Sigrún Dúfa Helgadóttir fæddist í Reykjavík 25. október 1942. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 16. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Ólöf Sigurjónsdóttir, f. 4. október 1923, d. 28. september 1994, og Oscar Scott Fraley, f. 20. febrúar 1919, d. 27. ágúst 1984. Kjörfaðir: Helgi Eiríksson, f. 13. febrúar 1922, d. 13. nóvember 2009. Systkini hennar eru: Eiríkur, f. 1947, Sigurjón, f. 1949, Ingólfur, f. 1957, Jón, f. 1959, og Anna Sigríður, f. 1963.

Dúfa giftist 27. desember 1959 Lofti Baldvinssyni, f. 27. desember 1936, d. 5. júlí 1993, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Baldvin, f. 4. ágúst 1960, kvæntur Guðrúnu Ástu Franks, f. 2. júlí 1961, börn: Loftur, Jón Þórður og Bryndís. 2) Helgi, f. 13. nóvember 1961, var kvæntur Guðnýju Þorvaldsdóttur, f. 13. febrúar 1956, en þau skildu, sonur: Daníel. 3) Finnur, f. 28. mars 1963, kvæntur Hörpu Hólm Svavarsdóttur, f. 30. ágúst 1963, dætur: Helga og Brynja. 4) Ólöf, f. 22. nóvember 1965, fyrri maður hennar Vilhjálmur Kristinn Garðarsson, f. 3. september 1960, sonur: Daði. Seinni maður Ólafar Kristján Kristjánsson, f. 17. febrúar 1956, dóttir: Helga.

Dúfa giftist öðru sinni 31. desember 1976 eftirlifandi eiginmanni sínum, Gunnari Karlssyni, f. 7. ágúst 1953, dóttir þeirra er Ragnhildur, f. 17. júlí 1978, gift Hirti Jóhannssyni, f. 1. september 1978, börn: Anna Dúfa, Gunnar, Snæfríður og Jóhann.

Afkomendur Dúfu eru 28, fimm börn, 12 barnabörn og 11 langömmubörn.

Hún stundaði hefðbundið barnaskólanám og lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1958. Starfaði að mestu við skrifstofu- og verslunarstörf framan af, en frá árinu 1985 og til starfsloka sem læknaritari hjá Fæðingarheimilinu, Hrafnistu og LSH.

Sigrún Dúfa verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 26. apríl 2024, klukkan 13 og verður streymt frá athöfninni á: streyma.is/streymi

Elsku mamma.

Hvernig kveður maður sinn besta vin?

Frá því að ég var lítil hefur þú verið mín helsta fyrirmynd og því eldri sem ég verð því betur átta ég mig á því hversu mikil áhrif þú hefur haft á mig. Mér var það snemma ljóst, að þú varst óhefðbundin manneskja á margan hátt og skeyttir lítið um skoðanir annarra á þér og þínum ákvörðunum. Það hefur líklega þótt heldur óhefðbundið þegar þú tókst saman við þér 11 árum yngri mann, þegar þið pabbi hófuð búskap, þú 33 ára fjögurra barna móðir og pabbi 22 ára. Vinir þínir eru sumir hverjir áratugum yngri en þú, sem er ekkert undarlegt því þú ert skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst og ég upplifði þig aldrei gamla. Þegar ég var lítil sagði ég þér eitt sinn, að mér þætti það miður að við gætum ekki verið jafnöldrur, því þá hefðum við verið óaðskiljanlegar vinkonur. Ég veit það þó, að það vorum við alltaf, þrátt fyrir aldursmun sem eðlilega er á móður og dóttur.

Þú varst góður uppalandi og settir skýran ramma í kringum tilveru mína en innan rammans var allt í senn, ást og umhyggja, gjafmildi, endalaus uppspretta af sögum af ættmennum okkar, að ógleymdri tónlistinni. Presley var þitt fyrsta átrúnaðargoð en þú hlustaðir á alls kyns tónlist, alla daga, allt frá Beethoven að Bítlunum og aðra nýrri tónlist. Þannig kenndir þú mér að hlusta á klassíska tónlist og mörg af mínum uppáhalds verkum og lögum eru þau sem ég hlustaði á hjá þér í uppeldinu.

