Sól Það voru margir dagar í vetur þar sem hægt var að njóta sólskins.
Sól Það voru margir dagar í vetur þar sem hægt var að njóta sólskins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Íslendingar tóku á móti fyrsta degi sumarsins með opnum örmum í gær þegar kaldasti vetur það sem af er þessari öld var kvaddur. Vetur á landinu hefur ekki mælst kaldari frá árunum 1998-1999 en var einnig sá sólríkasti frá upphafi mælinga í Reykjavík samkvæmt mælingum frá Veðurstofu Íslands

Herdís Tómasdóttir

herdis@mbl.is

Íslendingar tóku á móti fyrsta degi sumarsins með opnum örmum í gær þegar kaldasti vetur það sem af er þessari öld var kvaddur.

Vetur á landinu hefur ekki mælst kaldari frá árunum 1998-1999 en var einnig sá sólríkasti frá upphafi mælinga í Reykjavík samkvæmt mælingum frá Veðurstofu Íslands. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir mælinguna hafi komið sér á óvart.

„Það var líka kalt síðasta vetur og ég hélt að hann hefði verið kaldari en þessi, en það er af því að nóvember var svo hlýr og febrúar líka. Aftur á móti voru desember og janúar miklu kaldari en nóvember svo þetta er miklu eðlilegra núna,“ segir hann. Kuldinn sé þó ekki sérstakur ef litið er lengra til baka.

„Okkur finnst hafa verið svo hlýtt síðustu ár, en ef við tökum lengra tímabil þá eru kannski 50 vetur eða fleiri sem voru kaldari. Við fórum talsvert fram úr okkur síðustu aldamót og þá hlýnaði alveg ótrúlega mikið á örfáum árum, en síðan hefur allt jafnast út og haldist óbreytt,“ bætir hann við.

Hann segir að það hafi verið öðruvísi bragð af þessum vetri heldur en í fyrra og að rigning hafi verið talsvert minni en venjulega.

„Samt var snjóhula nálægt meðallagi. Þótt það hafi verið mjög þurrt hefur alltaf verið snjór. Það var ekki mikið en hann lá í dálítinn tíma.“

Þrátt fyrir það er öldin enn ung og líklegt er að við fáum kaldari vetur á öldinni, þó að hlýnun haldi áfram. Trausti bætir við að lokum að það hafi hlýnað talsvert meira á Íslandi en í heiminum í heild samkvæmt mælingum.

Höf.: Herdís Tómasdóttir