Forsetaframboð Helga Þórisdóttir gefur kost á sér í forsetakosningunum.
Forsetaframboð Helga Þórisdóttir gefur kost á sér í forsetakosningunum. — Morgunblaðið/Eggert
Helga Þórisdóttir varð í gær 10. frambjóðandinn í forsetakosningunum sem hefur safnað tilskildum fjölda meðmæla sem þarf til að bjóða sig fram í embættið. „Með sól í hjarta tilkynni ég hér með að ég hef náð undirskriftunum í meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Helga Þórisdóttir varð í gær 10. frambjóðandinn í forsetakosningunum sem hefur safnað tilskildum fjölda meðmæla sem þarf til að bjóða sig fram í embættið.

„Með sól í hjarta tilkynni ég hér með að ég hef náð undirskriftunum í meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð. Þessu fagna ég á þessum fallega degi, sumardeginum fyrsta, og vil nota tækifærið og óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars,“ skrifar Helga í yfirlýsingu.

Það mátti ekki mikið seinna vera hjá Helgu, en framboðsfrestur til embættisins rennur út klukkan 12 á hádegi í dag. Ber frambjóðendum þá að skila listum með meðmælum frá 1.500-3.000 kjósendum.

Landskjörstjórn tekur við framboðum til forseta Íslands á milli klukkan 10 og 12 í dag í Hörpu. Farið verður yfir meðmælalistana um helgina og frambjóðendur látnir vita ef eitthvað þarf að lagfæra.

Þau tíu sem hafa að eigin sögn náð lágmarksfjölda meðmæla eru: Arnar Þór Jónsson, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Helga Þórisdóttir, Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Helstu dagsetningar

Í dag rennur út framboðsfrestur. Landskjörstjórn fer þá yfir meðmælalista.

2. maí verða framboð að hafa skilað lagfæringum á meðmælalistum ef þarf. Kosning utan kjörfundar hefst.

31. maí lýkur kosningu utan kjörfundar erlendis.

1. júní verða almennar kosningar til forseta.

Höf.: Anton Guðjónsson