Þrátt fyrir að ramminn um tilveruna væri skýr, var tuð og nöldur bannað á heimilinu og þú fékkst mig til að sinna þeim verkum sem lágu fyrir með hvatningu. Þegar ég var í hljóðfæranámi baðstu mig gjarnan að spila fyrir þig, ekki af því að ég yrði að gera það, heldur af því að það gleddi þig svo mikið að heyra mig spila. Þetta fyllti mig stolti og hvatti mig til frekari æfinga.

Eitt af því sem ég dáðist hvað mest að í þínu fari var listfengi þitt sem þú fékkst útrás fyrir með ýmsum hætti. Þú hafðir sérstakt lag á innanhússhönnun og hafðir næmt auga fyrir litasamsetningu. Eins varstu sérlega góður og fyndinn penni og mikil íslenskumanneskja. Ég naut góðs af þessum rithæfileikum þínum þegar ég bjó í Danmörku en þá skrifuðumst við á í tölvupósti, gjarnan oft á dag. Þessi bréf okkar eru mér mikill fjársjóður í dag og þau mun ég geyma um ókomna tíð.

Síðustu 17 ár hefur þú gegnt sérstaklega mikilvægu hlutverki í minni tilveru; þú hefur verið amma barnanna minna. Missir þeirra og söknuður er mér sárastur, því betri ömmu gátu þau ekki eignast. Líkt og með margt annað í þínu lífi varstu óhefðbundin í þessu hlutverki. Börnin mín sakna ömmunnar sem aldrei sagði nei, gat alltaf sagt eina frumsamda sögu í viðbót, færði þeim reglulega litlar gjafir og fann alltaf eitthvað til að hrósa þeim fyrir.

Svo hver er þá niðurstaðan – hvernig kveður maður sinn besta vin? Ég kveð þig með sárum söknuði, elsku mamma, en ekki síst þakklæti fyrir samfylgdina, uppeldið, örlætið, húmorinn, hlýjuna, sögurnar, tónlistina og vináttuna.

Þín

Ragnhildur.

Amma Dúfa var einstök amma og dásamleg vinkona að eiga. Einn af hennar bestu og mestu hæfileikum var að segja sögur og stýra andrúmsloftinu í kringum sig, yfirleitt í þá átt að fólk væri að hlæja og hafa gaman. Flestar samúðarkveðjur til mín síðustu daga hafa enda frekar verið „ég samhryggist“ heldur en „ég votta samúð“ og fólk hefur yfirleitt tekið sérstaklega fram að því finnist það eiga hlut í henni með mér. Náðargáfa hennar var að ná til fólks og kynnast því vel og vinalega á mjög skömmum tíma. Hún hafði lag á því að segja sannar sögur af ættmennum og upplifunum og þannig kynntist ég fjölskyldusögunni og ættmennum hennar. Mínar uppáhaldssögur í æsku voru þessar sögur og munum ég og börnin mín sakna þessara sögustunda sárt.

Ein af sögunum hennar ömmu var af því hvernig hún hitti mig fyrst, pabbi kom með mig heim til hennar og lagði mig í fangið á henni þar sem hún lá uppi í rúmi. Hún lýsti því að hún hefði horft í augun á mér og hugsað með sér: Þarna ertu komin, elsku stelpa, og henni hefði liðið eins og við hefðum alltaf þekkst. Þessa sögu endurtók hún svo af og til og stillti þannig alltaf saman strengi okkar og bönd.

Amma hafði einstakt lag á því að láta fólki í kringum sig líða vel og líða eins og hún skildi allt sem það var að ganga í gegnum og upplifa. Þannig fannst mér hún heimsins skemmtilegasta amma þegar ég var barn og fékk að borða kremkex uppi í rúmi. Hún var líka svalasta amma í heimi þegar ég var unglingur og hún fór með mig og keypti buxur sem mig dreymdi um að eignast. Hún var líka skilningsríkasta amma og best þegar ég eignaðist tvíburadrengina mína og henni tókst að láta mér líða eins og hún skildi allt sem ég væri að ganga í gegnum. Það besta var að henni tókst alltaf, í öllum aðstæðum og æviskeiðum, að láta mér líða betur og hvetja mig áfram og styrkja. Það var sama hvort samtalið snerist um að skipta um vinnu eða hvort ég ætti að kaupa nýja skó, amma var alltaf til staðar og tókst með ótrúlegri lagni alltaf að gera allt betra. Þessu hlutverki í lífinu tókst henni að sinna gagnvart mörgum fleirum en bara mér. Þannig vissi ég t.d. alltaf hvernig gengi hjá öllum öðrum í hennar lífi, sérstaklega barna- og barnabörnum, það verður erfitt að fylla upp í það tómarúm og við fjölskyldan þurfum mögulega að ráða einhvern í ritarastarf til að sinna þessari upplýsingaskyldu og fréttaflutningi innan fjölskyldunnar.

