartan Valur
Guðmundsson.
Pabbi minn, Guðmundur Ingi, var yndislegur maður eða eins og góður vinur minn sagði; „skólabókardæmi um toppeintak af manni“, það vita flestir sem hann þekktu.
Minningar mínar úr bernsku eru mjög hlýjar af föður mínum. Hann var duglegur að ferðast og gera eitthvað með okkur. Ótal ferðir út á land og í veiðiferðir, sumarbústaði, bara njóta náttúrunnar og vera saman. Hann var duglegur að láta mann læra og oft fylgdi traustið sem hann hafði á manni kannski ekki alveg getu en alltaf hrósaði hann, lét manni líða vel með verkið.
Þó svo að hann hafi verið í krefjandi starfi og stundum störfum þá gaf hann sér alltaf tíma. Þegar hann bjó á Kirkjubæjarklaustri og ég í Reykjavík voru ferðirnar austur talsvert margar og tíminn okkar saman þar mjög dýrmætur. Þar var hann í öðrum takti og naut sín vel að búa þar. Það var hálfótrúlegt en samt svo lýsandi fyrir hann að geta flutt þangað og á örskömmum tíma var hann meitlaður inn í samfélagið. Þar eignaðist hann marga góða vini og var mjög ánægður.
Faðir minn var einstaklega opinn og hjálpsamur, það eru til margar sögur af góðmennsku hans og hjálpsemi við aðra. Það var aldrei erfitt að segja honum frá vandamálum því hann kom yfirleitt með lausnir við flestu og svo aftur á móti var alveg yndislegt að segja honum frá sigrum því hann var svo innilega stoltur af manni. Hann var duglegur að segja okkur frá hversu vænt honum þætti um okkur, einstaklega góður við barnabörnin sín og hjálpaði okkur mikið með þau bæði.
Það er vart hægt að koma í orð sorginni sem fylgir því að hafa misst þig elsku pabbi minn og að þú hafir farið frá okkur svona snöggt og alltof snemma. Þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar og við munum halda minningu þinni á lofti og passa upp á að Freyja muni alltaf eftir þér og Bjartur fái að vita hvað hann átti frábæran afa.
Halldór Örn.
Til þín.
Það er erfitt að hugsa fram á við án þín. Þú varst stór hluti af okkar lífi og átt stórt pláss í okkar hjarta. Þú markaðir líf okkar á svo góðan hátt þrátt fyrir fá ár sem við fengum að deila með þér. Þú varst okkur náinn. Þú varst fjölskylda.
Við erum þakklát fyrir að þið Björk mamma, tengdamamma og amma funduð hvort annað og þú komst inn í líf okkar með þitt hlýja hjarta og opna faðm. Þú varst léttur, kátur og góður vinur. Þú varst fljótur að rétta fram hjálparhönd og varst til staðar fyrir okkur. Þú sýndir okkur traustið og varst svo glaður þegar við gátum hjálpað þér á móti. Þú gast snúið öllu upp í grín og hlátur, og áttir margar sögur sem komu okkur alltaf á óvart með þinni einstöku glettni.
Þú varðst strax yndislegur afi barnanna okkar, kenndir þeim svo margt, hjálpaðir þeim, bakaðir vöfflur fyrir þau, sinntir áhugamálum þeirra og þau sóttu í þig. Þú gafst þeim pláss. Við erum þakklát fyrir að þau fengu þig sem afa.
Þú vildir líka deila með okkur fjölskyldu þinni. Þú varst svo stoltur faðir sona þinna og stoltur afi allra barnabarnanna þinna. Þú sagðir okkur frá afrekum þeirra, stórum sem smáum, og sýndir okkur gleðina sem þau veittu þér. Þú hleyptir okkur inn í líf þitt og erum við þakklát fyrir það.
Við erum þakklát fyrir að þið Björk fundið hamingjuna saman. Ferðalögin sem þið fóruð í saman, heimilið og garðinn sem þið byggðuð upp saman, samverustundirnar sem við fengum að njóta með ykkur, öryggið og hlýjuna sem þið veittuð okkur. Þið áttuð svo vel saman, þið gátuð hlegið og grínast með og að hvort öðru, þú og Björk. Hún sem gefur okkur endalaust af sér, alla sína umhyggju, ást, hlýju, hjálp, stríðni og hlátur. Það var ljúft að sjá ykkur njóta lífsins saman. Þið voruð falleg saman.
Við eigum ótal minningar af stundum sem við fengum með þér og ykkur og erum við þakklát fyrir þær.
Við erum þakklát fyrir þig.
Lydía Dögg, Ingi Þór
og börn.
Elsku Gummi.
Ég veit ekki hvernig ég á að byrja að skrifa. Þú varst einstakur að öllu leyti, þú kemur inn í líf okkar þegar ég er orðin fullorðin, við systkinin vorum alla tíð alin upp af mömmu einni og hún á svo mikið í mér. Þú kemur inn í líf okkar og þvílík guðsgjöf. Í fyrsta sinn á ævinni leið mér eins og ég ætti pabba. Alltaf boðinn og búinn til að hjálpa. Alltaf varstu tilbúinn að vera til staðar. Hringdir bara til að heilsa upp á okkur, við áttum ófá símtölin þar sem við lágum hvort yfir sinni tölvunni að skoða hótel og tilboð á flugi. Þú varst svo einstakur maður með svo fallegt hjarta. Ég sá mömmu verða svo undur mikið hamingjusama með þér, vá hvað þetta var lífið! Þið tvö saman svo ástfangin og hamingjusöm. Svo falleg saman, svo góð við hvort annað, lífsglöð og nutuð þess svo innilega að ferðast og það gladdi mig svo mikið að horfa á ykkur, fullkomnar fyrirmyndir um hvernig á að lifa lífinu.