Það er lífsins lukka að börnin mín hafi líka fengið að eiga hana að sem ömmu og fengið að kynnast því hvað það er gaman að eiga fyndna ömmu sem hlustar ekki á boð og bönn. Gaukar að þeim nammi, veitir þeim endalausa athygli og fylgist með öllu í lífi þeirra af miklu stolti.

Ég ætla að enda á hennar eigin orðum og benda lesendum vinsamlegast á að taka vel eftir því hversu marga og flotta, gáfaða og fallega afkomendur amma Dúfa átti. Enda vorum við öll hennar helsta stolt og gleði í lífinu.

Helga Finnsdóttir.

Elsku amma Dúfa.

Þú varst svo sannarlega einstök kona og ég er þakklát fyrir allar þær hlýju ömmuminningar sem ég á. Ég man vel eftir gistinóttum hjá ykkur afa í Torfufellinu. Þar var notalegt og gott að vera. Sundferðir í Breiðholtslaug með afa og ömmupönnsur á eftir. Það var toppurinn. Litli garðurinn alltaf svo huggulegur og fullur af sumarblómum, eins og síðar svalirnar í Þverholtinu. Þú varst alltaf svo smart og fegraðir heimilið með fallegum munum.

Margir hlutir og skrautmunir fá mig til að hugsa til þín: „Jii hvað þetta er ömmulegur vasi,“ og ég veit að þess konar hugsanir munu vekja söknuð, en fyrst og fremst hlýju, í framtíðinni.

Mér þótti alltaf gaman að hlusta á þig rifja upp gamla tíma. Þú sagðir skemmtilega og lifandi frá, varst ekkert að skafa utan af hlutunum, skelltir í dass af kaldhæðni hér og þar og aldrei var langt í húmorinn.

Þú varst svo sannarleg óspör á hrós og svo einlæglega stolt af öllum afkomendum þínum. Ef ég loka augunum get ég séð þig fyrir mér og heyrt þig hrósa mér, Jóa sæta (eins og þú kallaðir manninn minn alltaf) og dætrum mínum, Karen og Kolbrúnu, fyrir hina og þessa hluti. Ég mun svo sannarlega sakna allra ömmuhrósanna. Svo ekki sé minnst á þéttustu knúsin og ömmukossana.

Ó elsku besta amma Dúfa, þín verður sárt saknað.

Hvíldu í friði.

Þín

Brynja.

Elsku besta amma, það er skrýtið að þú sért allt í einu farin og síðustu dagar hafa verið óraunverulegir. Allar minningarnar um þig hafa blossað upp í huganum. Það sem þú gast dekrað við okkur bræður þegar við komum og gistum í Torfufellinu í gamla daga, svarti húmorinn sem fékk mann alltaf til að hlæja og allar skemmtilegu sögurnar sem þú sagðir og alltaf var hægt að tala við þig sama hvað það var. Skemmtilegri, fyndnari, blíðari og meiri karakter trúi ég ekki hafi gengið á jörðinni. Betri ömmu hefði ekki verið hægt að hugsa sér.

Endalaus ást og saknaðarkveðjur elsku besta amma og vonandi hittumst við einhvern tíma aftur.

Kveðja,

Loftur Baldvinsson.

Amma Dúfa var litskrúðug kona með sterk persónueinkenni og ákveðnar skoðanir sem erfitt (og þá meina ég: ómögulegt) var að hagga. Hún hafði gaman af fólki, sögum og ekki síst þegar þetta sameinaðist í sögur af fólki. Henni fannst skemmtilegt að hafa orðið, hafa áheyrendur og gat reyndar talað við hvern sem er, um hvað sem er. Til að mynda spurði hún starfsfólk á gjörgæslunni, nýkomin úr öndunarvél, hvenær þau ættu afmæli. Alltaf tilbúin í spjall. Amma Dúfa var mikill húmoristi, hafði kaldhæðinn og svartan húmor en ótrúlega bjartan hlátur sem endaði oft í einsatkvæðisorði eins og t.d. „já“ sem fjaraði svo út með hlátrinum. Ég geri ráð fyrir (og vona!) að ég muni aldrei gleyma hlátrinum hennar.

Við náðum að ræða ýmislegt á hennar síðustu dögum. Meðal þess sem bar á góma var fólkið hennar í Bandaríkjunum. Þannig var nefnilega að amma var „kanabarn“ og afskaplega stolt af því. Líffræðilegur faðir hennar, Oscar Scott Fraley frá Kentucky í Bandaríkjunum, var einn þeirra bandarísku hermanna sem námu hér land í seinni heimsstyrjöld. Oscar fór af landinu 1944 þegar bandamenn hófu innrásina í Normandí. Þau feðgin hittust aldrei eftir það, höfðu þó talast við í síma. Ljóst var að ömmu fannst hana vanta tengingu í þennan föðurlegg sinn. Þetta var henni alla ævi gríðarlega hugleikið. Í fjölskyldunni er oft talað um „amerísku genin“. Jafnan er getið í eyður hvaðan viss persónueinkenni og taktar hjá ömmu sjálfri eða okkur afkomendum hennar eru komin. Ef ekki hefur verið hægt að tengja það við einhvern ákveðinn forföður sem við höfum þekkt þá er því oftar en ekki klínt á Oscar. Í okkar síðasta samtali ræddum við m.a. um að fara til Kentucky og heilsa upp á ættingja okkar þar. Við myndum gera boð á undan okkur og það yrði fínn matur. Ég sé þetta ljóslifandi fyrir mér. Amma myndi tala mikið í þessari veislu, svona eins og hennar var vaninn. Þar myndu væntanlega vera nokkrir ókunnugir ættingjar með „höfuðlagið“. Það myndu vera margar sögur og ofgnótt misgóðra brandara sem amma myndi hrista hausinn yfir og segja „ó kræst“. Eitthvað myndi vera „púkó“ en hún myndi hafa feikn gaman af þessu öllu saman og hlæja eins og henni var lagið.

Að lokum vil ég kærlega þakka því starfsfólki Landspítalans sem sinnti ömmu minni af einstakri alúð og umhyggju á síðustu stundum ævi hennar.

Bryndís Baldvinsdóttir.

Elsku amma.

Það er erfitt að hugsa um það að fá ekki að hitta þig aftur, koma í heimsókn og fá sér möndluköku og mjólk, heyra allar skemmtilegu sögurnar frá því að þú varst ung, grínast með þér en verst af öllu að fá ekki að knúsa þig aftur, þetta þétta og hlýja knús. Þú ert án efa besta amma í heimi og ég veit að ég tala fyrir hönd okkar systkinanna þegar ég segi það.

Þú varst heldur ekki bara amma mín heldur líka besta vinkona. Við áttum svo margt sameiginlegt og þú skildir mig alltaf svo vel. Þótt það sé mikið sem ég hefði viljað gera með þér og margt sem við áttum eftir að fá að gera saman er ég svo ótrúlega þakklát fyrir þær stundir sem ég fékk með þér, sem voru heldur betur ófáar.

Ég veit að það eru margir sem taka á móti þér opnum örmum.

Ég sakna þín ógurlega og elska þig allra mest.

Þín nafna,

Anna Dúfa.

Amma mín var stórlynd og sköruleg kona sem og fyrirferðarmikil. Hún læddist ekki með veggjum og ómögulegt var að vita ekki af nærveru hennar. Það fór ekki fram hjá neinum þegar Dúfa var í húsi. Með mikla rödd, sem hún notaði mikið, og félagslynd í meira lagi, var hún iðulega miðpunkturinn í fjölskylduboðum. Húmorinn var mikill og svo sótsvartur að sumum brá við. Amma Dúfa hafði stórar vinnukonuhendur sem hún notaði mikið um ævina, bæði við vinnu og til að sinna börnum og búi. Hún hafði hendur eins og bergrisi og var þess vegna stundum kölluð amma krumla. Þessar stóru hendur notaði hún ekki bara til að sinna skyldum sínum í lífinu heldur einnig til að sýna öðru fólki ást um umhyggju. Stóru krumlurnar hennar ömmu hafa haft nóg að gera við að veita umhyggju því nóg var af vinum, stór fjölskylda, margir afkomendur og aðrir aðstandendur. Krumlurnar hennar ömmu voru ekki bara stórar og sterkar, heldur hlýjar og notalegar, eins og konan sjálf.