Ég vildi innilega óska þess að tími ykkar saman hefði verið lengri, þið áttuð að fá að upplifa saman allt það sem lífið hefur upp á að bjóða. Á örskotsstundu er allt breytt, þú ert farinn frá okkur öllum og eftir sitjum við og söknum þín öll svo óbærilega mikið. Við bíðum eftir því að þú gangir inn og bjóðir okkur kaffi (þó að ég hafi alltaf svarað þér með sama svarinu, að ég væri allt of ung til að drekka kaffi, þér fannst það alltaf jafn fyndið og brostir út í annað). Við vorum með sama húmorinn og gátum hlegið svo mikið saman að öllu og engu. Elsku Gummi, við pössum upp á mömmu fyrir þig alla tíð, hvíldu í friði, elsku Gumminn okkar.
Þín verður ætíð sárt saknað,
Þín
Birna og fjölskylda.
„Ertu svangur?“ var stundum spurningin hjá vini mínum Guðmundi Inga þegar leið að matmálstímum á mörgum vinnuferðum okkar um borg og bý. Og auðvitað var ég svangur, hvað annað, því báðir elskuðum við að borða góðan mat og stundum kannski aðeins meira en næringarfræðingar hefðu mælt með. Enda bárum við þess báðir merki.
Við höfðum þekkst lengi og leiðir okkar legið saman af og til í nærri fjóra áratugi. Svo þróuðust mál á þann hátt að við urðum nánir vinnufélagar við embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi. Við sinntum sérstöku umferðareftirliti sem útheimti oft löng ferðalög og langa vinnudaga. Okkur kom einstaklega vel saman og við urðum nánir vinir. Guðmundur Ingi var einstaklega góður og ljúfur félagi, glaðsinna, orðheppinn með eindæmum og hrókur alls fagnaðar hvar sem komið var. Hæfileikar hans til mannlegra samskipta nutu sín vel í starfi lögreglumannsins sem hann sinnti alla sína starfsævi.
Við sjáum nú á eftir góðum félaga og vini en geymum minningarnar, gleðiríkar og margar minnisstæðar bæði úr starfi og leik. Guðmundur Ingi hafði ástríðu fyrir bílaviðskiptum sem hann stundaði alla tíð og þótti bæði áræðinn og séður í slíkum viðskiptum. Ófáar voru ferðirnar sem við fórum um bílasölur í leit að vænlegum viðskiptatækifærum. Sama átti við í öðrum viðskiptum sem oft urðu til af góðum afslætti en hann var óragur við að leita eftir góðum tilboðum og ósjaldan nutu aðrir góðs af.
Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir vináttuna, öll símtölin eftir að við settumst í „hinn helga stein“. Við Dísa viljum votta Björk og öðrum fjölskyldumeðlimum okkar dýpstu samúð. Megi allar góðar vættir vaka yfir minningu Guðmundar Inga Ingasonar.
En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið
og þín er liðin æviönn
á enda skeiðið runnið.
Í hugann kemur minning mörg,
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
(Höf. ókunnur)
Sveinn Ingi.
Við trúum því ekki að þú sért farinn, elsku bróðir.
Hérna sitjum við og látum hugann reika, því við erum svo heppin að eiga svo margar yndislegar minningar sem ylja okkur.
Mamma okkar Kristrún Bjarnadóttir var svo dugleg að rækta samband okkar eftir að pabbi okkar dó aðeins 25 ára, hún sótti þig á Skjólbrautina svo við gætum átt stundir saman. Svo þegar þú varst orðinn eldri komstu á skellinöðrunni í heimsókn, þvílíkur töffari, og svo fórstu að koma á bílnum þínum eftir að þú fékkst bílpróf.
Við elskuðum þig meira en allt, elsku bróðir, og litum alltaf upp til þín, Hulda systir leit alltaf á þig sem bróður sinn og sagði alltaf Gummi bróðir þegar hún talaði um þig, þetta lýsir hversu yndislegur þú varst við alla.
Elsku bróðir, þetta ljóð lýsir þér svo vel.
Fegurðin er frá þér barst,
fullvel þótti sanna,
að yndið okkar allra varst,
engill meðal manna.
Hlutverk þitt í heimi hér,
þú hafðir leyst af hendi.
Af þeim sökum eftir þér,
Guð englahópa sendi.
Sú besta gjöf er gafst þú mér,
var gleðisólin bjarta,
sem skína skal til heiðurs þér,
skært í mínu hjarta.
(B.H.)
Elsku Björk, Kjartan Valur, Halldór Örn og fjölskyldur. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.
Takk fyrir allt, elsku bróðir.
Ragnheiður, Ingi
og fjölskyldur.