Það gustaði stundum um Dúfuna en alltaf sveif Dúfan í gegnum storminn með hlýju, æðruleysi og einlægni að vopni, svo ekki sé talað um stuðning frá aðstandendum sem studdu hana fram á síðasta dag. Sá stuðningur er ekki sjálfsagður enda krefst það alúðar, natni og umhyggjusemi að rækta tengslin við fólkið sitt. Það gerði amma Dúfa og gerði vel.

Þegar Dúfan var sótt heim var alltaf von á mörgum löngum og skemmtilegum sögum. Betri sagnamanneskju var erfitt að finna. Sögurnar voru úr þátíð eða nútíð og voru sagðar af mikilli innlifun, ýkjum, dramatík, blæbrigðum og miklum leikrænum tilþrifum. Allt sem skemmtileg saga þarf að hafa, setti amma mín í góðan pakka svo úr varð mikil skemmtun fyrir hlustendur.

Dúfan með hlýju bergrisakrumlurnar skildi mikið eftir sig. Fullt af afkomendum, margar eftirminnilegar uppákomur, margar sögur en umfram allt var hún risastór persónuleiki sem mikið fór fyrir. Hinn stóri karakter Dúfunnar skilur eftir sig tóm sem allir samferðamenn hennar finna mikið fyrir.

Dúfan er svifin yfir móðuna miklu en hún svífur áfram í hugum og hjörtum þeirra sem þótti vænt um hana. Þeir eru býsna margir.

Jón Þórður (Doddi) og synir í Mávahlíð.

Mig langar til að minnast hennar Dúfu systur minnar með örfáum orðum.

Ég ætla ekki að fjalla um lífshlaup hennar, það verða aðrir til þess.

Dúfa stórasystir mín var á fimmtánda ári þegar ég fæddist og sagðist hún hafa verið fyrsta barnfóstra mín. Hún sagðist líka hafa verið fyrsti söngkennari minn og hafa staðið fyrir fyrstu tónleikum mínum tveggja ára í strætó og ég fengið standandi lófatak. Hún sagði að efnisskráin hefði verið „Ég sá hana fyrst í sumar sem leið“ og „Nú andar suðrið“. Ég man reyndar ekki eftir þessu sjálfur en hef heyrt það nógu oft frá henni til að í mínum huga er þetta rétt.

Dúfa hafði gaman af að segja frá ýmsu, sem hún gerði skemmtilega, enda lík móður okkar í því að góð saga átti ekki að líða fyrir sannleikann.

Það var mikil gæfa hennar þegar hún kynntist honum Gunnari seinni eiginmanni sínum, en hann reyndist henni ákaflega vel, ekki síst síðustu árin þegar heilsa hennar fór að gefa sig.

Ég náði að kveðja hana og óska henni til hamingju með 17 ára edrúafmælið þennan dag, en tveimur tímum síðar var hún látin.

Ég kveð hana Dúfu systur með miklum söknuði, en harmur Gunnars og barna, barnabarna og barnabarnabarna hennar er enn meiri.

Ég votta Gunnari, Baldvini, Helga, Finni, Ólöfu, Ragnhildi og öðrum afkomendum mína dýpstu samúð.

Ingólfur bróðir.

Margs er að minnast á löngum tíma. Fyrstu minningar mínar af okkur Dúfu eru frá því þegar við sátum saman á rúminu og Dúfa sagði mér sögur, sem flestar voru frumsamdar, eða hún söng fyrir mig.

Eftir að Sigurjón bróðir okkar fæddist breyttust sögurnar í framhaldssögu þar sem Karólína kónguló ásamt manni hennar járnsmiðnum voru aðalsögupersónurnar. Þegar Dúfa var komin í Kvennaskólann kenndi mamma henni að dansa fyrir dansæfingar og þá var ég dansherrann og nýttist það mér mjög vel seinna meir.

Eftir að Dúfa giftist Lofti og flutti suður í Njarðvíkur kom ég oft til þeirra, meðal annars til þess að gæta barnanna. Voru þær ófáar helgarnar sem ég var þar. Seinni árin voru oft löng símtöl milli okkar þar sem ýmislegt var rifjað upp, sérstaklega árin í Karfavoginum.

Þegar Dúfa hafði kynnst Gunnari féll hann strax inn í hópinn. Nú seinni árin hittumst við systkinin ásamt mökum oft kringum afmæli pabba og mömmu.

Nú þegar komið er að leiðarlokum þökkum við Tóta samfylgdina og sendum Gunnari, Baldvini, Helga, Finni, Ólöfu, Ragnhildi og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Eiríkur (Eiki) bróðir.

Þegar ég fetaði upp stigann í Eskihlíðinni kvöld nokkurt fermingarsumarið mitt, á leið að passa fyrir einhverja Dúfu, grunaði mig síst að leiðir okkar myndu liggja saman það sem eftir væri. Hún var nýskilin, að fara út á djammið, hafði flutt úr Njarðvíkunum þar sem hún hafði verið útgerðarmannsfrú og borist talsvert á. Hún átti skemmtilega krakka og mikið af plötum. Sjálf var hún með skemmtilegustu manneskjum sem ég hef hitt, andrík og vel lesin og einstaklega orðheppin. Hún gerði þá kröfu að viðmælendur hennar væru þannig líka og fátt var verra en að vera leiðinlegur og illa gefinn. Enda hafði hún þannig áhrif að maður varð leiftrandi af andagift og aldrei fannst mér ég eins skemmtileg og þegar við Dúfa náðum okkur á strik. Það gekk á ýmsu á þessum árum en alltaf þurfti hún pössun og aðstoð við þrif. Segja má að hún hafi séð mér fyrir vasapeningum allan menntaskólann. Eftir að ég tók stúdentspróf um jól stakk hún upp á að við færum á vetrarvertíð á Hornafjörð, hvað við og gerðum. Afskaplega lærdómsríkur tími, áður en málefni farandverkafólks bar alminlega á góma. Sú ferð varð örlagarík fyrir hana því þar kynntist hún Hornfirðingnum honum Gunnari sem hefur verið hennar lífsförunautur síðan. Eftir það lengdist á milli okkar, ég fór á flakk, hún að búa. Það kom í ljós að hún var mjög flinkur bréfritari, dró upp myndir í sterkum litum á síðum bréfanna.

Hún var stór manneskja, hún Dúfa. Hún var líka raungóð og sýndi mér meiri tryggð en ég henni. Hún hafði mikil áhrif á það hvernig ég þroskaðist á unglingsárunum og fyrir það er ég þakklát. Hvíl í friði.

Ragnhildur.

Dásamleg kona er fallin frá. Við Dúfa kynntumst þegar hún á efri árum gerðist ritari á taugadeild Landspítala þar sem ég var að störfum. Úr varð vinátta sem varað hefur allar götur síðan. Við hittumst og töluðum saman á vinnustaðnum, svo þegar hún hætti heyrðumst við aðallega í síma. Fyrir utan fjölskyldumeðlimi mína efast ég um að ég hafi talað meira í síma við nokkurn annan en Dúfu, og símtölum fór fjölgandi frekar en hitt. Það var gaman og gott að tala við Dúfu. Vináttu okkar má alveg kalla trúnaðarvináttu, við ræddum marga hluti og fólk úr sögu okkar og samtíð, samfélag okkar og svo okkur sjálf og okkar fólk. Dúfa réð vel við orðin, hún var fluggáfuð og hafði kímnigáfu á við snillinga. Ég sá ekki margt af hennar fólki en vissi vel af því í gegnum samtöl okkar. Því miður rataði ég ekki oft í heimsókn til hennar og Gunnars, hennar góða eiginmanns, sem hún talaði um af mikilli virðingu og vinarhug. Við Finnbogi vinur minn og félagi af taugadeildinni, og Dúfu, hittum hana þó á heimavelli hennar fyrir ekki löngu og þá heimsókn geymum við í huga okkar. Ný heimsókn stóð til á næstunni en verður því miður ekki af. Ekki fresta heimsóknum til gamals fólks sem ykkur er annt um!

Við Finnbogi hugsum til okkar góðu vinkonu og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Gunnars og fólksins hennar Dúfu.

Haukur Hjaltason.